Hattur sýslumannsins

24. febrúar 2005

Undanfarið hefur lóðaúthlutun á höfuðborgarsvæðinu verið talsvert í umræðunni, ekki síst vegna þess að fólk sem vill eignast íbúð þar verður að selja a.m.k. aðra ömmu sína og tvö líffæri til að hafa efni á. Fréttamaðurinn í Útvarpinu mínu hefur tjáð mér að tvær leiðir séu færar til að úthluta lóðum, sem sagt að bjóða þær upp eða að draga þær úr hatti.

Þetta endurtekur fréttafólk í sífellu eins og ekkert sé sjálfsagðara. En ég verð nú bara að spyrja í forundran og hætta á að vera talinn tregur fyrir vikið: Hvaðan í ósköpunum kemur þessi tiltekni hattur sem notaður er við allar lóðaúthlutanir og hvers vegna verður að draga allar lóðir úr honum? Hví ekki að sletta aðeins úr klaufunum, vera öðruvísi, breyta til, og draga lóðirnar úr til dæmis poka, bunka eða jafnvel hrúgu, til að nefna af handahófi þrjú dæmi um hluti sem hægt er að draga aðra hluti úr? Allt lyktar þetta mjög illa og mig grunar að þetta tengist með einhverjum hætti Alheimssamsæri Kommúnista. Nánar um það síðar.

Það er þó a.m.k. gaman að velta þessu fyrir sér á léttari nótum - t.d. hvernig lítur þessi geysigagnlegi hattur út? Hann þarf náttúrulega að vera í stærra lagi til að allar lóðirnar passi í hann, þannig að ekki er þetta sixpensari, og hann verður að vera virðulegur, þannig að ekki er þetta partýhattur. Þá eru nú fáar hattategundir eftir og þar sem kúrekahattar eru ekki í tísku einmitt núna grunar mig að um sé að ræða pípuhatt.

En hversu súrrealískt er þetta þá orðið: Sýslumaðurinn í Reykjavík, umkringdur forsprökkum íslenskra verktakafyrirtækja, að draga lóðir úr pípuhatti? Vá! Það mætti áreiðanlega selja inn á slíka samkundu fyrir góðan pening.

Ég er nú reyndar með nokkrar hugmyndir til að gera þetta aðeins áhugaverðara. Hvernig væri t.d. að sleppa hattinum og halda bara vikulegt lóðabingó í Glæsibæ? Þeir gætu kallað það "lóðaríið". Eða hengja þetta saman við Lottóið? Ég mundi tvímælalaust taka mér tíma til að horfa á Þórunni frænku draga reykvískar lóðir úr Lottu á laugardagskvöldum. Tekjur af miðasölunni mætti nota til að styrkja félagsstarf Framsóknarkvenna í Kópavogi, ekki veitir af.

Og úr því að sjónvarpið er komið í spilið, hví þá ekki að ganga alla leið og gera lóðaríið að raunveruleikasjónvarpsþætti? Það mætti t.d. setja Survivor-stílinn á það og senda verktakana til að lifa í mánuð af landsins gæðum á Melrakkasléttu ("The Devil's Rectum") eða nota Bachelor-stílinn og senda verktakana á suðræna sólskinseyju þar sem þeir mundu keppast um að komast í bólið með Stefáni Jóni eða Ólafi F. Magnússyni. Skammarverðlaunin væru að sjálfsögðu lóðir í Breiðholti.

Ég er víst kominn aðeins út fyrir efnið, er a.m.k. ekkert nær því hvaðan eða hvernig þessi bölvaði hattur er. En eftir sem áður finnast mér þetta allt frábærar hugmyndir og ég skil ekkert í þessum hugmyndaskorti borgaryfirvalda, að vera að draga lóðir úr þessum afleita, hallærislega og líklega ljóta hatti, þegar fimm milljarðar jarðkúlubúa hreinlega öskra á gott sjónvarpsefni til að horfa á yfir kvöldmatnum.

En þegar upp er staðið snýst þetta nú um að við, sauðsvartur íslenskur almúginn, fáum eitthvað í okkar hlut, þótt ekki sé nema dægurskemmmtun, út úr þessu lóðabraski því það er nokkuð víst að ekki er það að skila sér í lægra fasteignaverði.


Tjáskipti

Tjáskiptaðu þínu eigin tjáskipti í tjáskiptin