Og sjá, svín flugu - í helvíti var frost

21. ágúst 2006

Það greip mig einhver óstjórnleg sjálfsstjórn um daginn og ég hef ákveðið að kaupa ekki flygilinn. Flygilinn sem ég þrái heitar en heimsfrið. Flygilinn sem einn hefur vakið hjá mér löngun til að fá mér bjarndýrsfeld og arin, svo ég geti gælt við hann og bónað af ástríðu í mjúkum eldbjarma á köldum vetrarkvöldum.

Þessi ákvörðun finnst mér sérstaklega merkileg í ljósi þess að ég var búinn að útvega peninga fyrir kaupunum og hef, á íslenskan mælikvarða, vel efni á þessu. Það eina sem ég þurfti að gera var að labba inn í hljóðfæraverslunina, benda á flygilinn og segja "Ég ætla að fá þennan. Sendið þið heim?".

En mér finnst ömurð að skulda peninga og vil ekki falla í íslensku gryfjuna, að taka lán á lán ofan þar til Björgúlfsfeðgar koma í heimsókn með hnúajárn og borvélar, brjóta á mér hnjáskeljarnar og stela úr mér seljanlegum líffærum. Ég kaupi flygil seinna og held mig þannig við fyrri fjárhagsáætlun sem gengur út á skuldleysi eða dauða, líklega dauða. Og svo glotti ég í kistunni í eigin jarðarför þegar presturinn segir í líkræðunni "Hann Hugi var með eindæmum fúll og leiðinlegur og börn óttuðust hann, en hann var skuldlaus - það má hann eiga".


Tjáskipti

Mjása

Þú hefur aldrei hljómað jafn gamall, ég verð nú bara að viðurkenna það. Kauptu flygilinn.

Hugi

Úps, þú hefur rétt fyrir þér Mjása, var að lesa yfir þetta - annað eins svartagallsraus held ég að hafi aldrei sést hér. Líklega vegna þess að ég er í ástarsorg - þ.e. yfir flyglinum :-). WHERE'S MY PRUNE JUICE? En ég er nú ekki alveg jafn daufur og ég hljóma, það verður kominn flygill inn á gólf hjá mér fyrr en varir, mig langar bara að safna fyrir honum - það er svo agalega dýrt að taka lán núna. Þig grunar samt ekki hversu mikið mig langar að fylgja þínum ráðum, púff.

Harpa

En hvað með partýið sem þú ætlaðir að halda þegar flygilinn kæmi? Ertu ekki bara að fresta kaupunum af því þú nennir ekki að halda það? Ha?

Hugi

Neinei Harpa, það verður auðvitað partý :-). En ég er hinsvegar búinn að breyta þemanu, nú verður þetta ekki kallað "partý" heldur "fjáröflunarhátíð" og það mun kosta 10.000 krónur inn. Og 20.000 krónur út. Þetta er allt útpælt, sjáðu til.

Harpa

LOL Skráðu mig inn. Sé svo til hvort ég hef efni á að skrá mig út. wahahahaha :-D

Carlo

Harpa, þú veist hvað gerist ef þú hefur ekki pening til að leysa þig út? Hugi setur þig í krukku með lögg af hlynsírópi.

Geztur

Dæs, hann segist ekki eiga neinar nógu stórar krukkur, ég er búinn að spyrja hann. Og ég er alfarið á móti þessari: hann-var-búinn-að-borga-allar-skuldir-þegar-hann-dó stefnu. Lífið er núna. PS. En gangi þér annars vel með fjáröflunina. Ég ætla að fá tíu miða. Mikki refur

Vælan

Sjæt það ER sumsagt til fólk eins og ég.. fæ meira að segja magasár yfir skuldum vina og ættingja (nauðsynlegt þar sem ég virðist nú yfirleitt hanga í plúsnum). En að öðrum nótum, ég veit um einn góðan stænvei sem er búinn að vera til sölu í soldinn tíma, þú gætir kannski pínt niður verðið á honum.. nánari uppl. í tölvupósti ef þú hefur áhuga.

