Hugi Þórðarson

Blóðpeningar

Mér finnst leiðinlegt að pæla í peningum. En á þessum síðustu og sérdeilis frábærustu tímum er maður samt farinn að skoða bókhaldið reglulega og rannsaka hvar skera má niður í útgjöldum heimilisins. Ég er t.d. hættur að borða rússneskan kavíar, í staðinn fer ég niður að höfn og kreisti úr nokkrum ufsum í krukku. Og í staðinn fyrir sjónvarpsgláp semjum við Ósk litla leikþætti sem við flytjum fyrir hvort annað á kvöldin. Í gærkvöldi flutti ég t.d. þögla dramaeinleikinn "Dapri einbúinn" sem vakti mikla lukku. Heilmikill sparnaður þar.

En já, einu komst ég að þegar ég fór að rýna í bókhaldið fyrr á árinu, og það er hversu viðurstyggilega dýrt það er að eiga og reka bíl. Díselolía, frostlögur, stýrisvökvi, bremsuvökvi, smurningsolía, tryggingar, bifreiðagjöld, rafgeymar, bremsudiskar, bremsuborðar, bifreiðaskoðanir, olíusíur, loftsíur, rúðuvökvi, hjólbarðar, rúðuþurrkur, sjálfskiptingarvökvi o.s.frv. o.s.frv. Listinn yfir dekrið sem þessi skrímsli þurfa er endalaus.

Svo ég seldi Blakk (sem var 10 ára gamall Range Rover) í apríl. Og mér reiknast svo til að á þessu hálfa ári síðan ég seldi hann og skipti yfir í reiðhjólið sé ég búinn að spara mér meira en 350.000 krónur. Og auk þess græddi ég rass og læri sem geta skorið gler.

Hér fyrir neðan má sjá grófan útreikning á því hvað kostar að eiga og reka tiltölulega gamlan bíl. Ég var fremur hófsamur í útreikningunum. Liðurinn Fjármagnskostnaður er varlega áætlaður út frá kostnaði við að vera með milljón bundna í bílnum, sem ég gat notað til að greiða inn á lán (ódýrustu lánin bera sem stendur a.m.k. 15% raunvexti).

Blakkur
  Mánaðarlega Árlega
Eldsneyti 15.000 180.000
Fjármagnskostnaður 12.500 150.000
Lækkun verðmætis (afskriftir) 10.000 120.000
Tryggingar 6.300 75.600
Skoðun 700 8.400
Bifreiðagjald 3.500 42.000
Smurning 1.200 14.400
Annað viðhald 10.000 120.000
  59.200 710.400

Þetta eru viðurstyggilega miklir peningar fyrir venjulegt heimili. Og ef þú vilt spara, þá er það alveg þess virði að íhuga hvort reiðhjólið (eða hið margrómaða almenningssamgöngukerfi borgarinnar) sé kostur í stöðunni.