Unaðsilmur

22. maí 2006

Jæja, þá er búið að aflýsa hættuástandi hjá neyslustýringarnefnd koffínsviðs fíknideildar heilans í mér og ég er smátt og smátt að verða að sjálfum mér aftur. Reyndar aðeins minna geðsýkislega hlæjandi, skrykkdansandi útgáfu af mér, en þó mér.

Ég sé nú þegar geðklofinn fer dvínandi að koffínið var farið að stór-há mér, ég var farinn að gera tóma vitleysu, jafnvel farinn að gefa kvenþjóðinni auga, sem ég var annars búinn að sverja alveg af mér í bili. Enda hamingjusamasti piparsveinn í hinum þekkta alheimi.

Það sem ég er samt ánægðastur með er að vera laus við koffínhrifin úr svitanum af mér. Síðustu daga er búið að vera blómstrandi vor í handarkrikunum á mér, þannig að ég á hreinlega erfitt með að ganga ekki um allan daginn með höfuðið á mér límt undir handleggina. Það er gleðileg umbreyting frá skólpinu sem áður streymdi þar fram, mér og öðrum til lítillar ánægju.

Lexía dagsins: Ef þú vilt lykta eins og ferskur jarðarberjabúðingur, takmarkaðu kaffidrykkjuna.


Tjáskipti

baun

ja hérna, ertu þá alveg hættur? eða hefurðu bara minnkað þambið um helming? er heilinn í þér hálfur Hugi? hverng langar að ilma eins og jarðarberjabúðingur allan daginn? (ekki mig)

baun

það eru illvígir ritvillupúkar í þessu kommentakerfi - geri hvergi eins mikið af innsláttarvillum eins og hér (prófarkalesarinn sjálfur) átti að standa hér f. ofan: hvern langar að ilma eins og....

Hugi

Tveir bollar á dag, það er töfratalan. Heldur mér vakandi án þess að breyta mér í húðlitaða útgáfu af The Amazing Hulk. Já, ertu prófarkarlesari? Maður ætti kannski að ráða þig til að lesa yfir áður en maður birtir?

Einar Solheim

Tek að mér það verkefni fyrir hönd kvennþjóðarinnar að lauma koffíni í mat og drykk Huga þannig að hann haldi áfram að fremja þann glæp að renna hýru auga til kvennþjóðarinnar! ;)

baun

sýnist nú engin þörf á yfirlestri hjá þér Hugi... á tveimur bollum á dag - ertu þá hættur að taka eftir kvenfólki?

Hugi

Fallega boðið Einar - en getur maður nokkuð rennt "hýru auga" til kvenþjóðarinnar nema maður sé lesbía? Baun, já, ástin var í kaffinu. Nú er ég kynkalt illmenni.

baun

segðu mér, hvaða sort er þetta af kaffi sem þú gusaðir í þig?

Hugi

Það er framleitt af ítalska kaffiframleiðandanum Pfizer og heitir "Rohypnol". Og það er selt í litlum pillum en ekki baunum. Mjög sniðugt.

Lindablinda

Ég er glöð að Hugi er hættur að glápa á kvenfólk samfara því að gefa kaffidrykkju upp á bátinn. Veit um fáar konur sem vilja að karlmenni lykti eins og jarðaberjabúðingur og þetta hefði getað endað illa. Ég drakk hins vegar fimm espresso í dag og held að skítalyktin af mér hafi frekar stafað af þremur leikfimitímum en kaffinu, en þá er ég líka svo vitlaus. Hefði þó ekki meikað tímana nema á kaffinu. Sé fyrir mér tíma þar sem að kennarinn er búinn að þamba Rohypnol. Það yrði bara leiðinlegt.

DonPedro

Hlakka til að koma og fá að kúra í handarkrikanum.

baun

núúú...ég hélt að þú hefðir malað oní kokið á þér einhverjar eðalbaunir en ekki pilluskratta var að vonast eftir góðum ábendingum um þessar ástarbaunir (reyndar langar mig nú lítið að glápa á kvenfólk og skiptir þá engu hvaða stöffi ég er á)

ElínE

Ég held að það hljóti að hafa verið eithvað að kaffibaununum sem þú notaðir. ég er búin að drekkar ofurskammta af kaffi í mörg ár og ekki svo mikið sem horft á eftir einum kvenmanni ! Mesta lagi gjóað augunum á skóna sem þær voru í, ef ég hefði séð þær. Karlmaður sem ilmar eins og jarðaberjabúðingur, það er varla einu sinni krúttlegt.

Hugi

Jæja, það er nokkuð ljóst að þá vill mig engin, því ég lykta eins og jarðarberjabúðingur. Með ögn af sítrónuberki og léttum keim af ferskri myntu. Og það hentar vel, því þá þarf ég ekki lengur að berja af mér allar stelpurnar sem hanga utan í mér dags daglega og get hætt að leita alltaf að stalkerum undir rúminu mínu, inni í fataskápnum og ofan í píanóinu áður en ég fer að sofa. Linda, ég gæfi mikið fyrir að sjá einn líkamsræktartíma með Rohypnoluðum kennara. Það væri hægt að hafa vögguvísuna eftir Brahms undir æfingunum. Baun, að gamni slepptu þá heita þessar nöfnur þínar sem ég malaði yfirleitt "Sólarglóð" og eru frá Kaffitári. Afar ljúfar og bragðmiklar baunir. Og Pedro, þú átt alltaf vísan stað í handarkrikanum á mér.

Atviksorða-Anna

Have to say að "Baldursbrár í Miðfirði" er mjög fallega tekin. Stemmingin slík að maður hlakkar til sumarsins...ef það kemur þá aftur.

Sveinbjörn

Hugi, það að gefa kvenþjóðinni auga og að vera piparsveinn eru alls ekki "mutually incompatible" fyrirbæri -- mér tekst að samræma það ágætlega.

Hugi

Takk Atviksorða-Anna :-). Viðförður einn af mínum uppáhalds stöðum og þar eru risastórar breiður af Baldursbrám sem henta vægast sagt vel til ljósmyndunar. Sveinbjörn, það er flott hjá þér :-). En ég er ekki á leiðinni í samband af neinu tagi og ég er ekki "one night stand"-maður, þannig að einmitt núna er það bara til trafala að horfa um of á betri helminga heimsins.

Tjáskiptaðu þínu eigin tjáskipti í tjáskiptin