Hugi Þórðarson

20. Jul 2016 11:39
14. Sep 2015 18:09
11. Sep 2015 17:22
10. Sep 2015 16:34
10. Sep 2015 16:34
10. Sep 2015 09:20
9. Sep 2015 17:49
7. Sep 2015 00:07
18. Apr 2014 15:26
18. Apr 2014 15:07


Þvottaduft

23. apríl 2008

Ég er einfaldur maður, lifi einföldu lífi og hef einfaldar þarfir. Það eina sem ég þarf er gott kaffi, góður matur og djass. Og. Ég vil *ekki* að það sé þvottaduftslykt af þvottaduftinu mínu.

-

Ég tók eftir því um helgina að Mt. Þvottur var orðið snævi þakið á tindinum. Það er ótvíræður vorboði og merki um að það sé kominn tími á að þvo ("Þvottadagur" er skv. trú ættbálksins míns síðasti þriðjudagur fyrir sumardaginn fyrsta). Svo ég fór í eituraefnagallann, réðist á fjallið og sorteraði það í buxnameli, nærbuxnahóla, handklæðadali og tígrisþvengjatinda - og svo eina dularfulla litla hrúgu með hlutum sem voru fubar, of krumpaðir til að hægt væri að bera kennsl á þá.

En þegar ég ætlaði að ráðast í sjálfa framkvæmdina varð ég var við hráefnisskort í þvottaefnisdeildinni. Svo ég fór í síðustu hreinu fötin (blár kjóll með rauðum blómum sem ég á af einhverri ástæðu inn í skáp - mjög vorlegur) og trítlaði út í búð.

Fyrir mér er þvottaduftsdeildin í kjörbúðinni eins og villtur frumskógur fullur af þvottaduftsdýrum. Skrautlegir litríkir feldir eru aðferð þvottaduftsdýrsins við að segja "Varúð! Eitur! Ekki snerta!" svo ég vel alltaf hvíta kassa, helst með nafni eins og "neutral". Það er róandi og gott nafn á þvottaduft. Ég forðast alltaf kassa með upphrópunarmerkjum og orðum eins og "Ultra" eða "Max" eða "Super", ég er að kaupa þvottaduft, ekki geimflaugar eða kjarnaodda.

Þetta gerði ég í gær. Hvítur kassi, engin upphrópunarmerki, allir sáttir. Svo þegar ég kom heim gat ég stokkið óhræddur á þvottafjallið eins og kynsveltur þvottabjörn um fengitímann og hafist handa við að refsa því af innlifun.

En strax og ég tók úr fyrstu vélinni fann ég að eitthvað var rangt. Það var einhver Gunnar í Guðmundinum. Það var... lykt... af þvottinum mínum. Ég gretti mig og fór og lyktaði varlega upp úr kassanum. Það var... lykt... af þvottaduftinu mínu! Þvottaduftinu MÍNU, hvernig dirfast þeir! Ég leit á pakkann, og jújú - ég hafði verið gabbaður af eitruðu þvottaduftsdýri í felubúningi sem hét auðvitað "ultra max super white fun explosion! happy! happy!" (minnir mig).

Ég gretti mig aftur. En hélt áfram að þvo, þetta gat ekki verið svo slæmt. Ég var svo saklaus ungur maður í þá tíð.

Og núna þarf ég að taka afleiðingum gjörða minna. Hér sit ég við morgunverðarborðið, ilmandi eins og nýþvegin klósettskál. Og þar sem öll fötin mín ilma af þessari gólfbónslykt, sem er verri en mysingur og nasismi samanlagt, þarf ég að sitja í henni allan daginn næstu dagana. Þetta endar með þunglyndi og drykkju. Jafnvel heimsendi.

Ég ætla að leita uppi manninn sem fann upp þvottaduftsilm. Og ég ætla að refsa honum í nafni mannkyns og alls þess sem er gott í heiminum.