Þegar Hugi varð ástfanginn

22. janúar 2006

Stór mistök byrja alltaf með lítilli ákvörðun eins og "nú stofna ég fyrirtæki" eða "þessi kokteilsósa frá því í fyrradag á stofuborðinu virðist vera í góðu lagi, ég borða hana bara". Í dag tók ég eina svona ákvörðun, nánar tiltekið ákvað ég að taka rúnt um bílasölur bæjarins og skoða úrvalið af jeppum sem ég hef ekki efni á. Því miður bar þessi ferð árangur og ég fann bíl sem ég gæti hugsað mér að stofna til (platónsks) langtímasambands við, nefnilega forláta Land Rover Discovery jeppa frá því herrans ári 1998.

Þegar ég sá hann fann ég fyrir nýrri og spennandi tilfinningu, hjartað tók á rás, ég fór að anda mjög hratt og roðnaði í kinnum. Ég var ekki viss um hvort ég ætti að þora nær, en herti þó upp hugann steig út úr bílnum mínum, gekk hægt að Rovernum og heyrði hann þá hvísla til mín djúpri röddu - "snertu stóru dekkin mín", "ég er ekki ekinn nema 115.000 kílómetra" og fleira sem varla er hafandi eftir. Ég vona að enginn hafi séð mig meðan ég skoðaði hann, því það er alveg sama hvernig maður reynir að skýra málin, það lítur einhvernveginn alltaf illa út þegar sést til manns faðma og sleikja bíl. Auk þess sem það veikir samningsstöðuna þegar kemur að því að semja um verð.

Ég reif mig frá Rovernum með semingi eftir dágóðan tíma (bókstaflega, það er ekki góð hugmynd að sleikja málm í frosti) og bíð núna spenntur eftir að bílasalan opni á morgun. Ef einhver á milljón sem þarf að losa um með hraði, þá þigg ég hana með þökkum - ef ekki, þá er það allt í góðu, ég lifi bara á möl og tómatsósu út árið.


Tjáskipti

Tjáskiptaðu þínu eigin tjáskipti í tjáskiptin