hildigunnur

Ég sé mig til neydda að taka fram að hún Væla systir er ekki með magasárið yfir skuldunum mínum! (ég er nebbla svona líka)

Vælan

hehe Hildigunnur, jú mikið rétt, þessa daga óðaverðbólgunnar getur maður nú ekki verið neitt sérstaklega svekktur yfir (þá leiðinlega) Ekki Kaupa Neitt Nema Eiga Fyrir Því/Stattu Við Það Sem Þú Lofar/Maður Segir Kýr Ekki Kú/Mættu Á Réttum Tíma uppeldinu sem við vesalingarnir þurftum að þola, eigandi foreldra sem prídeituðu ´68 kynslóðina.

Harpa

Carlo; utan um mig þyrfti heila Perlu, enga helvítis krukku, og það veit Hugi. Þess vegna er ég óhrædd. ;-)

Lindablinda

Mér finnst nú svolítið sárt og súrt að maður með fingur sem kunna að gæla við eðalflygla og töfra fram úr þeim ævintýralega tóna skuli ekki geta fengið sér hljóðfæri við hæfi. Ég legg til að við leggjum í púkk. Ég á 500 kall - hvað vantar þá mikið uppá Hugi?

Carlo

Harpa í Perlu yrði þá eins og blóm í eggi?

Hugi

Hlynsíróp!? Kalli, þú veist augljóslega ekkert um gestarækt. Ég er herramaður og mundi því fyrir kvendýr eins og Hörpu auðvitað nota Southern Comfort - jafnvel dökkt romm. Maður verður að nota næringu sem hentar hverri tegund. Geztur, snilld! Þú getur sótt inn- og útgöngumiðana þína í dag - sendi reikninginn á morgun. Treysti því að hinar níu séu einnig fegurðardísir sem eru mér samboðnar. Heyrðu Væla (heh, dýrka þessa nafngift), ég hefði ekkert á móti einum Steinvegi, púff, en ástæðan fyrir því að ég byrjaði að skoða þetta var að mig langar í silent-flygil. Svona svo ég geti æft mig á nóttunni án þess að nágrannarnir brjóti niður hurðina og refsi mér án dóms og laga. Eins og gerðist í síðustu viku. Og þið systur eruð skynsemin holdi klædd. Eruð þið til í að deila með mér líkkistu til að spara útfararkostnað? Hef bryddað upp á þessu við aðra en fæ yfirleitt dræm viðbrögð. Heh, takk Linda, held samt að þú ofmetir hæfileikana :). En þigg framlagið, ertu ekki örugglega að tala í þúsundköllum?

baun

Hugi minn, þú veist að þú vinnur aldrei Miss World ef eitthvað þér finnst eitthvað mikilvægara en heimsfriður. (öfunda hluti sem þú vilt gæla við og bóna af ástríðu í mjúkum eldbjarma, hefurðu spáð í að sækja um vinnu í nýja fyrirtækinu hans Kalla?)

hildigunnur

jaaá, þú meinar? Skoðum málið ef við skyldum hrökkva upp af á sama tíma. Þetta væri náttúrlega gríðarlegur sparnaður (hvað ætli svona kistur kosti annars í dag? Og grafstæðið? Og legsteinninn?)

Geztur

Fegurðardísir? Við erum gó-gó stúlkur eilífðarinnar!

