Lífeyrissparnaður

16. október 2010

Ég tók mig til í síðasta mánuði og skipti um starf. Ekki að mér leiddist hjá Umferðarstofu heldur þarf ég einfaldlega að skipta um starf á 3-5 ára fresti, annars byrja ég að staðna og skemmast. Hýðið steypist út í svörtum blettum og ég verð að bragðvondri mjúkri drullu að innan.

En já. Þar sem ég var að fara úr ríkisstarfi og aftur út á almennan vinnumarkað stóð ég frammi fyrir einfaldri (að ég hélt) spurningu; þ.e. í hvaða lífeyrissjóð á ég að greiða.

Ég ákvað að það væri þess virði að leggja smá vinnu í valið, svo ég lagðist í rannsóknir. Ég skoðaði vefsíður. Ég las blogg. Ég hringdi í fjármálaspaka vini og leitaði ráða hjá gömlum og nýjum vinnufélögum. En sama hvert ég leitaði, svarið við spurningunni "hvernig vel ég lífeyrissjóð" var í grundvallaratriðum alltaf "úllen dúllen doff".

Þar sem ég gat ekki valið sjóð á grundvelli þess hvernig hann mundi ávaxta peningana mína (eða öðrum almennt skynsemlegum forsendum) ákvað ég á endanum að velja bara sjóðinn sem ég átti mest réttindi í; Frjálsa Lífeyrissjóðinn. Svo ég brá mér þangað til að undirrita samning.

Hjá Frjálsa tók á móti mér þjónustufulltrúi. Ég kvaðst vilja skrá mig í lífeyrissparnað, en hún ákvað samt að þylja yfir mér söluræðu.

Söluræðan var merkileg. Hún gekk út á að Frjálsi væri sterkasti og bestasti sjóðurinn í heiminum og mundi gefa mér meiri peninga í ellinni en allir aðrir, þar sem í hann greiddu aðallega hálaunaðir karlmenn en ekki neðanmálsfólk. Í Frjálsa Lífeyrissjóðnum væru að auki færri öryrkjar en í öðrum sjóðum, en öryrkjar voru að sögn þjónustufulltrúans blóðsugur á lífeyriskerfið þar sem þeir geta hafið töku lífeyris fyrr en aðrir.

Ég var hálf forviða. Þessi einfaldi hlutur - að leggja fyrir peninga til ellinnar - snerist núna orðið um launamun kynjanna og örorku, og eftir söluræðuna langaði mig jafnvel minna en áður að taka þátt í þessu kerfi. En þar sem þátttaka er lögbundin undirritaði ég samning.

Þetta kerfi er galið. Og þegar ég sé liðinn "greitt í lífeyrissjóð" á launaseðlinum fæ ég ekki á tilfinninguna að ég sé að spara peninga til framtíðar, heldur líður mér eins og ég sé að greiða nauðugur í peningahít sem misgreindir fjármálamenn ráðstafa svo til vina og kunningja og Húsasmiðjunnar.

Ég skil mikilvægi lífeyris, ég vil leggja fyrir peninga til ellinnar og ríkið má vel skylda mig til þess. En ég vil fá að leggja þessa lögbundnu fjárhæð inn á öruggan, verðtryggðan reikning með fastri ávöxtun. Væri það virkilega svo hræðilegt?


Tjáskipti

Siggi Óla

Þetta íslenska lífeyrissjóðakerfi er stórundarlegt. Það virðist hafa verið í allskonar mjög vafasömu gambli fyrir hrun og eftir hrun heldur svo fjörið áfram með kaupum á flugfélögum og ýmiskonar áhætturekstri. Ég lagðist í miklar pælingar um þetta fyrir nokkrum árum. Valdi mér sjóð sem hefur svo verið mjög sveiflukenndur. Ákvað samt að geyma aukasparnaðinn í Allianz en ekki hjá Kaupþingi.....sem betur fer. Þar á ég sparnað í evrum, en ekki handónýtum krónum. En....gaman að sjá þig blogga aftur! Welcome back!

Hugi

Já, það er eitthvað rotið í FDRI (Former Danish Republic of Iceland). Góður að vera í Allianz, maður hefði kannski átt að skrá sig þar frekar en í frjálsa, hmmm… Og ég veit ekki hvort ég er kominn aftur í bloggið. Ég virðist hafa breyst í moggabloggara í fjarverunni :).

Sveinbjörn

Ég stóð einmitt frammi fyrir sömu ákvörðun núna um daginn, hafði ekki hugmynd um hvað ég átti að segja. Þetta er helvítis níðingur að mega ekki bara setja þetta til hliðar á e-n heiðarlegan hátt.

Tjáskiptaðu þínu eigin tjáskipti í tjáskiptin