Hugi Þórðarson

Eftirsjá

Ég stökk út í 10-11 áðan að sækja mér snarl. Meðan ég stóð í biðröðinni fattaði ég að ég kannaðist við manninn á undan mér - þetta var maður sem ég þekkti fyrir mörgum, mörgum árum - fyrir aldamót.

Á þeim tíma vann ég fyrir mér meðfram skóla með því að þjónusta makkanotendur hingað og þangað, en hann var lögfræðingur á lítilli lögmannsstofu í Reykjavík. Þetta var frábær náungi, einn af þessum viðskiptavinum sem maður óskaði þess að tölvan bilaði sem oftast hjá svo maður gæti skroppið til hans að fá sér kaffibolla og kjaftað við hann um heimsmálin. Og tölvan hans bilaði oft.

Ég missti tengslin við hann þegar ég hætti með makkaþjónustuna, en sá honum bregða fyrir í blöðum öðru hvoru. Honum gekk vel í góðærinu - og í dag er hann einn af fjölmörgum "hötuðustu mönnum Íslands".

Við skiptumst á kurteisishjali áðan. Stressið og vanlíðanin skein úr hverri hreyfingu og augun í honum hvikuðu til allra átta meðan við töluðum saman. Hann hefði getað tekið baugana undir augunum og hnýtt þá saman í hnút í hnakkanum. Eftir að við kvöddumst stökk hann inn í margraárslaunabíl og brunaði hratt í burtu.

Ég horfði í dágóða stund á eftir honum. Þetta er í fyrsta skipti sem ég finn svona áþreifanlega fyrir mannlegum afleiðingum góðærisins. Síðastliðin ár kostuðu okkur miklu meira en peninga.

Logi Helgu

Ég held ég hafi aldrei heyrt "yndislegur lögfræðingur" áður...Derrik þarf að rannsaka þetta nánar.

Hugi

Það eru til ágætis lögfræðingar, þeir fara bara ekki hátt með gráðuna. Rasmus Klumpur, Tinni, Valli (úr "Hvar er Valli"-bókunum) - allt lögfræðingar.

Hugi

Já, og Derrick veit þetta - hann og Matlock eru BFF.