Utan við sig

26. júní 2006

Ég er búinn að vera haugalatur við skrif undanfarið, það er svo margt skemmtilegt hægt að gera þegar sólin skín úti. T.d. að forrita, ég er búinn að gera mikið af því. Og spila á píanóið, ég er búinn að gera enn meira af því.

En öll þessi misbeiting á gráu sellunum við kóða- og tónasmíðar hefur haft slæm áhrif á utanviðleika minn og þótt heimurinn utan Internetsins sé stundum kallaður "raunheimar", þá hefur höfuðið á mér aldrei verið fjær raunveruleikanum.

Þetta sannaðist yfir eldavélinni í kvöld. Ég var að steikja kjúklingabringur og milli þess sem ég hrærði í kjúklingnum sneri ég mér að eldhúsvaskinum til að vaska upp. Áður en ég vissi af var ég byrjaður að hræra í kjúklingnum með uppþvottaburstanum.

Ég uppgötvaði mistökin of seint. Þekki ekkert krydd sem felur bragðið af bráðnu næloni. En pizzan frá Eldsmiðjunni bætti þetta alveg upp.


Tjáskipti

Ms. Bean

hef heyrt því fleygt að karlmenn eigi mun erfiðara með "fjölverk" (multi tasking) en konur. ætli sé eitthvað hæft í því? (edik, það yfirgnæfir allt bragð. en þá bragðast allt eins og edik. edik eða nælon? sennilega pítsa.)

Langi Sleði

Hahhahhaaha Af nákvæmlega sömu ástæðu ... á ég alltaf til einn auka uppþvottabursta

Carlo

Í mesta lagi vaska ég upp meðan eitthvað mallar í friði eða sýður. Annars myndi andsk... uppvaskið eyðileggja ánægjuna af eldamennskunni.

Elín Björk

Ég hélt að svona hlutir gerðust bara hjá heimavinnandi húsmæðrum... en er afskaplega fegin að heyra að þetta komi fyrir alla. Var farin að óttast að hafa enga afsökun þegar ég byrja aftur að vinna... hvernig er svo með næsta matarboð??

Simmi

Láttu þér þetta að kenningu verða Hugi - aldrei gera nema eitt í einu og gera það þá vel:-)

Carlo

Never whistle while pissing.

Hugi

Það virðist vera eitthvað til í þessu Baun - kemur mér samt á óvart þar sem ég man ekki eftir svo miklu sem einni mínútu síðastliðin sjö ár þar ég var að vera minna en þrennt í einu. Kalli, sammála - það er svona þegar maður er að flýta sér að hlutunum, enginn tími til að njóta þess... Elín, ég fer sko að bjóða fljótlega. Verð með gesti alla næstu viku, en svo fara hlutir að gerast ;-). Simmi, hjartanlega sammála. Ég lét þessi sömu orð falla þegar mér var boðið, tíu ára gömlum, að spila á trommur í lúðrasveitinni heima. En þá var ég byrjaður að læra á píanó og vildi ekki skemma fyrir því með einhverju ótónlistarskyldu eins og húðarbarningi :-). En einhvern veginn hefur mér ekki tekist að lifa samkvæmt þeim síðan þá...

Carlo

Annars hefurðu verið að elda funky chicken þarna ^.^

Hugi

Já Kalli, ég er núna kominn á samning hjá Einari Bárðar um að þróa og markaðssetja "Nælonkjúkling". Fátt er svo með öllu illt...

Carlo

Nælon. Tastes like chicken ^.^

Lindablinda

Mér finnst alltaf svo yndislegt þegar að ég sé að það er til fólk eins og ég. Þá hætti ég að hafa svona miklar áhyggjur af klikkunn minni.

Hugi

Já Linda, ég mundi ekki hafa stórar áhyggjur. Úff, ég skrifa ekki einu sinni um flest sem ég geri.

Tjáskiptaðu þínu eigin tjáskipti í tjáskiptin