Af laukum og flugum

7. maí 2006

Anna kíkti í mat í gær og hún kom færandi hendi, með laukskera af flottustu gerð! Sem mér fannst alveg magnað, því aðeins fjórum klukkustundum fyrr var ég á þrammi um Kokku í árangurslausri leit að einum slíkum.

Þetta dásamlega áhald á eftir að spara mörg tár á þessu heimili og nú get ég loksins aftur farið að elda gratineruðu lauksúpuna, en hana hef ég ekki gert í tvö ár þar sem grátköstin yfir lauknum ollu krónískri depurð. Og ég var hættur að hafa efni á sálfræðimeðferð í hvert skipti sem ég eldaði súpu.

Spök orð dagsins: Ef þú ert að leita þér að íbúð, ekki horfa á hriplekar pípulagnirnar, ónýt gólfefnin, sprungurnar í veggjunum eða myglaða eldhúsinnréttinguna. Það eina sem þú þarft að vita er hvort góður nágranni fylgir með í kaupunum. Önnur heimsins eru ómetanlegar og skipta svo miklu meira máli en steypan og timbrið sem þú færð í kaupbæti.

Ég vaknaði annars kl. 7 í morgun við háværar drunur. Það fyrsta sem ég hugsaði í draumhvörfunum var "stúkurnar eru komnar!" en þegar ég var búinn að hrista af mér svefninn sá ég að ástandið var mun verra en það. Það reyndist vera komin reiðileg hunangsfluga inn í íbúðina, greinilega ölvuð, og hún var byrjuð að brjóta og bramla innbúið. Af vextinum að dæma held ég að þetta hafi verið ein af þessum vaxtarræktar-hunangsflugum sem bryðja anabólíska stera eins og hunang.

Ég sveif á fætur, vopnaðist vatnsglasi og nýjasta tölublaði Gestgjafans og fór svo á fluguveiðar. Eftir tíu mínútna æstan eltingarleik og stutt slagsmál tókst mér að taka þrjótinn hálstaki og kasta á dyr (ég þarf alltaf að bjarga öllu kviku sem slysast inn til mín, get ekki gert flugu mein).

Ég vona að nágrannarnir í blokkinni á móti hafi sofið frameftir í dag, annars fengu þeir í morgun áhugaverða sýningu á nöktum karlmanni stígandi villtan stríðsdans.


Tjáskipti

Eva á Umfó

Úff, láttu mig vita það... þær eru mættar í öllu sínu veldi og þá er ekki gott að vera ört vaxandi :S Veit ekki hvernig þetta verður er líður á sumarið, ekki mjög smart að sjá kasólétta konu á harðahlaupum undan býflugum, vespum, geitungum... og reyndar öllum flugum, flugvélum og fuglum því í ógnarfenginni skelfingu minni skiptir ekki máli hvað það er sem flýgur, það gæti jú verið býfluga :Þ En vonandi mun ég skemmta lýðnum ótæpilega :)

Gommit

Ertu til í að upplýsa fáfróðan pöpulinn um muninn á hníf og laukskera... Hefði líklega getað komið í veg fyrir þetta glórulausa bruðl með því að benda þér á að anda með munninum þegar þú skerð laukinn :)

Gommit

Tek þetta reyndar allt til baka. <a href="http://www.kokka.is/kokka/nanar_um_voru/?ew_2_cat_id=13201&ew_3_p_id=22231258">þessi græja</a> lúkkar bara nokkuð vel. En ég hefði líklega slegið þig af þú hefðir keypt <a href="http://www.kokka.is/?ew_2_cat_id=15818&ew_2_p_id=22584842">Gonchi bretti</a> (aka spíta).

Hugi

Hehe Eva, við verðum að segja þessari plágu stríð á hendur. Hér í 107 eru það reyndar aðallega geitungarnir sem gleðja - ég þarf yfirleitt að innsigla íbúðina í maí og opna ekki glugga aftur fyrr en í október. Finnur, þetta er einmitt græjan. Frumsýning fór fram í gærkvöldi við gríðarlegar undirtekir. A.m.k. hjá mér.

Sveinbjörn

Góð Wikipedia færslan um Stúkuna ;)

baun

lenti í hunangsflugu í morgun sem var á stærð við rauðbrysting. kallaði á 11 ára son minn sem bjargaði málum hefði alveg viljað sjá þig klæddan svefndrunga, glasi og gestgjafa á eftir þinni mæju;)

Gestur

Varstu með creme brulee?

Gestur

"...get ekki gert flugu mein..." Ég vissi að þessi karmaskuld væri eitthvað orðum aukin hjá þér um daginn. Hugsaðu þér hvað þú átt mikið inni af dýravildarpunktum.