Hugi

Baun, ég held að ég sé hort sem er bara efni í "vinsælustu stúlkuna". Ég lít skelfilega út í bikini, er nefnilega of mikil pempía til að fara í vax. Hildigunnur, frábært! Ég veit ekki nákvæmlega hvað þetta kostar, en það hlýtur að vera stórfé. Held að við getum reyndar bara sleppt kistunni og látið vefja okkur inn í frauðplast eða álpappír, það er stórsparnaður þar. Og enginn löng nöfn á legsteininn, bara skammstafanir. Það þarf að borga fyrir hvern skrifaðan bókstaf. Eða kannski spurning um að sækja bara hnullung í fjöruna og semja við einhvern ættingja um að tússa áletrunina reglulega á hann? Dejm, ég er fullur af hugmyndum, ætla að fara út í bisness með þetta. "Bónus útfarir ehf. - þar sem sparnaður er dauðans alvara". Mmmmmhhh, gogo-stúlkur eilífðarinnar..... aaahh.... Geztur, þið eruð velkomnar. Byrjaður að æfa "Just a Gigolo"

Hugi

Úps Baun, missti af seinni setningunni :-). Ég hugsa að ég hafi því miður ekki tíma til að sinna fyrirtækinu hans Kalla, ég er í sjálfstæðum rekstri :).

Geztur

Flökt, flökt (augnhárin). Við viljum helst að þú úðir þig allan silfurlitan til hátíðarbrigða.

Harpa

Vá Hugi ekki freista mín svona. Þú myndir aldrei losna við mig ef þú myndir ala mig á Southern Comfort eða dökku rommi. Elskaða :D

Gommit

Núna þegar þú ert búinn að spara heilan flygil, þá getur þú alveg splæst í ferð til Londres. Hér í Bermondsey er rafmagnstrommusett og Ukulele sem þú getur spilað á í staðin...

Hugi

Geztur, ég mun að sjálfsögðu úða mig silfraðan fyrir ykkur. Til hátíðarbrigða skal ég meira að segja láta króma mig. Harpa, það verður þá bara að hafa það. Þú getur fengið að búa undir eldhúsborðinu í vetur. Það eina sem ég fer fram á er að þú verðir ekki með mikil drykkjulæti þegar ég er með gesti, rakir á mér bakið þegar þarf og berir áburðinn minn á staðina sem erfitt er að ná til. Díll? Finnur, London gæti alveg orðið effekt. Tala nú ekki um ef það er rafmagnstrommusett á staðnum...

Geztur

Já, Hugi! Vertu króm-magnon maðurinn okkar.

Kári Þormar

það má eigi verða að maðurinn deyi skuldlaus. Mér líst auðvitað best á að þú kaupir af mér gömlu steinweij slaghörpuna mína, aðeins 1800 þús. og það sem meira er að hann er ekki lengri en 1.88 m þannig að þú gætir látið jarða þig í honum Búið að fikta í verkinu og sándið er frábært og er algert antík , eða frá 1891 hann er til sýnis og prófunar á blindraverkstæði hljóðfærahússins(Hljóðfæraverslun Leifs Magnússonar) kv kári Þormar fyrrum slaghörpuleikari en þenur þess í stað sálmapumpuna

Harpa

Hugi, þegar ég gefst upp á dásemdinni hérna í Borgarfirðinum (lesist; nenni ekki að halda áfram að læra) þá er eins víst að ég þiggi þetta boð. Það fer alla jafna afskaplega lítið fyrir mér þegar búið er að drekka mig undir borðið ;-) Það hefur reyndar aldrei gerst ennþá en engin veit sína ævina. Ég spái því....

Kári Þormar

bara svo þér líði betur með þetta, þá er ástæðan fyrir því að ég er að selja gamla Steinway flygilinn minn er sú að ég var að fá mér einn nýjan steinway úr kassanum (B 211) kv Kárahnjúkur group

Hugi

Geztur, það þarf nú ekki að króma mig til að frummaðurinn í mér komi fram, a.m.k. þegar gó-gó-píur eru annarsvegar. Kári, ég væri sko alveg til í að eiga flygilinn þinn, dásamlegt hljóðfæri :). En ég er að leita að silent-hljóðfæri, svo ég geti spilað inn í rauða nóttina. Og til hamingju með nýja hljóðfærið, grrrrr.

Tjáskiptaðu þínu eigin tjáskipti í tjáskiptin