Blóðpeningar

12. október 2009

Mér finnst leiðinlegt að pæla í peningum. En á þessum síðustu og sérdeilis frábærustu tímum er maður samt farinn að skoða bókhaldið reglulega og rannsaka hvar skera má niður í útgjöldum heimilisins. Ég er t.d. hættur að borða rússneskan kavíar, í staðinn fer ég niður að höfn og kreisti úr nokkrum ufsum í krukku. Og í staðinn fyrir sjónvarpsgláp semjum við Ósk litla leikþætti sem við flytjum fyrir hvort annað á kvöldin. Í gærkvöldi flutti ég t.d. þögla dramaeinleikinn "Dapri einbúinn" sem vakti mikla lukku. Heilmikill sparnaður þar.

En já, einu komst ég að þegar ég fór að rýna í bókhaldið fyrr á árinu, og það er hversu viðurstyggilega dýrt það er að eiga og reka bíl. Díselolía, frostlögur, stýrisvökvi, bremsuvökvi, smurningsolía, tryggingar, bifreiðagjöld, rafgeymar, bremsudiskar, bremsuborðar, bifreiðaskoðanir, olíusíur, loftsíur, rúðuvökvi, hjólbarðar, rúðuþurrkur, sjálfskiptingarvökvi o.s.frv. o.s.frv. Listinn yfir dekrið sem þessi skrímsli þurfa er endalaus.

Svo ég seldi Blakk (sem var 10 ára gamall Range Rover) í apríl. Og mér reiknast svo til að á þessu hálfa ári síðan ég seldi hann og skipti yfir í reiðhjólið sé ég búinn að spara mér meira en 350.000 krónur. Og auk þess græddi ég rass og læri sem geta skorið gler.

Hér fyrir neðan má sjá grófan útreikning á því hvað kostar að eiga og reka tiltölulega gamlan bíl. Ég var fremur hófsamur í útreikningunum. Liðurinn Fjármagnskostnaður er varlega áætlaður út frá kostnaði við að vera með milljón bundna í bílnum, sem ég gat notað til að greiða inn á lán (ódýrustu lánin bera sem stendur a.m.k. 15% raunvexti).

Blakkur
  Mánaðarlega Árlega
Eldsneyti 15.000 180.000
Fjármagnskostnaður 12.500 150.000
Lækkun verðmætis (afskriftir) 10.000 120.000
Tryggingar 6.300 75.600
Skoðun 700 8.400
Bifreiðagjald 3.500 42.000
Smurning 1.200 14.400
Annað viðhald 10.000 120.000
  59.200 710.400

Þetta eru viðurstyggilega miklir peningar fyrir venjulegt heimili. Og ef þú vilt spara, þá er það alveg þess virði að íhuga hvort reiðhjólið (eða hið margrómaða almenningssamgöngukerfi borgarinnar) sé kostur í stöðunni.


Tjáskipti

Ósk

Rassinn og lærin get ég vitnað um með glerlistiðnaði heimilisins. Verst hvað það er verið að byggja fár dómkirkjur með stórum steindum gluggum á þessum síðustu. Hugi í kvöld fer ég með gamanleikinn "Óléttakonan vill ís, núna!"

Atli Páll Hafsteinsson

Reiðhjólið er snilld bæði fyrir sál og líkama .. en þú átt eftir að komast að því að fjölskyldufólk á erfitt með að komast af án bíls hér á landi. Verður þetta harmleikur (fyrir eiginnmanninn þá) Ósk ?

Finnur

Ósk litla? Kallarðu ólétta konu þína það?

Hugi

Ósk, sama leikritið aftur?? Þetta er í þriðja skiptið! Atli, ég ætla að sjá hversu lengi ég endist án einkabíls þegar við verðum orðin fjölskylda, vona að það verði sem allra lengst. Þú sérð að fyrir fjárhæðina sem sparast má taka ansi marga leigubíla ef þörf krefur. Og Finnur, jájá, auðvitað - hún er bara lítill skapgóður algjörlega hormónalaus engill :-).

Daníel

Þetta með ungabörn og bíl er líka spurning um útsjónarsemi og vilja. Það má labba með börnin í barnavögnum glettilega langar vegalengdir, nú eða taka strætó - plús það að yfirleitt er fólk mjög hjálpsamt þegar það sér samborgara sína rogast með barnavagn í strætó. Vissulega vandast málin þegar maður þarf að fara í heimsóknir út á land. En Hugi er auðvitað svo mikið borgarbarn hvort eð er.

Atli Páll Hafsteinsson

Ég fylgist spenntur með þessari tilraun hans Huga. Sjálfur gæti ég án bílsins verið, á ég þó ágætis hjól og tengivagn fyrir 2 börn .. sem er reyndar algjör snilld. Þú ættir að skoða það Hugi svona þegar krakkinn verðu aðeins eldri ;)

Hugi

Það er alveg hörkufjör að skoða úrvalið af farkostum - virðist ekki vanta skortinn á hugmyndaflugsleysinu þegar kemur að hönnun á tækjabúnaði til barnaflutninga. {macro:km:picture id="1000616"} {macro:km:picture id="1000617"}

Ósk

Með reiðhjólið þá er ég ekki mjög hrifin af þessum dragvögnum þar sem börnin sitja í púströrshæð. Nema þau hafi litlar gasgrímur, það gæti komið vel út á mynd. Kristjaníu hjólin eru snilld sama hvort er til bjórs eða barna flutninga (samskonar og á neðri mynd frá Huga). Ég vil frekar taka strætó og labba með vagn en að borða hafragraut í öll mál og kaupa mörg mörg eldsnaut.

