Þjónn! Það er fluga á píanóinu mínu

5. nóvember 2006

Veit einhver af hvaða tagi þetta tónelska óargadýr er? Það slapp með skrekkinn í kvöld þar sem það sat á G-nótu á píanóinu mínu, einmitt þegar ég var búinn að reiða handleggina til höggs fyrir fyrsta hljóminn í popplagi í G-dúr. Hér er kvikmynd af kvikindinu. Spennandi, úhúúú!


Tjáskipti

DonPedro

:-S Popplag í G-Dúr eftir Valgeir Guðjónsson er á lista Sameinuðu Þjóðanna yfir ólögleg vopn, ég vona að þetta sé ekkert ráðabrugg til að drepa Margeir...

baun

ég ráðfærði mig við skordýrafræðing heimilisins (Hjalta 11 ára) og hann telur kvikyndið vera krybbu (ætt beinvængna, Gryllidae)

Elías

Hvaðan getur krybban hafa komið? Með píanóinu?

Hugi

Pedro, hvers vegna heldurðu að ég hafi verið að reiða handleggina til höggs? Ég er að berja lagið til óbóta, eins og það á skilið! Takk fyrir innskotið, baun - ég ætla að rannsaka málið til hlítar og skila skýrslu þegar ég kemst til botns í því. En skordýrafræðingur þessa heimilis (Hugi, 27 ára) telur að þetta sé andsetin húsfluga. Gæti þó haft rangt fyrir mér, þær eru venjulega með lengri fálmara. Elías, ef þetta kom með píanóinu þá er það fjandi lífseigt. Píanóið er að verða 15 ára gamalt.

Mjása

Vá, þú bjóst til forsíðu...ég þarf aðeins að jafna mig...nei, nei, þetta er impressive hjá þér, honestly, ég er mjög imponeruð :) p.s. kemur soundtrackið út bráðum?

Elías

Skordýr af þessum ættbálk liggja sum hver í dvala í mörg ár.

Fríða

Hér: http://www.vestrehus.dk/Dyresider/larver.htm má kannski sjá hvernig þetta leit út í frumbernsku? Ja.. nema þetta sé bara Valgeir í fyrra lífi.. eða næsta... eða eitthvað.

Hugi

Jájá, Mjása, I live to impress :). Mig langaði nú að gera þetta flottara - en klukkan var víst orðin fjögur og framkvæmdaskapið var ekki í hámarki :-). Soundtrack, góð hugmynd. Ég skal semja eitthvað ógnvekjandi krybbulegt stef við þetta. Elías, note taken. Læt vita þegar tarantúlurnar og bananaköngulærnar fara að streyma úr hörpunni á hljóðfærinu. Fríða, er ekki Valgeir með talsvert stærri fálmara?

SævarJökull

Stórkostleg kvikmynd! Bravó! Þú verður klárlega tilnefndur til óskarsverðlauna fyrir besta karlkyns aukaleikara!

Agnes

Geggjuð kvikmynd...ekki fá því að óskarinn sé á næsta leiti...en ég er alveg sammála Mjása...vantar alveg Sountrackið:)...annars er þetta brilljant bravóbravó:)

Hugi

Hehe, óskarinn segið þið. Tjah, svona þegar þið nefnið það, þá á ég örugglega skilinn óskar fyrir dýraþjálfun. Þið trúið því aldrei hversu erfitt er að þjálfa krybbu til að ná úr henni svona djúpri, tregafullri tilfinningatúlkun. Agnes, Mjása - One soundtrack coming up :).

Þór

Ég hefði giskað á að þetta væri mölur.. Eitthvað í ætt við þennan: http://en.wikipedia.org/wiki/Image:Stathmopoda_melanochra_%28ento-csiro-au%29.jpg Loðinn afturendinn bendir til þess að þetta sé fiðrildaættar ekki bjölluættar, og skorturinn á "bólunum" á fálmurunum að þetta sé frekar malarættar en fiðrildaættar. Auðvitað gæti ég haft rangt fyrir mér, enda ekki skordýrafræðingur :)

Sveinbjörn

Nú held ég að þú sért endanlega búinn að tapa vitinu, Hugi minn. ;)

baun

geta melir (flt?) HOPPAÐ svona eins og þessi gerir allra fremst í þessu ódauðlega listaverki Hugans? kannski þetta sé stönt-mölur...

