Tímarnir breytast

15. júní 2005

Uppáhalds vefurinn minn þessa vikuna er timarit.is en þar má finna ógrynni af gömlum tímaritum, þ.á.m. Austurland og Austra frá upphafi síðustu aldar. Ég á eflaust eftir að vitna allnokkuð í framliðna sveitunga mína á næstunni, en til að byrja með er hér skemmtileg tilvitnun af blaðsíðu 2 í Austurlandi frá 20. ágúst 1907:

Vínsala á Austurlandi er á förum

Gleðileg tíðindi

Það eru nokkur ár síðan vínsölu var hætt á flestum fjörðum Austurlands, og nú er svo komið að henni er allstaðar hætt nema á Eskifirði. Hér hefur verið haldið lengst út, og vín hefir verið selt hér við tvær verzlunir. Þessi vínsala hér síðustu árinn hefir haft illar afleiðingar fyrir verzlunarstaðinn. Mest áberandi hefir það verið, að á sumrum er hér æði margt af útlendum verkamönnum, og þeir hafa víst sumir drukkið hér upp laun sín, og verið lítt vinnufærir dögum saman.

Nú höfum vér það fyrir satt, að báðir stórkaupmennirnir, sem hafa umráðinn yfir vínsöluverzlununum, hafi heitið því að hætta vínverzlun hér um næsta nýár, og engin ástæða er til að efast um að þeir standi við þessi heit sín.

Yfir þessu munu allir Reyðfirðingar og Eskfirðingar* fagna, og kunna þeim þakkir fyrir.

Já, það má að sönnu segja að tímarnir breytist og mennirnir, viðmiðin og samfélagið með.

* Blessaðir Eskfirðingarnir og Reyðfirðingarnir, strax þarna orðnir svo illa þjáðir af minnimáttarkennd gagnvart stóra þorpinu við Norðfjörð að þeir þora ekki einu sinni að nefna það á nafn í litla fréttablaðinu sínu. Já, það er ekki auðvelt að tilheyra smáfólkinu og því eðlileg og góð þróun þegar Norðfirðingar yfirtóku stjórn Eskifjarðar og Reyðarfjarðar. Sumu fólki þarf bara að bjarga frá sjálfu sér ;-).


Tjáskipti

Tjáskiptaðu þínu eigin tjáskipti í tjáskiptin