Berlín: Amaryl City Hotel

28. maí 2008

Framsóknarmennska er flókin, burðarþolsútreikningar eru nokkuð flóknir og skammtafræði er alveg ofsalega flókin. En flóknast af öllu er víst að finna hótel fyrir hóp í Berlín í maí með viku fyrirvara - og þeir sem klikka gætu endað á hinu rándýra "Gay Friendly" Amaryl City Hotel.

Nú.

Ég skrapp á ráðstefnu í Berlín í síðustu viku. Gestgjafar okkar á ráðstefnunni sáu um að bóka hótel, en þar sem við hjá Umferðarstofu erum full barnslegrar forvitni skoðuðum við hótelið á Intervefnum fyrir brottför og fundum nokkrar umsagnir fyrri viðskiptavina. Þessar umsagnir reyndust vera skólabókardæmi um framúrskarandi væntingastýringu:

"What a dump".
"Worst hotel I ever stayed at".
"Worst hotel in Berlin".
"box".

Semsagt, mjög gott.

En við létum þetta ekki brjóta okkur niður. Við lentum í Berlín á miðjum sólríkum sunnudegi, 6 manna hópur, og tókum leigubíl á hótelið. Eftir nokkurn akstur staðnæmdumst við fyrir framan stóran vegg. Á þessum vegg var lítil hurð, gluggi sem á stóð Amaryl Hotel und pensionat og nokkrar fúnar, ómálaðar krossviðarplötur með árituðum hótunum frá Borgarráði Berlínar um hvað yrði gert við okkur ef okkur dytti í hug að krota á þær.

Það birtist enginn einkennisklæddur hótelþjónn með pípuhatt að taka töskurnar, svo við gripum farangurinn og gengum varlega innfyrir krossviðinn. Að innan leit hótelið helst út eins og lítill Hogwarts-skóli og í móttökunni stóð brúnaþungur eldri Tyrki með yfirgreiddan skalla - eigandi hótelsins - sem var ekki glaður að sjá okkur. Við vorum fyrir honum. Hann vildi losna við okkur. Í augunum á honum brann svo innilegt hatur á mannkyninu að sálin í manni öskraði af örvæntingu í hvert skipti sem hann leit á mann.

Mér líkaði strax vel við hann.

LSS: Svona voru okkar fyrstu kynni af hótelinu - en dvölin var samt frábær. Sá gamli var fínn og fylgdist vel með okkur, hann átti það til að banka uppá og skamma okkur fyrir að láta heita vatnið renna - nú eða minna okkur á að slökkva ljósin á baðinu þegar við vorum búin að kúka. Suma dagana fékk maður hrein handklæði og einu sinni sá ég hann meira að segja brosa (þótt eftirá að hyggja hafi hann líklega bara verið að bera tennurnar).

En það voru ekki allir hótelgestirnir jafn sáttir. Meðan við biðum eftir leigubíl frá hótelinu út á flugvöll í lok vistarinnar kom virðuleg kona strunsandi í mótttökuna og tékkaði sig út með þeim orðum að hún skildi vel hví fólk þyrfti að greiða gistinguna fyrirfram - það mundi aldrei neinn greiða sjálfviljugur eftirá fyrir gistingu í öðru eins ógeðsgreni. Karlinn ræskti sig og öskraði svo á hana: "YOU GO, YOU LEAVE BITCH! LEAVE MY HOTEL AND NEVER COME BACK TO EUROPEAN CITY AGAIN".

Og það tók mig þrjá daga að hætta að brosa.

Í gær sagði ég manni sem er á leiðinni til Berlínar þessa sögu (í mun lengra máli) og hann sagði hlæjandi á eftir "þú semsagt mælir ekki með þessu hóteli". Ég hugsaði mig um og svaraði svo "jú, veistu - ég mæli eindregið með því. Þetta hótel er algjör snilld. Og ég bið að heilsa kallinum".


Tjáskipti

Kolla

Takk gæskan ;o) *dæs* líður betur!

Tjáskiptaðu þínu eigin tjáskipti í tjáskiptin