Stóra ostamálið

20. október 2005

Ég brá mér til Basel í Sviss í desember 2003, borgar sem fræg er fyrir tvennt: Bankahvelfingar fullar af nasistagulli og stærsta SoloWeb-kerfi í heiminum. Planið var að taka stutta og snarpa vinnutörn hjá Obinary, samstarfsaðila Vefsýnar og svo nokkurra daga afslöppun, kíkja í alpana, kaupa jólagjafir, borða góðan mat og drekka gott vín. Eins og við var að búast gekk þetta ekki eftir og ferðin varð álíka afslappandi og kvikmyndin "Saving Private Ryan", með forriturum í stað hermanna og java-kóða í stað blóðs.

Tíminn úti leið hratt og eftir tæpa viku af 18klst vinnudögum og ca. 800 bolla af espresso sem gæti brætt góðmálma var ég orðinn, tjah, "öðruvísi". Ég brosti oft og mikið svo sást í tennurnar á mér, rökræddi af innlifun við sjálfan mig um hönnun forritsins sem ég var að vinna í og flissaði óstjórnlega ef mér datt eitthvað broslegt í hug - eins og t.d. eggaldin, sem mér þóttu mjög fyndin. Ég taldi líka þýskukunnáttu mína mun betri en hún er og hef lúmskan grun um að ég hafi ýmist verið að tala íslensku eða dönsku þegar ég skeggræddi við vinnufélagana á "þýsku". Ég hélt náttúrulega að þeir væru bara svona góðir hlustendur, það sló a.m.k. alltaf þögn á alla þegar ég hóf upp raustina til að viðra íslenska innsæið.

En já, vikan leið, og þegar fjórir tímar voru í flugið mitt til Íslands hætti ég að vinna. Kaffiblautur heilinn í mér mátti ekki til þess að hugsa að vera aðgerðalaus allan tímann fram að fluginu, þannig að ég fékk þá sérdeilis frábæru hugmynd að klára öll jólagjafainnkaup fyrir brottför. Skipulagsgáfan hefur aldrei verið mín sterkasta hlið. En eftir að hafa haldið mér föstum í hálftíma og róað mig með 30cc af morfíni tókst vinnufélögunum að fá mig ofan af glapræðinu og í staðinn fórum við á jólamarkað borgarinnar til að kaupa osta.

Hver jól er haldinn jóla-útimarkaður í Basel. Þangað mætir alltaf háaldraður ostagerðarmaður úr ölpunum, þekktur fyrir sælkeraosta sem hann framleiðir úr afurðum eigin búfjár. Ég man ekki hvað kauði hét, köllum hann bara Graf Ostmann von Käse.

Graf Ostmann var karakter. Hann var pínulítill og feitlaginn og á að giska um 200 ára gamall. Það var þó erfitt að giska á aldurinn þar sem hann var algjörlega falinn á bak við skegg sem hefði fengið Sveinbjörn Beinteinsson til að hlaupa grátandi heim til mömmu og snúast til kristni. Þetta var eiginlega ekki maður með skegg heldur skegg með áföstum manni. Graf Ostmann talaði auðvitað ekki stakt orð í ensku, og vinnufélagarnir byrjuðu á að kynna mig, líkt og við værum stödd við hirð Lúðviks 14, líklega sagt eitthvað í stíl við "Yðar osttign, viðskiptavinur frá Íslandi". Skeggurinn gladdist gríðarlega við að heyra hvaðan ég var og gleðin braust út í löngum fyrirlestri með látbragði og danssporum um aðdáun hans á Íslandi, jarðhitanum og hverunum, og hann hermdi með háværum kokhljóðum eftir sprengingum í gjósandi eldfjalli. Mig langaði næstum því til að klappa og hrópa bravó þegar hann kláraði.

