Hugi Þórðarson

Strimillinn lengist

Jammogjæja, góðviljað fólk (og hugsanlega eitthvað illviljað fólk líka, hvað veit ég) hefur látið mig fá óhemju af gögnum til að setja á Strimilinn og ég ætla að þræla inn 200-300 strimlum á næstu dögum. Helsta vandamálið er að sumir strimlarnir sem ég hef fengið sýna einbeittan innkaupavilja, eru allt að því metri að lengd, og passa því ekki í litla skannann minn - svo ef einhver á skanna að flatarmáli á við Þingvelli væri sérdeilis ljómandi að fá hann lánaðan.

Ég er búinn að skrá GPS-hnit nokkurra verslana, aðallega upp á grín og gaman til að byrja með en þó með ákveðinn framtíðartilgang í huga. Þegar farið verður að skrá verðupplýsingar í grunninn gæti orðið spennandi að nýta staðsetningargögn til að setja sjónrænt fram verðmun á milli landshluta.

Endilega haldið áfram að senda mér strimla. Gögn sem fara á strimilinn eru ekki persónutengd og verða næstum því örugglega ekki notuð í nornaveiðar eftir byltinguna, svo ekki þarf að fela vandræðalega strimla með Celine Dion-geisladiskum og öðrum hræðilegum, hræðilegum perraskap.