Nightmare on Melstreet

14. júní 2006

Ég fékk aðra martröð síðustu nótt, þá fimmtu á tveimur mánuðum. Og ég sem hef sofið eins og barn síðan ég var barn og dreymir aldrei neitt nema skemmtilega steypu allar nætur - fljúgandi skógræktarbændur og talandi pottablóm og annað þess háttar.

En þessi var mögnuð og skildi mig eftir í algjöru rusli og ófæran um að sofna aftur, svona líka allt of snemma í morgun. Mér finnst að hún hljóti að hafa merkingu.

Nú langar mig að senda út sem allra fallegasta draumaráðningarbeiðni til sérfræðinganna sem hafa reynst mér svo vel hérna í gegnum tíðina. Já Baun, ég er að tala við þig :-). Ég fer ekki út í smáatriðin, en hér er það helsta:

Ég er heima hjá mér, íbúðin er myrkvuð og það er stormur geysandi úti. Skyndilega færist hann í aukana og verður skelfileg óhemja, ég finn kaldan gust blása inn meðfram gluggunum. Ég reyni að líta út, en á erfitt með að sjá hvað er að gerast fyrir hálflokuðum rimlagluggatöldum sem ég get ekki opnað betur. Það er eitthvað ógnvekjandi afl sem veldur storminum, en ég sé ekki hvað það er fyrir þeim.

Skyndilega er ég ekki lengur í íbúðinni minni heldur í stærra húsi. Það stendur fólk kyrrt hér og þar í húsinu, ástvinir mínir, og sama aflið og veldur storminum er að hrifsa þá til sín hvern af öðrum, þeir beinlínis hverfa fyrir augunum á mér. Ég er sorgmætur en ekki hræddur um að verða tekinn sjálfur. Fyrr en rétt undir lokin. Þá heyri ég kvenmannsgrát, fyllist lamandi skelfingu - og vakna þá skjálfandi.

Er þetta ráðanlegt? Og er ég að verða geðveikur?


Tjáskipti

Lindablinda

Geðveikur. Eða forspár. Geðveikur og forspár - var Raspútín ekki hvorutveggja? Nei. Annars vona ég að það sé hvorugt því draumur þessi (ef hann er sannur) er heldur óhuggulegur.

Hugi

Raspútín. Þú segir nokkuð. Verð ég þá ekki að fylgja forlögunum og fara að halda við konu Geirs Haarde þar til ég verð fylltur af eitri, skotinn og svo drekkt í tjörninni af stjórn Sjálfstæðisflokksins? Nei annars, ég hef takmarkaðar áhyggjur af þessu, ég er ekki forspár, svo mikið er víst :-). Ég hef gert of mikla þvælu í gegnum tíðina til að það fái staðist. En ég held að sterkir draumar séu oft tengdir því sem er að gerast í daglega lífinu og geti hjálpað manni að skilja það betur. Þeir eru eins og gott líkingamál í bókmenntum.

Óskar

Það vill svo til að ég er sérlegur draumfararáðgjafi hjá drauma og næturbrölts ráðuneyti Íslands. Ég sá strax að þarna er mjög merkilegur draumur á ferðinni sem er vandráðinn. Í draumnum eru nokkur mikilvæg teikn. Myrkvað kunnuglegt umhverfi, kaldur stormur, ekki lokuð heldur hálflokuð gluggatjöld, breyting á umhverfi, sorgartilfinning og kvennamannsgrátur. Þegar allt þetta er sett saman í samhengi er augljóst mál hvað vandamálið er. Þín innri kona fyllir þig skelfingu því þú veist aldrei hvenær hún brýst fram með látum og kastar karlmennsku þinni út í veður og vind. Það er bæði ógnvekjandi og kuldaleg tilfinning og þú veist fyrir víst að fjölskylda þín myndi útskúfa þér. Þetta verða þá 8900kr með vsk sem þú mátt leggja inn á mig við tækifæri. Fyrir aðeins 4000kr aukalega býðst þér einnig iljalestur og spá í iBookinn.

baun

Mér er ljúft og skylt að ráða í þessi tákn Hugi minn. Vindur: Blási vindurinn hátt þarf dreymandinn oftar en einu sinni að standa frammi fyrir hættum en kemst jafnan heill á húfi frá þeim. Gluggatjöld: ..merkir að einhver er að fela eitthvað fyrir dreymandanum sem yrði honum til góðs ef hann vissi af því. Snerti menn gluggatjöldin mun leyndarmálið brátt afhjúpað. Hræðsla: Hræðist menn eitthvað dularfullt í draumi munu þeir finna fyrir mikilli gleði í vöku. Þeir gætu t.d. erft einhvern eða glaðst yfir velgengni barna sinna. Finni menn fyrir ofsahræðslu í draumi ættu þeir að vara sig á fólki sem gæti haft af þeim það sem þeim ber. (Stóra draumaráðningabókin, Vaka-Helgafell, 1999) Læt þig um að púsla táknunum saman í samhengi við það sem er að gerast í lífi þínu. Það er ansi margt miðað við færslur síðustu daga hjá þér (FBI, CIA, Víkingasveitin, morð, holur, golfkylfur, klæðskiptingar). Gangi þér vel:o)

Elín Björk

Mér hefur alltaf skilist að slæmir draumar merki eitthvað gott og góðir draumar eitthvað slæmt, svo þessi óhugnanlegi draumur hlýtur að merkja mikla hamingju! Hugsaðu bara um það næst þegar þetta kemur fyrir, þá kannski nærðu að sofna aftur :-)

baun

Oft er ljótur draumur fyrir litlu efni. Segir mamma.

