Nördaskapur: Longhorn

24. apríl 2005

Nú eru vinir okkar hjá Microsoft búnir að taka upp nýtt slagorð fyrir "Longhorn", Windows-uppfærsluna sem átti upphaflega að koma út árið 2004, en er núna kannski ætlað koma út árið 2006. Slagorðið er "It just works" og auðvitað stolið frá Apple eins annað gott sem kemur frá Redmond.

Mér finnst það mikil dirfska að segja "it just works" um gufuhugbúnað sem búið er að fresta endalaust, líklega einmitt vegna þess að hann er alls ekki að virka. Það er búið að taka Microsoft óhemjulegan tíma að þróa Longhorn og samt er búið að fjarlægja fídusana sem ég var spenntastur fyrir. Dýrið Longhorn er nú víst einmitt einhverskonar hyrnd beljutegund, þannig að það ætti kannski ekki að koma á óvart þó að kvikindið fari hægt yfir.

Fyrir skemmstu var birt viðtal við Jim Allchin, aðstoðarframkvæmdastjóra Microsoft. Þar bar hann Longhorn saman við Mac OS X 10.4 (Tiger) og sagði að Longhorn yrði betra kerfi. Með öðrum orðum: Eftir eitt og hálft ár getur Microsoft kannski boðið betra stýrikerfi en Apple selur í dag. Gott hjá þeim. Það er náttúrulega eitt elsta bragðið í hugbúnaðarbransnum, að tala um hvað næsta útgáfa verður frábær, til að draga athyglina frá því hvað varan sem boðið er upp á í dag er afleit. Á ensku kallast svona hugbúnaður sem aðeins er til í hugskoti markaðsmanna "vaporware", "gufuhugbúnaður" eða bara "gufa" á góðri íslensku.

Longhorn mun einhverntíman koma út. En það kerfi sem kemur út verður fjarri því að standa undir loforðunum sem Microsoft hefur gefið út um eiginleika þess. Og þegar það loksins birtist verðum við makkamenn löngu sigldir inn í nýjar útgáfur af Mac OS X, kerfi sem verður betra og hraðvirkara með hverri útgáfu.

Já, það er víst satt sem sagt er um Windows: Það er sama hversu lengi þú fægir kúk, þú færð hann aldrei til að glansa.


Tjáskipti

Tjáskiptaðu þínu eigin tjáskipti í tjáskiptin