Þór

(ft.) Mölflugur ( sem í raun eru engar flugur ) hreyfa sig nokkur hundruð sinnum hraðar en við náum að skynja. Ef upprunalega myndbandið er skoðað hægt, þá veðja ég á að kvikindið breiði út vængina, og fljúgi þennan spöl yfir á fingurinn. :)

baun

ég var nú að grínast með malar-fleirtöluna, finnst hún kúl... en mig langar að vita hvaða sort þetta kvikindi er, hvort þetta gæti verið ofurmölur?

Ms. G

Be afraid. Be very afraid. PS. Þorir einhver að fara og banka upp á hjá Huga?

baun

hei, hefur einhver SÉÐ Huga nýlega???

Hugi

Magnað, bara hafin hér greiningarvinna :). Þór, Mölur, já! Ég vissi ekki að mölur þrifist á Íslandi, enda með eindæmum fáfróður. Á ég þá að fara að gera ráðstafanir til að verja fötin mín? Einhver sagði mér að meðalmölurinn gæti étið þrjú kíló af skítugum sokkum á innan við fjórum árum. Annars sá ég Huga í speglinum inni á baðherbergi í morgun. Hann leit skelfilega út, greinilega nývaknaður eftir mikla vinnutörn og var með baugana girta niður í buxurnar.

Carlos

Rauðhærður Derrick?

Þór

Kannski bara spurning um að fá sér mölkúlur og dreifa þeim hist og her... Segðu SpeglaHuga að þegar baugarnir ná hnjásbótum, þá geti hann selt þá til uppbyggingarstarfs í Írak. Það vanti alltaf efni í tjaldbúðir fyrir flóttamenn ;)

Ms. G

Allt nema David Caruso, með maskara. Með eða án polyurethan. En sennilega er mynd af Horst Tappert með skilgreiningunni á baugum í Das große Duden.

Ms. G

En eftir þennan flugufund hefur fyrirsögnin Fjör á Melnum nú fengið nýja og ískyggilega merkingu. Ertu nokkuð kominn á trúnaðarstigið, Hugi, fyrst þú ert búinn að byrgja svona margar færslur inni? (Jeij).

Mjása

Hvað er annars að frétta af dýrinu? Er það enn á lífi? (Allir brandarar um Huga sem dýr eða Animal í Prúðuleikurunum vinsamlegast afþakkaðir)

Hugi

Skemmtilegur fróðleikur sem dynur á mér um skordýr þessa dagana :-). Mölur ku t.d. vera hér um bil útdauður þar sem hann getur ekki nærst á þessu plastdóti sem nútímamaðurinn gengur í - hann þarf hör eða bómull eða eitthvað þess háttar. Snobbdýr sem þetta eru. Ms. G, ég á eftir að enda á trúnó dauðans hérna. Fær allt að flakka, sögur af ástinni, meltingunni, ákveðnum vandræðum sem ég hef lent í með þriðja endajaxlinn frá hægri í neðri gómi. Og margt fleira. Mjása, dýrið er horfið, hef það grunað um að liggja í leyni undir rúmi hjá mér. Er örugglega að bíða eftir rétta tækifærinu til að éta mig eða sjúga úr mér blóðið eða ná heimsyfirráðum, eða hvað það er sem Mölur gerir í dag.

anna

Padda sem þú ert Hugi. Þetta minnir mig á þegar hvíti maðurinn svoleiðis valtaði yfir indjánana. Þú hefur flutt á Mölina!

baun

hér gæti verið um að ræða stökkbreytt og afar sjaldgæft afbrigði, Tineola fleecipeisus.

Hugi

Anna þó, kallar mig pöddu!? Þú ert sjálf bara... MÖLUR - já, það er nýtt orð yfir ykkur borgardýrin af mölinni. Og þar sem margir borgarbúar koma saman eru melir. Og ef þeir eru úti í haga, þá eru þeir Hagamelir. Og hananú! Tineola fleecipeysus, hmm, þú segir nokkuð. Eru það þá eins og silkiormar, nema éta plast og skila af sér flísefni í stað silkis?

baun

nei, bara ósnobbaður mölur sem lætur sér nægja að naga flís. er ekki klár á því hvað gengur niður af honum, sorrí.

Tjáskiptaðu þínu eigin tjáskipti í tjáskiptin