Einmitt núna

19. júní 2006

Della vikunnar snýst um píanó (sný mér aftur að Landróvernum í næstu viku).

Ég á í dag 15 ára gamalt Yamaha U3-píanó sem mamma og pabbi keyptu þegar lá fyrir mér að verða píanisti. Þetta er ótrúlegt hljóðfæri og ég elska það út af lífinu, enda sit ég og gæli við það með fingurgómunum í a.m.k. klukkutíma á dag. Yfirleitt lengur ef ég hef úthald.

En fyrir skömmu greip mig andartaks geðveiki og ég fór upp í Hljóðfærahús. Ég er nú bara mennskur. Ég kiknaði í hnjáliðunum við að snerta ung og stinn hljóðfæri og sveif út úr búðinni eftir klukkutíma afar fullnægður. Þarna voru ný U3-píanó sem eru jafn æðisleg og mitt gamla en er líka hægt að "þagga í" með að pota í þau heyrnartólum. Þá er hamraverkið aftengt þannig að þau breytast í rafmagnspíanó. Sem þýðir að ég gæti loksins refsað hljóðfærinu allan sólarhringinn án þess að eiga á hættu að nágrannarnir stjaksetji mig.

En svona hljóðfæri kostar litlar 900.000 krónur. Ég get að vísu sett gamla píanóið upp í á hálfa milljón. Og heimildin á VISA-kortinu mínu er einmitt 400.000 krónur. Þannig að í rauninni mundi þetta ekki kosta mig neitt einmitt núna, ekki satt?

Stundum vildi ég óska að ég hefði lært á munnhörpu.


Tjáskipti

baun

hvað ertu að velta þessu fyrir þér Hugi? þú getur þetta, píanó fyrir plast - er þetta ekki rakið, borðleggjandi, donn díl, gráupplagt og afar æskilegt? verst að það er ekkii hægt að böska sem píanóleikari (þegar maður er orðinn öreigi)

Hugi

Suss, baun, þú ert að hella olíu á mjög hættulegar glæður :-).

Lindablinda

Bara ein lítil spurning......... ásláttur?

Carlo

Heyrðu, Hugi, minn. Ég þekki þetta fólk sem hvetur mann til að eyða seinustu aurunum sem maður á ekki í eitthvað sem mann dauðlangar í. Ekki hlusta á þau. Geturðu ekki fengið þér nett hljómborð við Makkann þinn og dútlað þér þar aðeins á nóttunni fyrir nokkra fimmþúsundkalla? Ef ég læri svo á gítar getum við stofnað íslenskt Ratatat cover band.

Hugi

Linda, áslátturinn er eins og vindurinn, líkt og á mínu gamla góða. Eins og að renna fingrunum yfir létta vorgolu eða jafnvel mjúkan kvenmannslíkama - svo ég grípi til minnar uppáhalds samlíkingar úr rauðu seríunni. Sagan segir að Yamaha hafi keypt Steinway, stolið teikningunum af smáflyglunum þeirra, snúið hörpunni upp á kant og úr varð U3 píanóið. Líklega tóm tjara, en mér finnst sagan góð :-). Nógu er harpan a.m.k. þung, þessi píanó slefa vel upp í hálft tonn.

Hugi

Kalli, skynsamlegar tillögur. En einmitt núna er ég opnari fyrir þeim sem eru að hrinda mér fram yfir bjargbrúnina :-). Ratatat-bandið, reyndar, ég er til í það sko. Ahhhhhh, ásláttur... Það er einmitt hann er er að ýta mér út í þetta - flest þessi rafmagnspíanó eru með fremur gerfilegan áslátt - en þarna fær maður rafmagnspíanó með áslætti alvöru píanós. Ahhhhhh (horfir á VISA-kortið).

