It's alive!

30. september 2007

Frá því Göbbels (Gamli Volkswagen) lést og ég eignaðist Blakk (Roverinn) hefur sá fyrrnefndi verið algjörlega afskiptur - bara fengið að standa og deyja í friði í bílastæðinu. Ég hef ekki litið á hann nema rétt til að benda á hann og hlæja að honum þegar ég kem út á morgnana.

En nú er orðið tímabært að losna við bílinn. Og í dag urðu tímamót: Göbbels fór í gang.

Ég tók smá törn á honum eftir vinnu, skipti um rafgeymi, fór með þulur og seyði yfir honum, smurði og nuddaði barka og túður og bætti á hann þessum og hinum vökvum - og sá litli rauk í gang eins og hann hefði aldrei gert annað. Því til sönnunar er svartur blettur af... sálinni úr honum, held ég, sem úðaðist úr pústinu og límdist fastur við bílastæðið þegar vélin fór að snúast.

En. Þegar ég settist upp í hann og ætlaði að taka einn sigurhring um hverfið, svona rétt áður en ég mundi þrífa hann og henda honum á bílasölu, þá haggaðist hann ekki. Handbremsan föst. Svo ég hringdi í Volkswagen-gúrú fjölskyldunnar (karl föður minn) og fékk stuttan en gagnlegan fyrirlestur um handbremsubarka og gagnsemi þeirra.

Ég skreið undir Þjóðverjann og rannsakaði málið. Og jújú, þar reyndist vissulega liggja barki að vinstra hjóli, svo einstaklega ryðgaður að hann leit út eins og sáðrás í sjötugu vélmenni.

Aðgerð: Reif gúmmí utan af barkanum á stórum ryðbólgnum kafla, veitti bráðabarkanudd og smurði alla hans leyndustu staði.

Handbremsan mun losna með tímanum. En. Það er meira. Göbbels hleður ekki rafgeyminn, heldur mergsýgur úr honum hverja einustu elektrónu án þess að gefa nokkuð til baka. Sannur Þjóðverji. Volkswagen-gúrúið segir að nú þurfi að "skipta um kol í alternatornum" (ég held að hann sé að tala færeysku) og það ætla ég að gera í vikunni. Auk þess að skipta um handbremsubarka. Og fleira. Og fleira. Og fleira.

Einu sinni vissi ég ekkert um bíla. En ég er þrjóskur og ég ætla mér að koma þessu skrifli í gangfært ástand. Svo þar með er nýr kostnaðarliður kominn í heimilisbókhaldið. Átakið "Björgum Göbbels 2007".

Kostnaður þegar hér er komið:

  • Startkaplar: kr. 3.480.-
  • Rafgeymir: kr. 11.670.-
  • Smurolía: kr. 2.800.-
  • Samtals: kr. 13.950.-

Ég hef á tilfinningunni að þessi kostnaðar- og vinnureikningur eigi eftir að stækka. Hratt.

Mig vantar bílskúr.


Tjáskipti

Daníel

Nú hef ég gríðarlega reynslu af því að gera við bremsubarka í Volkswagen bílum. Eins og dæmin sanna.

Hugi

Já, Daníel, þú ert algjörlega okkar maður í bremsumálum! Má ég fá lánaðan barkann úr þér?

baun

fyrsta skipti sem ég skellihlæ að bílaviðgerðarsögu. nei! fyrsta skipti sem ég les bílaviðgerðarsögu. magnað.

SSkoppur

Sáðrás í sjötugu vélmenni.......akkúrat eins og ég hafði hugsað mér, C3PO. Held að svarti bletturinn sem sullaðist úr pústinu hafi verið einhvað annað en sálin úr Göbbels, so happy to see you ....nuddið hefur örugglega hjálpað til líka. Dirty dirty....hættu að hugsa SSkoppur, hmmf.

Tjáskiptaðu þínu eigin tjáskipti í tjáskiptin