"Meitill"

5. júní 2007

Ég þurfti að losa mig við lík um daginn og vantaði verkfæri (m.a. nýja lærleggsskröpu og höfuðkúpumölvara) svo ég skrapp í Húsasmiðjuna. Eftir svolítið rölt um verslunina fann ég starfsmann - strák um tvítugt - og spurði hann hvar ég fyndi meitla.

Strákurinn horfði á mig hugsi og ráfaði svo af stað með mig í eftirdragi. Þegar við höfðum gengið stefnulaust um búðina í nokkurn tíma sneri hann sér að mér og spurði vandræðalega: "Ég var að spá, hérna… Hvað er meitla"? Ég brosti mínu skilningsríkasta og svaraði: "Meitill, ekki meitla". Hann horfði áfram á mig opinmynntur, svo ég hélt áfram: "Ímyndaðu þér myndhöggvara að búa til listaverk, hann mundi eflaust nota hamar og meitil". Svo setti ég mig í leikrænar stellingar og sló á ímyndaðan meitil með ímynduðum hamri.

Við þetta lifnaði yfir stráknum og hann tók undir sig stökk. Eftir gott rölt staðnæmdist hann og benti á verkfærarekka með báðum handleggjunum. Andlitið á honum ljómaði eins og sól.

Hugi: "Nei, þetta eru sporjárn".
Strákur: "Spor-Járn?".
Hugi: "Já. Sporjárn".
Strákur: "En hérna… Hvernig lítur þá meitill út?"
Hugi: "Meitill er bara einfaldur fleygur úr málmi".
Strákur: "… Fleygur?" (hann horfði núna á mig eins og það hefði vaxið á mig annað höfuð og bæði töluðu geimversku)
Hugi: "Það sem ég meina er að meitill er stutt málmstöng, oddmjó í annan endann".
Strákur: "Ah já, auðvitað!".

Og áfram héldum við að enn einni hillusamstæðunni. Strákurinn leit á mig með vonarglampa í augunum. En ég sagði "Nei. Þetta heitir kúbein".

Á þessum tímapunkti átti ég orðið erfitt með að halda aftur af hlátrinum. Og strákurinn tók líklega eftir því, því hann afsakaði sig og sagðist ætla að finna einhvern sem vissi hvers konar undratól "meitill" væri. En hann kom aldrei til baka. Líklega hefur hann brotnað saman undan pressunni og frelsast. Eða eitthvað.


Tjáskipti

Tjáskiptaðu þínu eigin tjáskipti í tjáskiptin