Carlo

Ég ætlaði að fara að segja að ég væri svo hamingjusamur að hafa ekki jafn kostnaðarsamar græjudellur og t.d. ljósmyndun og hljóðfæraleik. Bæði eru göfugar og ég kann vel að meta það sem frá þeim rennur en þakka mínum sæla stundum fyrir að fyrri bakterían hafi ekki bitið mig þótt ég syrgi að vera hæfileikalaus gagnvart þeirri seinni. Svo fattaði ég að ultimate draumagræjan mín í dag er Ferrari 599GTB. Kosturinn er reyndar sá að ég get ekki einu sinni pælt í þannig eins og þú með píanógyðjuna þína. 36 millur er aðeins of stór biti núna meðan harðast er á dalnum ;)

Útifrík

Já, ímyndaðu þér að græjan sem þú varst að falla fyrir væri splunkunýr Ferrari. Þá dygðu nú 900.000 skammt. Þannig að þú ert greinilega mjög hagsýnn hvað dellur og langanir varðar. Vaaá.. veistu, ég held ég selji bílinn minn og kaupi svona græju handa syni mínum. Bara til að losna við hljóðin í systrum hans þegar hann er að æfa sig. Og þá er ég að tala um U3, ekki Ferrari. Svo er ég líka viss um að það eru til munnhörpur sem kosta milljón. Mér finnst eiginlega pennywhistle mest aðlaðandi hljóðfærið ef maður er að hugsa um kostnaðinn sem þessu fylgir, eða má ekki fylgja. En munnhörpur, pennywhistle og píanó hafa öll hátt á nóttunni... nema U3! Er til munnharpa sem þagnar á nóttunni þótt maður haldi áfram að spila?

Carlo

Luftharmonica!

DonPedro

Kýla á þetta. Græjukaupastuðningshópurinn er allur á bak við þig.

baun

Baun og Don sammála. I rest my case.

Hugi

Aaaah, ég á auðvitað líka mína blautu drauma. Helst vildi ég skipta út öllum húsgögnunum í íbúðinni minni fyrir handsmíðaðan þriggja metra langan <a href="http://www.fazioli.com/eng/modello_f308.php#f308">Fazioli F308 konsertflygil</a>. En hann kostar einmitt tuttugu milljónir. Við getum kannski deilt gámi frá Ítalíu þegar þú pantar Ferrari-inn þinn, Kalli? :-) Já, Útifrík, Pennywhistle, það er alveg málið. Veit samt ekki hvort það eru til silent munnhörpur, verður maður ekki að blúsa upphátt til að blúsinn hafi tilgang? Þakka sýndan stuðning í græjuóeðlinu, þetta gæti endað með falli á næstunni.

Guðjón Helgi

just go for it 400 kall það eru ekki nema 3000 lítrar af benzini til dæmis eða 720 ígarettupakkar LOL

DonPedro

Ef ég ætti eitthvað af hálfum milljónum handbærar mundi ég meira að segja losa þig við þitt gamla, því mér finnst það bezt-hljómandi standandi píanó í heimi.

anna

Hvaða helvítis vitleysa er þetta í þér Hugi? Ha? Þú verður stjaksettur ef þú hættir að spila á píanóið, það er bara svo einfalt. Ég fer strax í gang með undirskriftalista í kvöld. Já.. var einhver hjá þér í gær eða var ég að heyra refsingar ofvirka fólksins í gærkvöldi? Hann spangólar! Ætli hann bíti líka? ohh...

Hugi

Pétur, ég elska hljóðfærið mitt. Ef þig langar í alvörunni í það, þá skaltu bara hafa samband, við setjumst að samningaborðinu og ég er viss um að við getum komist að ásættanlegri niðurstöðu. Þú átt t.d. mjög fallega konu. OK, OK Anna - ég lofa að hætta ekki að pirra alla í blokkinni með hávaða. En nú get ég æft mig á nótunni með flygilinn þögulan, og svo flyt ég fullæfð verk á daginn á fullu blasti. Eini munurinn verður sá að það verður meiri hávaði en áður og hljómurinn verður fallegri :-).

Carlo

Ég fór að pæla í því að ég myndi ekki vilja afgreiða þig í hljóðfæraverslun m.v. lýsingar. Hljómar eins og ég í Apple búðinni...

Hugi

Já, þú líka? :-)

Elías

Munnhörpur kosta $20 stykkið í vefverslunum, 2000 kr á Íslandi. Eitt stykki fyrir hverja tóntegund og svo eyðast þær; blöðin brotna úr vegna málmþreytu. Þetta eru díatónískar munnhörpur, eins og eru notaðar í blús og rokki. Krómatískar munnhörpur eru eitthvað allt annað sem ég kann ekki skil á. Þó held ég að Toots og Stevie Wonder hafi spilað á svoleiðis, er þó ekki viss, þar sem ég hef ekkert heyrt með þeim sem væri ekki hægt að spila með díatónískri.

Tjáskiptaðu þínu eigin tjáskipti í tjáskiptin