Is nice

23. desember 2007

Jólin nálgast og við systa skiluðum okkur heim til Norðfjarðar klukkan 12:00 að staðartíma í gær. Þetta er hluti af þeim forréttindum sem fylgja því að vera utanaflandipakk. Þegar jólin koma skilur maður bara íbúðina eftir í epískri rjúkandi rúst, pakkar niður nærbrók, náttbuxum og sokkapari og flýgur svo 400 kílómetra í burtu frá öllu klúðri og áhyggjum. Einfalt og þægilegt.

Og gærdagurinn lagði tóninn fyrir komandi daga:

9:15: Brottför frá Reykjavík.

12:00: Komin heim í slotið til mömmu og pabba. Mamma afsakar að ekkert sé til á heimilinu að borða.

12:03: Einfaldur málsverður: Kaffi, te, heimabakað brauð, rúgbrauð, ostar, heimabakaðar bollur, egg, rauðbeður, marineruð síld (2 tegundir), paté (fleirtala), pylsur og heimaþurrkaður þorskur. Ásamt meðlæti.

14:00: Veltum út um dyrnar. Meltingarganga.

15:00: "Kaffi" hjá Þóru frænku. Þóra afsakar að ekkert sé til á heimilinu að borða.

15:03: Einfaldur málsverður hjá Þóru: Ostar, heimabakað rúgbrauð, heimagerð kryddlegin síld, hrátt hangilæri með piparrótarsósu, heimabakað laufabrauð, heimagerðir sólþurrkaðir tómatar, fleiri ostar, grösug ólífuolía, nýbakaðar napóleonskökur með rjóma, Sambuca, Raki, bjór o.fl. o.fl. Og svo aðeins meira Raki.

18:30: Veltum út frá Þóru og förum aftur heim. Píanóleikur, almenn leti, bókalestur og sjónvarpsgláp.

23:00: Sofa.

Jól eru snilldaruppfinning. Það vantar fleiri jól í árið.


Tjáskipti

Olla Z

ó hvað ég kannast við Þóru frænku heimsóknirnar þar sem á nákvæmlega sömu Þóru frænku og þú! Þaðan fer maður aldrei út minna en 3 kílóum þyngri en áður en maður kom í heimsóknina..... Gleðileg jól! kv. Olla frænka þín í Norge

Þórhildur

Heimaþurrkaður þorskur! Finnst henni ekkert vænt um ykkur?

Hugi

Jújú Olla. Þóra og Axel eru... Einstök. Yndislegt fólk. Er ennþá að jafna mig eftir skötuveisluna hjá þeim í gær. Vona annars að þú hafir það gott yfir jólin - jabbnel þótt þú sért innan um tóma Norðmenn. Þórhildur - sussususs, karl faðir minn býr til besta harðfisk í heimi. Nánar um það fljótlega :-).

baun

Æ, gott að heyra að þið sveltið ekki:-) Óska þér, og öllum sem þér þykir vænt um, ómældrar jólasælu og lukku í hvívetna!

Hugi

Það er sko ekki til siðs að láta fólk svelta í minni fjölskyldu. Sendi þér mínar geggjuðustu landsbyggðarstuðkveðjur og óskir um unaðsleg jól, baun! :-)

Hugi

Og þar sem ég er stöðugt að tala um Þóru frænku, þá fylgir hér mynd af þessu goði Akursættarinnar. Tekin í skötunni í gær. {macro:km:picture id="1000503"}

Kalli

Ég veit sko ekki um neinn sem þykir svo vænt um mig að heimaþurrka fyrir mig þorsk. Wish I had been there.

Hugi

Kalli minn, ég mundi heimaþurrka fyrir þig þorsk hvenær sem er. Og þú hefðir haft gaman af að vera þarna ;-).

Tjáskiptaðu þínu eigin tjáskipti í tjáskiptin