Hugi

Þúsund þakkir baun, þú ert algjör gullmoli! Ég man því miður eki hvort ég snerti gluggatjöldin, en nú leggur maður höfuðið í bleyti og íhugar málin yfir tebolla í kvöld. Takk Elín, ég er nú léttari en svo að ég láti eitthvað draumarugl íþyngja mér. Bara verst þegar þetta truflar svefninn - ef ég fæ ekki mína sjö tíma þá verð ég úrillur og hættulegur sjálfum mér og öðrum. Og takk fyrir skemmtilegt kvöld, stefnum á að endurtaka þetta sem allra fyrst - það er komið að mér að bjóða :-).

Orri

Hugi, þú ert blautur draumur sálgreinandans. Verst að sálgreining er tímafrek, rándýr og gagnslaus.

Sveinbjörn

Ég fletti þessu upp í Freud, og já, þú ert að verða snarruglaður. Ég er hræddur um að það sé bara Kleppur fyrir þig, Hugi minn. Allir vita það nú, eftir allt saman, að meistari Freud hefur *aldrei* rangt fyrir sér...

Hugi

Orri, takk, en ég þurfti síst af öllu að vita að þig dreymir blauta drauma um mig. En heldurðu að það sé markaður fyrir þetta? Ætti ég að fara að auglýsa í vikuritum sálfræðinga "Hot therapy, dial 1-800-Messed-up"? Óskar, þú ert ruglaður :). Já, Sveinbjörn, líklega rétt hjá þér. Sem betur fer pantaði fjölskyldan fyrir mig Kleppsvist í síðustu viku eftir að hafa lesið skrifin hérna undanfarna daga.

Simmi

Það rifjuðust upp fyrir mér draumráðningar Tvíhöfða, þar sem allir draumar voru fyrir fátækt og örbirgð og skipti þá litlu um hvað draumurinn snérist.

Orri

Ég er reyndar ekki sálgreinandi en fyrir þig myndi ég gera undantekningu. Því miður dreymir mig allt of sjaldan um þig. Og reyndar allt of sjaldan blauta drauma líka..... Kleppur er fínn staður, ég hef unnið þar og er viss um þú eigir eftir að hafa það ágætt þar. Passaðu þig bara tvítóla gyðingavampírunum. Freud hafði alltaf rétt fyrir sér. Eða...já.....jújú.

Orri

....og með að auglýsa í vikuritum sálfræðinga.....ekki viss um að það sé sniðugt þar sem kollegar mínir heimta yfirleitt að fá borgað fyrir að hafa afskipti af fólki (kannski sérstaklega fólki eins og þér.....). Sumir væru vísir til að hringja og senda þér svo svimandi reikning.

Gestur

Hey, hvaða langlokur eru þetta? Þetta er gargandi samviskubit út af Ken. No more, no less.

Carlo

Evreka Gestur! Kvenmannsgráturinn er auðvitað frá Önnu. Stormurinn er fráfall Kens.

Gestur

Einmitt það sem ég vildi sagt hafa, Carlo!

Stefán Arason

jebb! Geðveikur.

anna

Tjah.. ég var reyndar að gráta smá í gærkvöldi en fór aldrei hærra en í 3. Kannski hefur Hugi ofurheyrn! Var að gráta útaf Ken auðvitað. Ég er mjög sorgmædd yfir þessu og þyrfti eiginlega að finna Batman til að hugga mig. Keypti mér reyndar Batman blöðru í dag sem gerði mig smá ánægða..

Guðjón Helgi

iss þetta er bara veður spá sumarsins á höfuðborgarsvæðinu og allir fara austur í GÓÐA veðrið ;) þig langar líka þangað en kemst ekki vegna kvennamála eða bara tjúll og klikk

Stjórinn

Þessi dramur er bara bein skírskotun í síðustu skrif á síðunni hjá þér. Stormurinn stendur fyrir allann vindganginn og viðreksturinn, og rimlagluggatjöldin er hjúpurinn sem hylur öll þau myrkraverk sem framin hafa verið kringum þig og þola ekki dagsns ljós. Stóra húsið er bein þýðing á enska heitinu "Big house" eða það sem við köllum fangelsi. Það eru því miklar líkur á því Hugi minn að þú sért á leiðinni í tugthúsið, og eins og allir vita þá er erfitt að halda sambandi við ættingja og vini þegar maður er þar. Nú er því mál fyrir þig að hafa samband við Örn Clausen, Matlock eða einvern annan álíka snilling og búa þig undir það versta. Ég vona bara að röndótt fari þér vel.

anna

Ljóta ruglið í þér Stjóri. Þetta var ÓVART. Það ætlar sér engin að drepa Ken. Blasir við.

