Hugi Þórðarson

Pöddusulta með rifsberjakeim

Á hverju hausti hef ég búið til rifsberjahlaupið Ye Olde Man Jelly. Ástæðan fyrir því að ég hef alltaf búið til hlaup en ekki sultu er að það er fljótlegt. Það liggur við að maður geti bara rifið upp rifsberjarunna með rótum, soðið hann með sykri og út kemur hlaup. Fullkomið fyrir latan upptekinn mann eins og mig.

En nú eru helstu lánalínur til landsins lokaðar svo ég ákvað að gera sultu í ár. Maður getur ekki leyft sér að henda góðu hrati í þessu árferði.

Atli samvinnuður minn er góðhjartaður maður og smyglaði í vikunni til mín stórum poka af rifsberjum úr Kópavoginum sem ég byrjaði að hreinsa í morgun. Ég hafði ekki notað ber úr Kópavogi áður og það sem kom mér helst á óvart við þau var að sum berin fengu skyndilega átta fætur og gerðu örvæntingarfullar flóttatilraunir þegar ég reyndi að plokka þau af. Við nánari skoðun reyndist leynast talsverður fjöldi gesta í hrúgunni - aðallega litlar berjaætur með rifsber langt út á kinnar og köngulær með litlar berjaætur langt út á kinnar. Hópurinn horfði allur á mig með svip sem lýsti miklum vonbrigðum yfir að partýið væri búið.

Við Óskin vorum tæpa 2 tíma að hreinsa berin frá laufinu og pöddunum og þegar því var lokið vorum við með þrjú kíló af berjum, 300 grömm af stilkum (í hleypi) og hálft kíló af pöddum og köngulóm. Þetta sauð ég samviskusamlega saman við tvö kíló af sykri og út kom hin ljúffengasta rifsberjasulta, með léttum, hnetukenndum pöddukeim.

Nú vantar mig bara gott nafn á afurðina í ár.

{macro:km:picture id="1000604"}