Eftir fyrirlesturinn spurði ég á "þýskunni" minni hvort ég gæti fengið að bragða á ostinum hans. Líklega hef ég spurt hann hvort ég bragðaðist eins og ostur, en hann skildi a.m.k. hvað ég átti við, sveiflaði fram ostahníf og byrjaði að skera eins og vindurinn. Næstu tuttugu mínútur voru eintóm gleði og hamingja, ég hef líklega etið hálft kíló af sýnishornum, hvert öðru betra, en hverju oststykki fylgdi löng saga um uppruna og þróun þess. Á endanum var ég orðinn osta-óður og keypti heilt "hjól" (um 40 cm í þvermál og 15 cm þykkt) af nýjum kúamjólkurosti og hálft hjól af sama osti sem var búinn að fá að eldast vel og var af lyktinni að dæma líklega bannaður skv. mengunarvarnarlögum í flestum löndum Evrópu. Skeggur heimtaði svo að gefa mér í kaupbæti hina ýmsustu rauð- blá- græn- og grámygluosta, geitaosta, kindaosta og ostaosta. Ég yfirgaf básinn með nógan ost til hnoða saman í kúlu og koma nýju Tungli á sporbaug um Jörðu.

Nú þurfti að koma dýrðinni heim. Ég fór með lest frá Basel til Zürich, frá Zürich flaug ég til Kaupmannahafnar og frá Køben til Íslands. Hvar sem ég kom þandi fólk nasavængina og horfði varfærnislega á mig, enda lyktaði taskan mín eins og ég væri með vikugamalt lík meðferðis. Það var því stór léttir þegar ég loksins lenti á Íslandi. Ég skreið inn í flugstöðina með brjósklos, ilsig og kviðslit af því að bera þessi ca. 15 kíló af osti 3.000 kílómetra leið, nennti ekki í fríhöfnina og ætlaði beint út úr flugstöðinni. Munnvatnskirtlarnir voru byrjaðir að seita sætum vökva af eftirvæntingu fyrir heimkomupartýiið með öllum ostunum.

En þegar farangurinn minn var gegnumlýstur spurði tollarinn mig "Fyrirgefðu, getur verið að þú sért með alveg rosalega stóran ost í töskunni"? Ég svaraði því játandi. Tollarinn svaraði ásakandi, "Jájá vinur, við verðum nú að skoða hann". Mér fannst það skondið formsatriði að skoða ost, en fór samt með tollaranum inn í bakherbergi merkt "Eftirlit". Ég átti hálfpartinn von á að tollarinn mundi setja á sig gúmmíhanska með háværum smelli (ef ég væri tollvörður þá mundi ég alltaf gera það þegar ég færi með einhvern inn í "eftirlitsherbergið") en hann sleppti því alveg, bað bara um að fá að sjá ostinn sem málið snerist um. Ég opnaði töskuna og sýndi honum allan fallega ostinn minn. Tollarinn rogaði stóra hjólinu upp úr töskunni með þungri stunu, sneri því í marga hringi og var hugsi á svip. Hann skoðaði það í bak og fyrir og hristi höfuðið milli þess sem hann muldraði "æ, æ", "núnú", "hmmm" og "einmitt það". Svona fór hann í gegnum allt ostasafnið í töskunni hjá mér og ennið á honum hrukkaðist meira með hverju stykkinu. Ég var farinn að örvænta, því að það skein úr svipnum á honum að osturinn minn var ekki í góðum málum.

Loksins sagði hann: "Jájá, við verðum að brenna þetta allt saman". Ég hélt að hann væri að grínast og hló kurteisislega eins og maður gerir þegar "yfirvaldið" segir brandara. En andlitið á honum haggaðist ekki. Ég hafði ofmetið skopskyn íslensks landbúnaðar. Ég varð forviða, hélt hann kannski að þetta væru vímuostar úr krakkbeljum? Onei. Oooonei. Þarna lærði ég nefnilega að það má ekki flytja ógerilsneydda osta inn í landið. Þeir gætu nefnilega mögulega innihaldið sýkla og það er bannað að flytja erlenda sýkla inn til Íslands - a.m.k. án atvinnuleyfis.

Þannig atvikaðist það að af mér var tekin hver einasta ost-arða. Ég fór heim ostlaus maður. Og þegar ég gekk hnípinn á brott með ímynduð tár rennandi niður kinnarnar, sá töllvörðurinn hvað ég var miður mín og sagði við mig í huggandi tón: "Hafðu engar áhyggjur - þetta fer ekki á sakaskrá".


Tjáskipti

Tjáskiptaðu þínu eigin tjáskipti í tjáskiptin