Dagar slíms og hósta

2. júní 2005

Jæja, þá er bronkítisinn snúinn aftur til að lífga upp á vorið. Ég er búinn að liggja í rúminu í fimm daga og fyrir utan gult, seigt slímið sem gusast út úr öllum níu götunum á líkamanum á mér, þurran hóstann sem skekur mig eins og Satan sé að nudda glerbrotum í lungun á mér, 39 stiga hitann sem skilar sér í furðulegum órum og deliríumi, æst svitaköstin sem valda því að þegar ég fer fram úr rúminu (venjulega til að hósta upp óvenju ógnvekjandi slímhráka) heyrist hljóð eins og franskur rennilás sé rifinn upp, og svarta pokana undir augunum sem ég þarf að passa mig á að stíga ekki á þegar ég geng, hef ég það bara fínt, takk fyrir að spyrja.

En svo maður líti nú á björtu hliðarnar, þá get ég núna farið á Star Wars III í bíó og vakið athygli fyrir að hljóma nákvæmlega eins og sjálfur Svarthöfði þegar ég anda, auk þess sem ég verð eflaust kominn með karlmannlegri magavöðva en Ahnold þegar ég kemst á fætur, af hósta-tengdum harðsperrunum að dæma.

Meðfylgjandi er mynd af graskeri með bronkítis.

Fróðleiksmolinn: Sé maður með endalaust nefrennsli í svefni og vöku, þá er ekki sexí að vera með skegg.


Tjáskipti

Tjáskiptaðu þínu eigin tjáskipti í tjáskiptin