Andlitshár

8. maí 2008

Þegar ég vaknaði í morgun var ég fúlskeggjaður. Verulega illa fúlskeggjaður. Ég gat hvorki andað né séð né hugsað fyrir hári, og þegar ég ætlaði að standa á fætur steig ég á skeggið og flaug á andlitið.

Svo ég greip til aðgerða. Ég vafði skegginu umhverfis höfuðið á mér, hentist brosandi á fætur, stökk inn á bað, reif náttfötin af stæltum líkamanum og renndi mér í sturtu þar sem ég makaði vel tónaða magavöðvana upp úr olíu þar til ég glansaði eins og grískur guð.

Nei, heyrðu.. Afsakið, ég er að rugla saman .. það var sjampóauglýsing.

Já... Allavega.

Ég fór semsagt í sturtu og rakaði mig. Það sem stóð eftir að loknu verki voru þykkir rauðir bartar niður á herðar og yfirvaraskegg sem hefði gert Otto von Bismarck afbrýðisaman. Mér fannst þetta alveg hreint einkar flottur stíll, sem er til marks um að maður á ekki að taka mikilvægar ákvarðanir um andlitshár fyrir klukkan 8 á morgnana.

Það varð mér og öðrum sem þurfa að umgangast mig í dag til happs að ég sá sjálfan mig speglast í glugga rétt áður en ég fór út, og áttaði mig þá samstundis á því að ég er bara einfaldlega ekki búinn að leika í nándar nærri nógu mörgum bæverskum leðurklámmyndum til að bera þetta útlit. Svo ég fór inn og kláraði dæmið.

Hjörleifur Guttormsson fær að halda titlinum "Steiktasta andlitshárið" enn um sinn.


Tjáskipti

Arnaldur

Kommon Hugi... Það verður að sýna smá frumleika í þessum efnum af og til. Sérstaklega ef þú ætlar þér að viðhalda titlinum "Extra-Boxicular Thinker". Eigum við Hjörleifur einir að þurfa að manna fremstu víglínu endalaust?

Hugi

Arnaldur, þú ert reyndar einn mesti kyndilberi glæsilegs andlitshárs sem ég þekki. Verðug samkeppni við Hjölla. Leyfi þér að halda þeirri sérstöðu áfram og held mínum extraboxiculisma við lausnir á sviði jafnréttis. Síðast þegar ég leyfði mér að extraboxiculeita skeggið á mér líkti minn eigin faðir mér við Sverri Stormsker - og það er nokkuð sem ég vil helst ekki þurfa að upplifa aftur.

Halldór Eldjárn

Sæll, ætlaði að misnota síðuna þína til að koma eigin hugverkum á framfæri: http://www.snabbi.com/player.html Gangi þér vel í lífinu!

krissi

hví, ég meina,, hugi er nokkuð viss um að skeggið hefði klætt þig vel, þannig að ég vill meina að þú eigir að gefa þessu séns!

Kalli

Ég prófaði að vera með yfirvaraskegg í einn dag. Sama dag var ég mest allan í svörtum jakkafötum og fólk hefur örugglega tekið mig fyrir geðsjúkan misyndismann úr Tarantino kvikmynd. Annars fer þér örugglega vel að vera með skegg. Ég ímynda mér að þú yrðir eins og rauðhærður Orson Welles. Eða jafnvel Marlon Brando. Og þá meina ég eins og ungur Welles eða Brando svona til að valda ekki misskilningi. Nema þú hafi fitnað all gífurlega síðan ég sá þig síðast.

Hugi

Halldór, ég lifi til að hjálpa. Sendi þér gíróseðil. En ef þú skyldir ekki vita það, þá ertu með lokuð augun á myndinni. Krissi, ég gef þessu séns einhverntíman þegar ég verð staddur fjarri mannabyggðum. Mjög fjarri. Kalli, Ég... Ég... Marlon Brando? Þakka falleg orð, en ég hef greinilega fríkkað eitthvað í minningunni hjá þér... Held ég yrði meira svona eins og nývaknaður Rowan Atkinson.

Tjáskiptaðu þínu eigin tjáskipti í tjáskiptin