Carlo

Hugi er þegar búinn að semja við mig um að skrifa handritið að fangelsisdramanu Pretty in Stripes svo það er eins gott að hann fari í fangelsi. Annars er ekki víst að við getum haft „Based on a true story“ á múvípósternum. Leit að aðalleikara stendur yfir.

Stjórinn

Heyrst hefur að Carrot Top hafi tekið að sér aðalhlutverkið í þessu fyrirhugaða fangelsisdrama, en David Caruso hafði áður neitað hlutverkinu þar sem of mikið væri um kynlífssenur í myndinni. Hugi, you poor bitch.

Hugi

Carlo, ég er alveg að kaupa hugmyndina að "Pretty in stripes". Eða "Brokeback prison". Og ég tek auðvitað sjálfur að mér aðalhlutverkið, Carrot Top er engan veginn nógu rauðhærður <em>(rauðhærð? rauðhært? veit ekki hvers kyns það er)</em> til að túlka persónu mína svo vel sé. Það er líka óþarfi að fá svo alvarlegan leikara í hlutverkið þótt þetta sé drama. Ég sé þetta alveg fyrir mér, kertaljósakvöldmatur í klefanum, stolin bros í sturtunni, sex bókstafa ástarbréfum laumað á milli manna á einkanúmeraplötum. Tvímælalaust Edduverðlaunamynd! Orri, ég skal senda þér mynd af mér sem þú getur horft á fyrir svefninn, við skulum sjá hvort það hjálpar. Og ef þig langar í martröð, þá get ég verið ber að ofan :). Gestur og Kalli, samviskubit út af Ken, já, nei, vitið þið, ég held ekki. Innst inni grunar mig að ég hafi viljandi rifið öndunarvélina úr sambandi. Hvernig í ósköpunum á ég að geta dregið Önnu niður stigann í te ef hún er stöðugt í hjólastól? Ég yrði að setja lyftu utan á svalirnar og vitið þið hvað það kostar?! Anna, ég mælist til þess að þú setjir hárkollu á batman-blöðruna, takir hana með þér hvert sem þú ferð og kynnir hana sem Júlíus Bender, eiginmann þinn til margra ára. Svo þegar þú ert spurð að einhverju, þá snýrðu þér að blöðrunni og spyrð "hvað finnst þér, elskan?". Guðjón, þú hittir naflann á höfuðið. Mig langar austur. Maður þarf að fara í blautgalla og setja á sig kork og kút áður en maður fer út í "reykvísku blíðuna" þessa dagana.

Carlo

Mér skilst að Mike Tyson hafi áhuga á hlutverki Kio Briggs.

Mjása

Er þetta ekki bara álagsdraumur?

Stjórinn

Hvernig væri að setja bara bleikar strípur í Al Pacino og hann græjar þetta hlutverk af alkunnri snilld, "Hugi Montana, pólitískur fangi úr Fjarðarbyggð, vooohaaa". Og svo fer auðvitað Jude Law með hlutverk fórnarlambsins. Gargandi snilld.

Carlo

Hugo, wo bist du? http://www.youtube.com/watch?v=pYak2F1hUYA&feature=MostReferred&page=1&t=t&f=b#

Hugi

Afsakið, afsakið, ég tók mér óvart smá frí frá Netheimum til að rannsaka þennan "raunveruleika" sem allir eru að tala um. Hann er voða mikið í tísku núna. Jú Mjása, líklega bara álag. A.m.k. dreymir mig eintóma sælu að venju núna. Í fyrrinótt tók ég t.d. þátt í töframannasamkeppni á Norðurpólnum. Ég vann auðvitað, og til að halda upp á það bauð ég vinkonu minni í mat, reikningurinn var upp á tæplega 650.000. Fínn draumur :).

Hugi

Kalli, úff, nú er ég búinn að horfa fimm sinnum á þetta myndband og er ennþá grátandi af hlátri.

Gestur

Já. Lofum almættið fyrir polyurethan.

Hugi

Gestur, svo sannarlega, svo sannarlega.

Lindablinda

650.000 fyrir einn dinner!!!! Var "allt" innifalið? Kalli hvar finnurðu þessar andstyggðir? Ég er í losti.

Carlo

Linda, hugsa fallegar hugsanir. Hlusta á eitthvað hreinsandi. Arcade Fire til dæmis. Eða hlusta á My Morning Jacket og fara á happy pleisið þitt :) Þetta myndband vakti Huga a.m.k. af þessum raunveruleika sem hann leitast reyndar enn við að hæpa ótæpilega.

Hugi

Linda, það var sko allt innifalið, wink wink, nod nod, know what I mean, know what I mean. Semsagt fordrykkur, já, hann var innifalinn.

Carlo

Segðu mér að þú hafir a.m.k. fengið flösku af Petrus með steikinni...

Tjáskiptaðu þínu eigin tjáskipti í tjáskiptin