Fötin skapa ... hluti

13. mars 2006

Ég var að ganga í hægðum mínum niður Laugaveginn í dag þegar ég sá svo hræðilega klætt fyrirbrigði að hornhimnurnar í mér móðguðust þegar ég neyddi þær til að horfa á það. Og þegar ég tjái mig um klæðnað þá ber að taka það alvarlega, því ég er ekki beinlínis heitasti boðberi parísartískunnar og "Biblía fallega fólksins" er ekki á leiðinni í körfuna mína á Amazon.

Það sem ég náði að sjá áður en hausinn á mér sprakk og dreifðist yfir 30 metra radíus, var þröngur bleikur bolur sem hélt saman karlmannsbrjóstum eins og á górillu og skoppandi ístru sem náði að gægjast vel yfir beltið á hvítum gallabuxum. Við þetta fóru auðvitað svartir lakkskór. Ég gæti haldið áfram en ég vil ekki særa blygðunarkennd fólks (og útlit mannsins minnti mig líka pínulítið of mikið á sjálfan mig á þvottadegi).

Ég fór í kjölfarið að velta fyrir mér; hversu ósmekklega þyrfti ríkisstarfsmaður eins og ég að klæðast áður en samfélagið fengi iðrakveisu og hreinlega steinsmugaði honum úr kerfinu?

Maður þyrfti náttúrulega að vinna sig mjög hægt niður á við í útliti til að enginn tæki eftir þróuninni, svipað og enginn tók eftir hægfara útlitsþróun Michael Jackson (úr svörtum karlmanni í hvíta konu) fyrr en um seinan. Þetta yrði þriggja til fimm ára verkefni. Ég spái því að ef maður færi nógu hægt í þetta, þá gæti maður endað á því að mæta í vinnuna íklæddur g-streng og rjómaklatta með kirsuberi á sitthvorri geirvörtunni, án þess að nokkur sæi eitthvað athugavert.

En, ég hef enga þolinmæði og mér finnst g-strengs hugmyndin svo góð að það er ekki séns að ég taki þrjú ár í þetta. Ég ætla að kýla á þetta á morgun.


Tjáskipti

Lindablinda

Einnig geturðu mætt nakinn með rúsínu í naflanum og haldið þvi fram að þú sért jólakaka. Það myndi líklegast einnig fá skjóta afgreiðslu.

Sveinbjörn

Hehehe, ég er viss um að á uppsagnareyðublöðum fyrir ríkisstarfsmenn sé "Klæðaburður" ekki á listanum yfir "Ástæða uppsagnar". En hvað með "Andfélagsleg hegðun"?

Einar Solheim

Ef þú stendur við þetta og tollir út daginn (ath! ekki má hylja G-strengin og rjómaklattana með neinu öðru), þá færðu bónus :)

DonPedro

Ég er ennþá fastur á "ganga í hægðum mínum". Walking around in my own excrement...

Hugi

Jæja, afgreiðum þetta hratt. Linda: Ég _mun_ nota rúsínuna, glæsilegt. Sveinbjörn: Samkvæmt starfssamningi er mér skylt að klæða mig "snyrtilega", en þar sem "snyrtilega" er teygjanlegt hugtak mun lögmaður minn sjá til þess að ég fái skaðabætur ef öðrum þykir þeyttur rjómi "ósnyrtilegur". Einar: ég er byrjaður að þeyta rjómann og þigg bónusinn. Takk. Pétur: Ég líka. hef aldrei getað notað þetta orðatiltæki án þess að flissa eins og smástelpa. Og nota það því þess meira.

Kibba

æi böööh.. búið að nota brandarann minn *FRUSSSSS*

Hugi

Kæra Kibba, þótt ég hafi aldrei hitt þig veit ég hver stolni brandarinn var og þú ættir að þakka fyrir að honum var stolið. Það fer ekki góðum stúlkum að fjölyrða um hægðir, þær eiga að tala um útsaum og eldamennsku.

Kiðhildur

Erfitt er að kenna gömlum hundi að éta hundakex eins og málshátturinn segir. Ég er því að fara að falla á tíma í sambandi við að læra kvenlegar dyggðir. Ég er nefnilega þeirri fötlun háð að vera alin upp af sora þjóðfélagsins, veruleikafirrtum geðsjúklingum og illa lyktandi freðýsum sem ganga vanalegast undir nafninu Femínistar. En það er sjálfssagt að átta sig á villum síns vegar, snúa lífi sínu við og lifa eins og Gvöð hinn almáttugi ætlaði okkur bringufitupokakyninu að lifa... þ.e. fyrir framan eldavélina, með prjóna í höndum og sem persónuleg þeytipíka fyrir karljúnitið mitt. Eða eins og G.W.Bush sagði einu sinni: "a good wife always knows her place"

Hugi

Ég hef bara engu við þetta að bæta. Veruleikafirrtir geðsjúklingar, illa lyktandi freðýsur, bringufitupokakynið - þetta sagði allt sem segja þurfti. Smá leiðrétting þó, réttur staður konunnar er á bakvið eldavélina. Og það er aldrei of seint að læra.

Kibba

já það er alveg rétt... það er miklu þægilegra að vera á bak við eldavélina, maður fær góðan stuðning frá veggnum eftir langt standerí

Stefán Arason

enn og aftur eru geirvørtur thinar komnar i bloggid thitt...vid thurfum ad fara ad finna upp einhvert kynbrenglunarnafn á thennan sid thinn...svona eins og kogigami og okululingus...hvad med oggnoggma?

Hugi

Oggnoggma er gott orð en ef við ætlum að fylgja latínuhefðinni, þá verður það að vera "Papillaelingus". Mæli annars eindregið með því að menn prófi að kíkja á Google og leita að "latin nipples". Alveg endalaus skemmtun. Héðan í frá mun ég nefna geirvörturnar á mér í hverri einustu færslu.

Tjáskiptaðu þínu eigin tjáskipti í tjáskiptin