Atli Páll Hafsteinsson

Heyrðu .. minnir mig á að í gær sá ég á Álftanesinu mann í "hestakerru" dreginn af tveim hundum, þið eruð með hund ekki satt??

Atli Páll Hafsteinsson

"Með reiðhjólið þá er ég ekki mjög hrifin af þessum dragvögnum þar sem börnin sitja í púströrshæð, nema þau hafi litlar gasgrímur" - Ertu með einhverjar ransóknir sem sýna að það sé hættulegra en að vera ca. meter yfir jörðinni?

Hugi

Ósk, ég er sammála með aftanívagnana. Þeir eru líka ótraustvekjandi að sjá - ég sá einn velta svona vagni þegar hann lenti óvart með annað dekkið upp á kantstein. Ég fékk hressandi sjokk þegar ég sá þetta - en í það skiptið voru bara innkaupapokar í kerrunni. Atli, hundakerra... SNILLD! Alveg tímabært að letidýrið Vargur leggi sitt af mörkum á heimilinu!

Atli Páll Hafsteinsson

Aftaníhengivagnarnir eru snilld :) Hvað öryggið varðar þá eru börnin þar beltuð niður inni í búrið með hjálm, ekki frá því að það sé mun öruggara en td. stóll á bögglabera. En já, ég held að hundavagnarnir séu málið, eða bara fá sér hest.

Ósk

Atli, ég hef ekki farið í markvissar mælingar og rannsóknir á mengun miðað við sentimetra frjá jörðu, það eina sem ég veit er að lyktin er verri í púströrshæð en 160 cm hæð. Úrtak eitt nef, míns eigið. Þau eru að sjálfsögðu í minni fallhættu þarna niðri í jörðinni en það er líka auðveldara að keyra yfir þau þar. ;) Annars er vinur minn búinn að hanna loftræsta svona dragkerru með veltigrind. Verst hvað pródótýpur þurfa alltaf að vera dýrar. Svo er hægt að senda hundinn út með dýrið í kerrunni og miða í buddunni sem á stendur: 1 mjólk, 1 normalbrauð, 1 soðin pulsa 1 jarðaberjatyggjó Við Hugi eigum eftir að rústa bestu mamma og pabbi keppninni!

Elín Björk

Hjólakerrurnar eru með veltigrind. Amk. þessar "alvöru" t.d. úr Erninum. En frekar óstöðugar, amk. þessar mjórri. Við Snorri höfum lent í veltu. ég fékk sjokk, hann hláturskast :) Mig langar samt voða mikið í Kristjaníuhjól

hildigunnur

Gafst upp á bílleysi þegar Fífa var þriggja og hálfs og ég átti von á Freyju. Núna sénslaust - maður kemur ekki sellóinu á hjólið...

Logi Helgu

Ég hef heyrt...séð.....upplifað "Óléttakonan vill ís, núna!" ansi oft og sú sýning getur bæði verið blíð og falleg eins og hún getur verið grimm og áköf. Hvað bílaþörf fjölskyldufólk varðar þá held ég að hún ráðist mest af fjarlægð frá vinum/ættingjum/búðum/vinnu. Ef allt þetta er innan handar þá er hægt að lifa bíllaus...en bíll er eins og uppþvottavél, um leið og maður fær sér þá er ekki aftur snúið ;)

Hugi

Ósk. Burtséð frá því hvað við gerum með kerruna, þá vil ég að við þjálfum hundinn til að fara út í búð! Annaðhvort það eða við fáum okkur mörgæs. {macro:km:youtube video="vDN3L621ASI"} Elín, hehe, eruð þið að ala upp áhættufíkil þarna? :) Hildigunnur, já, ég skil það vel. Líf flestra tónlistarmanna sem ég þekki er líka endalaus hendingur - allan daginn alla daga að skutlast á milli æfinga, tónleika og kennslu. Tala nú ekki um ef það eru komin 2-3 börn með í jöfnuna líka. Logi - kannast við það. Sýningin í gærkvöldi var sannkölluð veisla fyrir öll skilningarvit, með betri uppfærslum sem ég hef séð. Og já, eins og þú segir ræðst bílleysisþol líklega algjörlega af aðstæðum. En þegar það kostar 50.000 kall á mánuði að reka bíl, þá íhugar maður frekar að borga meira fyrir húsnæði og koma sér fyrir á þannig stað að flest sem maður þarf sé innan seilingar.

Ósk

Hundurinn ratar í bónus, þá er bara að finna svona mörgæsarbakpoka :)

Sveinbjörn

Ég sagði alltaf að þessi jeppaepisóða þín myndi enda illa...

Tjáskiptaðu þínu eigin tjáskipti í tjáskiptin