Lindablinda

Biði ekki í mig eftir svona lauksúpu? Spurning hvort að viðreksturinn myndi setja jarðskjálftamæla hjá Ragnari af stað. Allir ættu að eiga eina Önnu.......eða tvær. Ég á hins vegar bara gamla fúla kellingu sem ullar á mig og æpir. Viltu nokkuð bítta? En hvað er málið með hunangsflugurnar? Þær verða stærri og stærri með hverju árinu! Hvað ætli sé að valda þessu? Mér finnst þetta í meira lagi krípí.

Kalli

Oh... ég þarf að prófa að elda súpu sem kemur ekki úr pakka. Fyrst ætla ég samt að kynna mér allt um kjötsoð. Ég lenti í því um daginn að heyra í einni gulröndóttri hlussunni inn um gluggann minn og það lék allt á reiðiskjálfi. Hún hefur ábyggilega verið skylduð til að taka aðflugsleiðbeiningum frá flugumferðarstjórn vegna þyngdar sinnar. Annars passar það alveg við þessa ímynd sem maður fær af þér að þú sért catch and release maður og jafnvel gagnvart óværu. Ég veiti flestu skordýrskyns sem kemur inn hjá mér sundkennslu enda hef ég tekið eftir að henni er mjög ábótavant meðal sex- og áttfætlinga. Verð að viðurkenna að enginn slíkur hefur enn útskrifast... Hvernig er það þegar þú flytur Hugi. Flyturðu Önnuna með líka eða auglýsir hana sem virðisaukandi búnað?

Hugi

Baun, trúðu mér, þú hefðir ekki viljað sjá neitt af þessu, ég er ekki með mjög tignarlegan limaburð fyrir fyrstu kaffibollana. Og ég var ekki einu sinni búinn að setja á mig andlitið. Jú Gestur, Creme Brulee var það heillin. En ég efast um að vildarpunktarnir dugi fyrir himnaflugi. Fæ í mesta lagi miða aðra leiðina í hreinsunareldinn. Linda, lauksöngurinn í neðra er þekkt vandamál og þegar ég býð upp á lauksúpuna þá fylgir korktappi með hverri skál. Ég mælist til þess að gestir noti hann. Og ég get því miður ekki skipt á Önnu, ég á ekki aðra svoleiðis. En mig vantar hinsvegar gamla skapilla konu í blokkina og get boðið þjóðverja í skiptum, það eru tveir svoleiðis hérna og ég má alveg missa annan þeirra. Jafnvel báða. Og flugurnar ERU að fara stækkandi. Góðærið kannski að ná til þeirra líka? "Catch and release", Kalli það er ég :-). Ef þær aðstæður kæmu upp að ég þyrfti að veiða mér til matar þá mundi ég svelta heilu hungri. Ég er eins og Guðfaðirinn, ég kýs að láta aðra sjá um morðin. Þá er mitt eigið karma skínandi hreint þegar steikin kemur á borðið. Gott kjötsoð: http://www.fabulousfoods.com/school/cstech/stock.html Gerði þetta einu sinni með hreindýrsbeinum sem ég fékk í Melabúðinni. Það var gott. En annars nota ég nú venjulega bara kjötteninga :-).

Simmi

Hunangsflugurnar bústnu eru alla jafna sauðmeinlausar - en á þessum tíma gætir þú verið að rekast á drottningar sem geta verið skapstirðar. Þessi laukskeri er hins vegar snilld og mun fara á afmælisgjafalistann minn - ég fer að halda að ég þurfi að flytja og finna mér betri nágranna - aldrei fengið neitt svona skemmtilegt frá mínum:-)

Hugi

Já Simmi, þetta var örugglega drottning. Jafnvel drag-drottning, svona stórvaxið og skapstirt kvikindi hlýtur að vera karlkyns. Og ég mæli með laukskeranum - notaði hann í kvöld til að hakka grænmeti. Unaður. En varastu eftirlíkingar - það eru líka til dót-útgáfur af þessu sem bíta ekki á blautan... eh, lauk. Og það er ekki víst að þú þurfir að flytja til að ná þér í nýja granna, þú getur bara verið óþolandi sjálfur í nokkra mánuði til að losna við þá núverandi. Gætir t.d. * Lært á trommur * Stofnað kattahótel * Bætt "Hell's Angels á Íslandi" fyrir neðan nafnið þitt á póstkassanum * Gengið alltaf um nakinn á ganginum og sagt að það sé í lagi "í þínum hluta af sameigninni" * Dreift fölsku DV-blaði í póstkassa nágrannanna með mynd af þér á forsíðunni og fyrirsögninni "Raðbarnanauðgarinn nú í stórfelldum kókaíninnflutningi." Ég á mun fleiri hugmyndir, láttu bara vita ef vantar.

