Smá gagnrýni

30. janúar 2006

Mér leiddist í gærkvöldi og ákvað að kíkja á myndina "The Net 2.0". Ég sá strax á fyrstu sekúndum myndarinnar að þetta yrði slæm lífsreynsla, en það kom einhver þrjóska upp í mér og ég ákvað að ég skyldi klára að horfa á hana, sama hversu slæm hún yrði. Ég gerði mér því miður enga grein fyrir því að þessi mynd er ekki "léleg" í hefðbundnum skilningi, heldur frekar holdtekja hins illa.

Þegar myndin var hálfnuð var hún orðin svo vond að ég lenti hreinlega í andnauð af leiðindum. Fljótlega upp úr því fékk ég öflugt krampakast, beit álitlegt stykki úr tungunni á mér og ældi yfir mig allan. Þarna lá ég máttvana á gólfinu í súrum ælupolli, búinn að missa alla stjórn á hægðum, og kláraði að horfa á myndina, en rétt áður en hún endaði missti ég í einni andrá alla trú á mannkynið. Ég hágrét í samfellt 5 tíma og sofnaði ekki fyrr en kl. 6 í morgun, en þá fékk ég ítrekaðar martraðir um myndina, og þegar ég vaknaði, sveittur og öskrandi, reyndi ég að draga minninguna um hana út úr hausnum á mér með klaufhamri. Núna ligg ég hér alblóðugur og finn lífið blessunarlega fjara út. Dauðinn verður frelsun.

Ekki sjá þessa mynd. Hún er ekki góð.


Tjáskipti

Einar

hmm.... hljómar vel. Hafði nú hugsað mér að sjá þessa mynd, en þú ráðleggur sem sagt að bíða eftir 3. myndinni?

Hugi

Já, ég mæli með því að við bíðum eftir þriðju myndinni. Þ.e. með að drepa höfundinn og vanvirða líkið af honum.

Stefán Arason

HAHAHAHAHA! Ég ætla ekki að sjá þessa mynd. En aftur á móti sá ég Charlie and the Chokolate factory. Þvílík schnild!

Olla Z.

Fannst King Kong of löng og Tjarlí og Tjokkolett faktorí með of mikið af söngvaatriðum. Hvað er að verða um mig. Prófaði að horfa á LOTR, Hilmir snýr heim í gær til að athuga hvort ég væri að breytast í leiðindapúka og fékk enn sama nördalega kjánagleðihrollinn svo ég hef ekki breyst. Vorkenni þér lítið yfir dauða þínum eftir áhorf þessarar myndar þar sem þeir sem hafa séð fyrri myndina vita flestir hvað framhaldið gæti mögulega innihaldið. Skammastu þín! Mun samt syrgja þig. Við hvern á ég nú að skiptast á mynt?

Hugi

Engar áhyggjur, ég fékk aðhlynningu og geðhjúkrun og er reiðubúinn að verða hluti af mannlegu samfélagi aftur. King Kong fannst mér eins og að horfa á tölvuleik, en Kalli fannst mér ágætur, aðallega vegna þess að oompa-loompa kvikindið minnti mig á Davíð Oddsson og gat skemmt mér alveg endalaust yfir því.

Tjáskiptaðu þínu eigin tjáskipti í tjáskiptin