Skáldsaga: Fyrsta tilraun

21. maí 2007

Það ganga flestir með bók í maganum. Þó ekki bókstaflega. (Nema Þorsteinn Geirsson, Garðbæingurinn sem olli uppþoti á Borgarbókasafninu í síðustu viku þegar hann át alla ritröðina "Íslensk flóra" og fjóra árganga af Vikunni áður en hann var yfirbugaður af vopnuðum bókavörðum).

Allt um það ég geng s.s. með óbókstaflega bók í maganum. Bókin heitir "Ljóstillífunarmaðurinn" og fyrsta uppkast að meginþema er svona:

Jón Blómberg er ósköp eðlilegur maður og lifir eðlilegu lífi, þar til einn góðan veðurdag að hann er bitinn (eða frjóvgaður) af óðri (hugsanlega geislavirkri) páskalilju (jafnvel túnfífli) og tekur að breytast.

Í fyrstu eru breytingarnar ekki áberandi. Daufur blómailmur þegar hann rekur við. Blautir draumar um býflugur (og náttbuxurnar þá útataðar í frjókornum þegar hann vaknar á morgnana). Þörf fyrir að grafa fæturna á sér í mold og horfa á sólina heilu dagana. Ýmislegt þessháttar smálegt.

Jón er ráðvilltur og skilur ekki hvað er að verða um hann, þegar aldraður japanskur garðyrkjumeistari tekur hann að sér sem lærling og kennir honum að beisla hinn leyndardómsfulla ógnarmátt ljóstillífunar. Og brátt er Jón farinn að bjarga mannslífum og leysa erfið sakamál með ljóstillífun.

Ljóstillífunarmaðurinn er ofurhetja og allar ofurhetjur þurfa erkifjendur. Það heldur þeim við efnið. Erkifjandi Ljóstillífunarmannsins er Brian Sukker, einkasonur nýlenduvörumógúlsins Dan Sukker og erfingi Dansukker-auðæfanna. Brian Sukker vill leysa Ljóstillífunarmanninn upp í terpentínu og einangra stökkbreytta ljóstillífunargenið. Genið ætlar hann svo að græða í þúsundir sveltandi afrískra barna sem hann ætlar að rækta í risastórum verksmiðjubúrum og láta framleiða ódýran vistvænan sykur. Ágóðann af sykursölunni ætlar hann svo að nota til að fjármagna skelfileg ódæðisverk eins og þjóðarmorð og hvalveiðar og Celine Dion.

Þetta er fyrsta uppkast. Núna þarf ég bara að skrifa nákvæmlega það sama og ég skrifaði hér fyrir ofan, nema á 200 blaðsíður og þá er komin skáldsaga. Getur ekki klikkað, halló metsölulistar!


Tjáskipti

Tjáskiptaðu þínu eigin tjáskipti í tjáskiptin