Endalausar smíðar

5. júní 2006

Nú er ég alveg að missa þolinmæðina yfir þessum stöðugu smíðum hérna í blokkinni.

Hamagangurinn byrjaði fljótlega eftir að ég henti rækjusölumanninum út í dag og hefur verið reglulega í gangi fram eftir öllum degi. Núna er reyndar verið að smíða í annarri íbúð en síðast og mun nær mér, því drunurnar eru óskaplegar. Múrhúðin er farin að brotna úr loftinu á íbúðinni og flestar myndirnar eru hrundar af veggjunum.

Og þessi smiður er ótrúlegur. Hann hamrar og hamrar og hamrar, stöðugum, taktföstum höggum og gleðst svona líka rosalega þegar hann er búinn að smíða eitthvað og rekur þá upp hávær hamingjuóp. Ég vildi að ég hefði svona gaman af vinnunni minni.

Konan hans er greinilega líka að smíða með honum og ekki minna ánægð með árangurinn, en hún er virðist vera mjög trúuð því hún ákallar Guð hástöfum í næstum hverju höggi. Einmitt það sem ég þurfti - trúarofstækisfólk í næstu íbúð.

Ég hef hreinlega áhyggjur af ástandinu því smiðurinn er greinilega með slæman astma og másar og stynur við hvert hamarshögg. Ég skil bara ekki af hverju svona augljóslega veikur maður leitar sér ekki að rólegra starfi. Ég hugsa að ég banki upp á og bjóðist til að hjálpa honum að sveifla hamrinum. Eða handlangi fyrir hann verkfæri.


Tjáskipti

Lindablinda

Hahahahahahaha!

Simmi

Spurning hvort þú verður ekki að taka þetta fyrir á húsfundi? Ég myndi ekki láta bjóða mér þetta. Eru ekki einhverjar húsreglur þarna hjá ykkur?

Stefán Arason

gæti þetta verið færeyingurinn að verki? ef svo er þá er ég voðalega feginn að þú hleyptir honum ekki inn með rækjuna sína...

Hugi

Taka fyrir á húsfundi? Ég held að ég verði bara að hringja beint í lögregluna. Nú er konan byrjuð að gefa smiðnum einkunn fyrir allt sem hann gerir, og hann er greinilega mjög góður smiður því hún hrópar bara "tíu, tíu, tíu".

Siggi

Ugh! Þetta hljómar skelfilega. Ég er viss um að hann fari að bora í lofti og þá kemur þetta óheilaga "sssssSSSSKRRRRííííAAAAAAAAAAAAA!!!" hljóð sem er nóg til að rífa sálina mans í sundur. Ég held að þeir hafi notað þetta í fyrra persaflóa stríðinu. Þú ættir bara að fara "battla" við smðinn með píanóinu :)

Lindablinda

Góð hugmynd. Ég myndi spila "Le petite negre" sem allir voru látnir taka próf í á 2. stigi og er eitt hræðilegasta lag sem hefur verið samið á píanó aftur og aftur og aftur og sjá hvort að þetta hættir ekki. Ég fæ enn martraðir þegar ég heyri þetta lag. Ogghhh. Nú er ég t.d. komin með það á heilann og ekkert er fjarri mér en smíðar og stigagjöf..

Hugi

"Sssskría"-hljóðin, alveg rétt, skelfileg. Það eru raunar einhverskonar "sssskkkría"-hljóð farin að berast niður, en ég held að það sé ekki verið að bora í loftið - kem þeim ekki alveg fyrir mig. Góð tillaga með píanóið, en ég settist niður áðan og hamraði etudur og konserta af háværustu gerð og heyrði þær ekki einu sinni sjálfur. Smiður 1, Hugi 0.

Gestur

Hann er augljóslega með risarækju. Góðan og blessaðan dag, annars.

Guðjón Helgi

þetta er kanski rækju kokteillinn í framkvæmd !!!!!! (það er aldrei að vita hvað það þíðir á færeysku "að blanda cotail" ;)

Tjáskiptaðu þínu eigin tjáskipti í tjáskiptin