Nú er ég alveg hlessa

6. júní 2006

Furðulegheitin ætla engan enda að taka í þessari blessuðu blokk.

Ég kláraði loksins Vikuna í gærkvöldi, þrátt fyrir ítrekaðar truflanir þegar trúaða fólkið sem er að smíða á efri hæðinni byrjaði að bera upp búslóðina sína. Svo ótrúlega sem það hljómar, þá heyrði ég ekki betur en að þau létu smiðinn með astmann hjálpa sér og karlgreyið var alveg að sálast úr mæðu. Það mætti halda að það væri verið að refsa honum, kannski hefur hann klúðrað einhverju í smíðunum. Ég skil það samt ekki, því háværa konan hans hrópaði á hann tíu í einkunn fyrir allt sem hann smíðaði.

En jæja, seinna um kvöldið ætlaði ég að fara út með ruslið, og hvað sé ég þegar ég kem fram annað en slóð sem lá frá útidyrunum og upp alla stigana - og af hverju? Jú, fötum. Hugsið ykkur bara, það hefur einhverjum legið alveg rosalega á að komast upp til sín, líklega á klósettið, svo hann hefur misst öll fötin sem hann var í.

Ég fór niður með ruslið og gekk svo upp stigana og tíndi upp öll fötin. Og hvar haldið þið að slóðin hafi endað, annarsstaðar en við dyrnar hjá Frú Vigdísi, blessaðri, sem býr við hliðina á Önnu!

Ég hagræddi fatabunkanum í fanginu og hringdi bjöllunni hjá Frú Vigdísi. Dyrnar opnuðust fljótlega og í gættinni stóð Frú Vigdís brosandi í bleikum náttslopp með fálkaorðuna í kraganum. "Nei Hugi minn, ert þetta þú. Æ, en gott að þú skyldir koma, ég var einmitt að klára nýtt ávarp og bráðvantar að vita hvað þér finnst. Viltu ekki koma inn og fá þér kaffi og kleinur?".

Ég hóstaði vandræðalega og sagðist vera á hraðferð, en rétti fram fatabunkann sem ég var með í fanginu og spurði hvort hann hefði misst þetta. Til áhersluauka tók ég rauðan þveng úr bunkanum og lyfti upp með fingrinum.

Frú Vigdís horfði á mig tómum augum. "Nei vinur, ég er alveg hætt að ganga í þvengjum, þeir skerast svo skelfilega upp í [ritskoðað]". Hann átti ekki fötin.

Og nú sit ég hér alveg gat og drekk te og horfi á dularfulla fatabunkann sem liggur á eldhúsborðinu. Hvað er í gangi hérna, hver skilur eiginlega eftir svona fín föt á ganginum? Ég hef þó lagt saman tvo og tvo og veit að það hlýtur að vera klæðskiptingur, því hann gengur í kvenmannsfötum undir venjulegu fötunum sínum.


Tjáskipti

Sveinbjörn

Kannski ertu með split personality, eins konar Tyler Durden alter-egó sem gengur í kvenmannsfötum að þér óvituðu?

Kalli

Til hamingju Hugi. Þú virðist leika í Jeunet og Caro bíómynd að sjálfum þér óafvitandi. Býðurðu mér með til Cannes þegar þar að kemur?

Elma

Alveg eruð þið snillingar,, bæði tvö LOL

Hugi

Neinei, Sveinbjörn, langt í frá. Ég veit vel af því að ég geng í kvenmannsfötum. Kalli, auðvitað kemurðu með til Cannes. Elma, ég veit ekkert hvað þú ert að tala um, ég er hér bara í mínum eigin heimi að skrifa um þessa stórfurðulegu viðburði í blokkinni minni. Nema þú sért að tala um Frú Vigdísi, en hún er vissulega snillingur :-).

Kalli

Koma Baggalýtingar oft í heimsókn í stigaganginn fyrst Vigdís býr þarna? Verður hún reið þegar þú spilar Æskuminningu með Fræbbblunum í botni í steríógræjunum þínum? Og vei! Ég fer til Cannes! Scarlet Johannsen veit sko ekki hvað bíður hennar...

baun

skil ekki - þú fannst slóð af karlmannsfötum (plús rauðan þveng) og gerðir því samstundis skóna að frú Vigdís ætti fötin? en ekki t.d. iðni amish kúristinn fyrir ofan?

Hugi

Kalli, nei ég hef ekki orðið var við baggalúta í húsinu. En það eru mjög falleg bergkrystallalög í þvottahúsinu. Og ég heyri aldrei múkk í Vigdísi, nema þegar þjóðsöngurinn er spilaður á Rás 1 í lok dagskrár - þá hækkar hún allt í botn og flappar með á rafmagnsbassa. Og heyrðu, það er nú algjört lágmark að þú vitir hvernig á að stafa nöfn kvenfólksins sem þú ætlar að stalka, ha. Frú Vigdís leynir á sér, baun. Þótt hún gangi ekki í þvengjum lengur. Og það var enginn hattur í fataslóðinni, annars hefði ég farið beint í Amish-íbúðina.

Kalli

Æi... ég biðst forláts. Ég er með fetish fyrir góðu máli og stafsetningu en alltaf þegar ég fer að hugsa um Scarlett bara fer allt í steik hjá mér. Skil ekki alveg hvað er að gerast...

Elín

Skil þig Kalli, það sama gerist hjá mér þegar ég hugsa um G6%7lj= E*´doi

Kalli

Sagðirðu Guðjón, Elín?

Hugi

Jú, hún sagði Guðjón. Held að það sé þessi: <img src="http://althingi.is/myndir/mynd/thingmenn/176/220/mynd.jpg" />

Elín

Vá ég rann úr stólnum... akkúrat gaurinn. Þið lesið mig algerlega strákar :)

Siggi

Frá og með þessum degi skal stigagangurinn ykkar ganga undir nafninu "Gaukshreiðrið". Ég held að það sé það eina rétta í stöðuni. Jafnvel setja einhverskonar viðvörun á innganginn. "ATH! Þú getur annað hvort misst vitið, málið eða fötin þín í þessum stigagangi".

Tjáskiptaðu þínu eigin tjáskipti í tjáskiptin