anna

Það kom ein svona hlussa hingað áðan. Ég tilkynnti henni formlega að ég ætlaði útí sjoppu og að hún skyldi vera búin að hypja sig þegar ég kæmi heim - annars myndi ég drepa hana. Hún var farin þegar ég kom heim. Ég geri nefnilega flugum mein og hún hefur heyrt að mér var full alvara. Ég vona að við verðum nágrannar sem lengst. Ég var einmitt að hugsa um daginn hvað við erum heppin með nágranna. Þetta er rosalega "róleg" blokk. Ég held að ég hafi aldrei búið á svona góðum stað og að hafa einhvern eins og þig á neðri hæðinni er ómetanlegt. Laukskerinn er bara evil plan til að halda þér í húsinu. Veit hvað þú ert hrifinn af lauk - enda tekst þér að gera kraftaverk með honum! Takk fyrir yndislegt kvöld. :-)

Daníel

Get a room.

Hugi

Já var það ekki, þetta hefur áreiðanlega verið sama hlussan og ég bjargaði út í morgun, þráir greinilega að búa hjá okkur. Veit samt ekki hvers vegna hún var að brasa við að koma inn í okkar íbúðir, dýr af þessari stærð gæti örugglega bara labbað inn í banka og fengið fasteignalán. En gott að vita að ég get hóað í þig til að særa þær út með formælum, kemur sér vel ef ég á ekki handbært eintak af Gestgjafanum. Kannski nóg fyrir mig að horfa bara illilega á þær og hvæsa "farðu, annars kalla ég á Önnu"? Anna, góðu orðin sendast auðvitað óbreytt til baka á efri hæðina, við erum heppin og evil-plön eru óþörf til að halda mér hérna. Takk sömuleiðis fyrir gærkvöldið - og öll kvöldin og árin á undan því. Megi þau verða sem flest :-).

Hugi

Hehe Daníel, þeir sem þekkja eitthvað til okkar Önnu vita að við þurfum ekki herbergi til að hittast. Og mig vantar ekki aukaherbergi. Alveg nóg að borga fasteignagjöld af heilli íbúð.

anna

Svo má náttúrlega ekki gleyma sameiginlegu hjólageymslunni.

Elías

Hunangsflugurnar eru stærri en þær voru vegna þess að þetta er önnur tegund sem hefur numið land nýlega. Mig minnir líka að flestar eða allar hunangsflugur séu frjóar, þannig að það er ekki hægt að tala um drottningar eins og með maura, býflugur og vespur.

Hugi

Já, hjólageymslan. Og þvottahúsið, maður. Og svo segir hann "get a room" þegar við eigum þegar fullt af þeim! Elías, jú stemmir, þær eru splunkunýjar. Ég settist auðvitað niður í gær og las allt um hunangsflugur. Og þær hafa reyndar sínar drottningar líka. Vísindavefurinn er með fína lesningu: http://visindavefur.hi.is/svar.asp?id=4768& http://visindavefur.hi.is/svar.asp?id=4369& Og Wikipedia klikkar aldrei: http://en.wikipedia.org/wiki/Bombus

Gestur

Hugi, þér er eitthvað að förlast. Þú ert hættur að fara yfir hundrað.

hildigunnur

það er nú ekki útséð með það ennþá. en mig langar í svona laukskera.

Hugi

Já, Gestur, ég braut fynd-beinið í sundinu í gær. Framvegis verður aðeins skrifað um búðarferðir og mismunandi aðferðir við að bora í nefið á þessum vef. Hildigunnur, skerinn fær mín bestu meðmæli.

Kalli

Verða myndi með nefboruninni?

Kalli

Myndir! Ekki myndi.

Nei, nei, ekki misskilja. Þú ert bráðfyndinn sem fyrr. Mér datt bara ekkert annað í hug.

Hugi

Kalli, ég var að spá í að hafa svona leiðbeiningar með númeruðum myndum til að skjala aðferðirnar. Það er t.d. erfitt að lýsa tækni eins og "Króknum" án mynda. Gestur, takk en þetta er heilagur sannleikur, fyndbeinið brotnaði og það á eftir að taka mánuð að gróa. Því til sönnunar skal ég skrifa eina færslu í kvöld. Þá leiðinlegustu í heiminum.

Elías

Ég skil samt ekki að það sé til fólk sem kannast ekki við laukskera, þetta er sennilega fyrsta eldhúsáhald sem ég man eftir, minningar mínar um það eru sennilega frá því um 1966.

buy viagra

gi309g7-2k29u8i-tw5yq9aa-0 <a href="http://www.jaunted.com/files/5108/#2">phentermine </a> http://www.kicktime.org/uploads/80/buy_cheap_phentermine.html#1 [url=http://www.kicktime.org/uploads/79/cheap_phentermine.html#3]cheap phentermine [/url] [url]http://www.kicktime.org/uploads/79/phentermine_diet_pill.html#4[/url]

Tjáskiptaðu þínu eigin tjáskipti í tjáskiptin