Heppinn

20. desember 2006

Kom við á bensínstöð um helgina og fékk mér pylsu. Hljómar einfalt, ekki satt?

En þegar ég ætlaði að fá mér tómatsósu vandaðist málið. Lenti á einni af þessum heimakæru tómatsósum. Sósan var bara alls ekki á því að yfirgefa flöskuna svo ég hnykkti flöskunni duglega til að losa innihaldið. Þessi aðgerð heppnaðist ekki betur en svo að megnið af innihaldinu yfirgaf flöskuna með háværu, heldur óvirðulegu hljóði og plantaði sér í einfaldri línu þvert yfir andlit og föt virðulegs, miðaldra manns sem stóð grunlaus á móti mér og borðaði pylsu.

Karlgreyið þurrkaði rauða slettu af nefinu á sér og leit á mig með sársaukasvip. Við horfðumst í augu og hvorugur okkar sagði neitt, það var algjör þögn í sjoppunni og spennan var áþreifanleg. Svo ræskti ég mig og spurði varlega hvort þessi föt hefðu nokkuð verið dýrmætir erfðagripir. Hann hló. Ég heppinn, sprautaði yfir mann með húmor.

Ég splæsti á hann pylsu.


Tjáskipti

Carlo

Þú ert bara of mikill gúrmei til að kunna á tómatsósuflöskur, Hugi.

inga hanna

hahaha snilld!

Lína

Hugi, ég held þú sért snillingur. en.. Billie situr í mér.. hvar fékkstu plötuna? Er hún CD? En, Hugi, annars hefur úldinn makríll reynst mér best gegn sænskum árum. Gleðileg jól Lína

Agnes

Hahahahahahahhahahaha.....þú ert snillllllli....sem betur fer er bara til einn HUGI!!!

Þór

Nei, þeir eru nú reyndar fleiri. Ég þekki amk. þrjá til viðbótar. - EN, þeir eru ekki eins skemmtilegir :) Svo eru til sveimHugar, ofurHugar, Hug(a)djarfir og Hug(a)prúðir og margir aðrir Hugar... :-P

Hugi

Hehe, ég veit nú ekki hversu mikil snilld þetta var - sá þarna á tímabili fyrir mér að ég væri að fara að lenda í slágsmálum, svona í fyrsta skipti á fullorðinsárunum. Var bara heppnin með tómatsósuviðtakanda. Lína: Tólf tónar. Besti staðurinn í bænum fyrir okkur sem nærumst á djassi. Þór, einmitt - orðið allt of langt síðan ég hef heyrt góða Hugabrandara ;-). Carlo, þetta var auðvitað frönsk gæðatómatsósa. Búin til úr frökkum sem eru aðeins fóðraðir á franskbrauði fyrir slátrun. Slurp.

Hugi

Já, Lína - hvar fær maður góðan úldinn makríl í dag? Þetta var hvunndagsmatur fyrir austan, en ég bara finn þetta ekki í búðum hérna í Reykjavík.

Lína

Hugi "minn".. maður kaupir ekki úldinn makríl, maður kaupir makríl (fæst í dósum hjá öllum betri kaupmönnum) og latastrákar hann þar til hann úldnar. Þegar dósin er farin að bólgna, þá er gott að setja hana á viðeigandi stað, til að auka viðbragðsflýtinn þegar sænskurinn lætur sjá sig.. Er annars farin með desemberuppbótina í 12 tóna.. Njóttu hátíðanna, Lína

Þór

Það er ábyggilega hægt að leggja inn pöntun til eiturefnadeildar Ríkislögreglustjóra um leyfi til innflutnings á surströmming frá Svíþjóð. Stóra spurningin er hvort það sé til eitthvað fley sem getur komið nálægt þeim ófögnuði án þess að sökkva ? Það er amk fátt jafn öflugt. Ég hef séð heilu hverfin leggjast í eyði í Svíþjóð eftir að surströmming kom þar við. Hroðaleg uppfinning sem gefur gjöreyðingarvopnum Ísraela ekkert eftir.

Tjáskiptaðu þínu eigin tjáskipti í tjáskiptin