Drulluburður

17. mars 2005

Ég lenti fyrir skemmstu í þeirri frábæru lífsreynslu að skemmta á hagyrðingamóti í Þorlákshöfn og verð að segja að þessar samkomur eru algjör snilld, enda tilheyra hagyrðingar þeim skemmtilega hópi fólks sem maður getur að ósekju hlegið bæði að og með.

Í kjölfar þessarar merku lífsreynslu fékk ég mikinn og skyndilegan áhuga á slæmum kveðskap og er farinn að sanka honum að mér. Til að lífga upp á föstudaginn fylgja tvær vísur sem frægar eru fyrir slæmleika sinn og hverra höfundar eiga að mínu mati skilið að fá nælda í barminn Hina íslensku Fálkaorðu fyrir leirburð.

Doddi litli datt í dí,
og meiddi sig í fótnum.
Hann hefur aldrei upp frá því,
orðið jafn góður í fótnum.
Reynir litli á Reynisstað
Hann er voða fjörkálfur
Hleypur um allt í Þorlákshöfn
Ekki má Hann pilsfald sjá
Þá er voðinn vís
Giftur maðurinn

Einmitt.

Ef þú (hver sem þú nú ert) lumar e.t.v. á kauðslegum kveðskap, lélegri limru eða ferlegri ferskeytlu þá máttu gjarnan koma fyrirbrigðinu til mín hið snarasta.

PS: þess má geta að seinni vísan ku vera eftir Færeying. Ekki fylgir sögunni hvort hann lærði fyrst; að tala íslensku eða að yrkja á íslensku.


Tjáskipti

Tjáskiptaðu þínu eigin tjáskipti í tjáskiptin