Clint Eastwood er draugur

27. janúar 2006

Sökum ruglaðra anna í vinnunni (ha ha, voða fyndið, nei það eru ekki margar ruglaðar Önnur í vinnunni hjá mér, ég þekki bara eina svoleiðis og hún vinnur ekki með mér) neyddist ég til að vinna fram á nótt síðasta föstudag. Umferðarstofa er í risastórri byggingu og maður er alveg einstaklega einn þegar maður er einn þar. Svona í fúlustu alvöru, maður er mikið meira einn þegar maður er einn í stóru húsi en þegar maður er einn svona almennt.

En já, ég er fremur myrkfælinn og mér líður ekki vel einum að næturlagi. Það var því afar hressandi hjartaþjálfun sem ég fékk um kl. 3 um nóttina þegar ég sat við tölvuskjáinn í myrkrinu og heyrði skyndilega hása rödd tala við sjálfa sig á ganginum fyrir utan skrifstofuna mína. Ég stirðnaði allhressilega, stóð upp og kíkti varlega fram á gang. "Halló?" sagði ég hljóðlega. Ekkert svar. Ég var greinilega alveg jafn aleinn og ég hélt. Ég kyngdi varlega og "glúbb"-ið bergmálaði á ganginum. Ég settist aftur við tölvuna og hélt áfram að vinna, en stóð ekki alveg á sama. Ég var viss um að ég hafði ekki ímyndað mér röddina.

Eftir nokkrar mínútur heyrði ég röddina aftur, hása og draugalega. Í þetta skipti stökk ég fram á gang og öskraði "Hver í fjandanum er þetta!?". Ég titraði og var þakklátur fyrir að hafa fengið gott uppeldi, því ég ábyrgist ekki hversu vel mér hefði annars tekist að stjórna þvagblöðrunni. Ég var drulluhræddur og ákvað hreinlega að hætta að vinna og fara heim, því hvort sem um var að ræða mína eigin geðveiki eða öfluga reimleika í byggingunni, þá var greinilega ekki gáfulegt að vera einn á þessum bölvaða stað.

Ég slapp heim, óétinn af draugum.

Laugardagsmorguninn eftir mætti ég til vinnu kl. 9. Ég rölti inn á skrifstofuna mína, kveikti á tölvunni og fór svo fram til að sækja mér kaffi. Meðan ég malaði baunirnar í morgunsopann heyrði ég röddina ógnvekjandi aftur. Hún kom frá skrifstofu við hliðina á minni. Ég kíkti þangað inn og sá þá að sími sem lá á borðinu var að hringja með sérsniðinni hringingu. Hann sagði hásri röddu: "Go ahead. Make my day".


Tjáskipti

Tjáskiptaðu þínu eigin tjáskipti í tjáskiptin