Fundarstjórinn

2. mars 2006

Ég þreytti í dag frumraun mína í fundarstjórnun á hádegisverðarfundi um Vef 2.0 hjá Skýrslutæknifélaginu. Þar sem ég á það til að vera stundum oggulítið seinheppinn beið ég spenntur eftir að vita hvað færi úrskeiðis á þessum fundi og var strax í gærkvöldi farinn að sjá fyrir mér blaðafyrirsagnirnar; "Fundarstjóri kveikir í ráðstefnusal með ljóspenna, 11 slasaðir, 2 látnir"; "Fundarstjóri mismælir sig gróflega, móðgar alla viðstadda, brenndur á báli af reiðum múg" o.s.frv.

Nú, það var fullbókað á fundinn og það mættu um 140 manns. Allt gekk vel framan af, þar til fyrsti fyrirlesarinn yfirgaf staðinn eftir fyrirlesturinn sinn og tók í misgripum með sér öll mín fundargögn og minnispunkta, u.þ.b. fjóra metra af atriðum sem ég hafði ætlað mér að nefna, fólk sem ég átti að þakka o.s.frv. Þegar ég uppgötvaði þetta, þá tók ég smá stöðuúttekt í huganum og sá að það var aðeins um þrennt að ræða:

  1. Að missa vitið, fara úr fötunum, öskra "dvergar stjórna heiminum" og stökkva út um gluggann.
  2. Að þykjast missa málið skyndilega og tjá mig með dansi það sem eftir var fundar.
  3. Bulla mig út úr vandanum.

Eftir mikla ígrundun varð þriðji kosturinn fyrir valinu. Ég er sem betur fer gríðarfær bullari og slapp því lifandi frá þessari mannraun en er staðráðinn í að tattóvera öll fundargögn á magann á mér næst.


Tjáskipti

anna

LOL Þú ert snillingur!

Lindablinda

Hefði samt ekki getað sofið af spenningi í nótt í bið eftir fyrirsögnum morgundagsins ef Hugi hefði farið þá leið að veja kost 1 eða kost 2. Mynd af fundargestum fylgir grein - Sér í lagi vítt skot, meðan að kostur 2 gengur yfir. Óborganlegt.

Stefán Arason

já...einstakur er orð sem kemur upp í huga mér.

Orri

dvergar stjórna heiminum

DonPedro

Ég geri þetta á hverjum degi, bara bulla mig í gegnum lífið. Ef þú lítur út fyrir að þú trúir því sjálfur sem þú ert að segja, trúa 80% áheyrenda að þú vitir hvað þú ert að segja, hina grunar föt keisarans en þora ekki að koma upp um það af ótta við að hafa rangt fyrir sér. Þú valdir rétt.

Hugi

Já, ég hef marga fjöruna bullað í gegnum lífið. Og Pétur, hér er smá trix: Í staðinn fyrir að segja "trúa 80% áheyrenda að þú vitir hvað þú ert að segja" áttu að segja "sýna rannsóknir að 82,1% fólks trúi því sem þú ert að segja". Það dettur engum í hug að véfengja slíka staðhæfingu. Og dvergar stjórna vissulega heiminum.

Simmi

Þetta var að sjálfsögðu viljandi gert - ekkert gaman að fundarstjórum sem eru búnir að ákveða hvað þeir ætla að segja og eru með þetta allt punktað á blaði - þú hefur verið miklu betri fyrir vikið:-) En sorrí samt að hafa stolið frá þér punktunum, tók ekkert eftir þessu.

Hugi

Jájá Simmi minn, ég sá alveg glottið á þér þegar þú fórst :-)

Tjáskiptaðu þínu eigin tjáskipti í tjáskiptin