Hugi Þórðarson

Hafmeyjar

Ég sat áðan og forritaði eins og vestanvindurinn, þegar skyndilega rann upp fyrir mér að það er ekki undarlegt að hafmeyjar séu löngu ofveiddar og útdauðar. Hafið þið einhverntíman spáð í hvað þetta er mikil snilldarskepna? Fiskur fyrir neðan mitti, hvítt kjöt fyrir ofan mitti ... forréttur og aðalréttur í einu dýri og meinhollur matur að auki.

Og hér leynast tækifæri, því líftæknifyrirtæki hafa fram að þessu engan veginn staðið sig í þróun nýrra og spennandi matblendinga. Væri ég í sporum Kára Stefánssonar mundi ég núna stökkva til, grípa tækifærið til nýsköpunar í kreppunni og beina öllum mannafla Íslenskrar erfðagreiningar í að splæsa t.d. saman kjúklingi og agúrku - Kjúklingagúrkan yrði samstundis algjör smellur.

Og ég er barmafullur af fleiri góðum hugmyndum svo áhugasamir sælkeraþenkjandi erfðafræðingar mega endilega hafa samband. Ég held að Þorskbananinn og Rollutréð eigi einfaldlega skilið að verða að veruleika.