Ber

27. ágúst 2006

Ég fékk ánægjulegt símtal frá Daníel og Elínu í síðustu viku. Þau kváðust vera með rifsrunna sem svignuðu undan berjum og vantaði aðstoð við að losna við þau, enda garðurinn þá farinn að fyllast af Garðbæingum (Garðbæingar eru afar sólgnir í rifsber. Sérstaklega gaman að fylgjast með þeim á haustin þegar berin eru farin að gerjast, þá verða þeir oft mjög ölvaðir af berjaáti og ráfa röflandi um miðbæinn, gangandi á hurðir og glugga).

Ég stökk að sjálfsögðu af stað í berjatínslu. Ég elska ber og tíni alls ber. Stundum er ég meira að segja ber. Og Daníel og Elín fengu meira en þau sömdu um, því litla fjölskyldan á efri hæðinni kom með í tínsluna og við líktumst helst biblíulegum engisprettufaraldri þar sem við tíndum af ásetningi hvert einasta ber sem við sáum og skildum eftir okkur sviðna jörð. Eða jæja, kannski ekki, við skildum eftir nóg handa heimilisfólkinu í eina sultukrukku - eða sultubaðkar - magnið af berjum í þessum garði var óhugnanlegt.

Svona er ég, réttu mér litla fingur og ég tek öll rifsberin þín.

Heimilisfólkið bauð okkur nú samt upp á kaffi og kökur á eftir. Þau eru höfðingjar heim að sækja.

Og nú er komið að því að gera rifsberjahlaup á þessu heimili. Eða er einhver með betri hugmyndir um hvernig má nýta svona falleg ber? (sjá mynd)


Tjáskipti

SSkoppur

Það fer ekki á milli mála að rifsber eru fyrirtaks fóður fyrir túttubyssur.

Lilja

Hvar er þessi garður? Heppinn ertu, rifs er ekki á hverju strái. Eða grein.

Geztur

Tja... viltu ekki þukla aðeins á þeim?

Hugi

Já koppur, á ég að geyma nokkur ber í túttubyssuna handa þér? Svo þú getir strítt vinnufélögunum þegar þið eruð að vinna mðe sýru og svona? :-) Lilja, ég veit ekki hvort ég á að þora að láta uppi um staðsetningu aldingarðsins. Er þér fyllilega treystandi? Já heyrðu Geztur, þú meinar það :-). Spurning hvort ég get skrifað handrit og komið mér upp svipaðri ímynd og Robert Redford - ekki hestahvíslarinn, heldur berjaþuklarinn?

Inga Hanna

mig minnir að ég hafi einhverntímann fengið rosalega gott rifsberjahlaup með chilli... getur passað að þú hafir búið það til?

Hugi

Inga Hanna, ég hef vissulega búið til chili-hlaup en ber koma þar hvergi við sögu. Bara chili-pipar og vínedik. Áhugaverð hugmynd samt, hmmm. En segðu mér, hver ert þú? :-) Hefur þú komið í mat til mín? Úff, þetta lítur illa út fyrir mig, ég sver að ég reyni almennt að leggja á minnið nöfn á stelpum sem ég býð í mat.

Inga Hanna

já var það þannig... þú getur andað rólega því þú hefur ekki boðið mér í mat. fékk hlaupið hjá jónu og sigga einusinni :)

Hugi

Ah, svoleiðis, þannig að við erum bara hlaup-tengd. Það var ágætt, sjálfsmyndin fór alveg í mola hjá mér á tímabili þarna áðan :).

Inga Hanna

sleppur nú ekki svona auðveldlega... man ekki betur en að þú hafir verið á staðnum með hlaupið ;)

Hugi

Fjandi ertu erfið við mig. En þú nærð mér ekki í þetta skiptið, ég man nefnilega eftir þér núna :-). Ég er með fattara, þótt það sé gamalt kolahitað módel og þurfi stundum að sparka honum í gang.

Lilja

Já, mér er fyllilega treystandi. Það er búið að berja mig til andlegrar hlýðni og er gerandinn allsendis ókunnugur maður á Hagamelnum. Ég vil meina að þetta séu hryðjuverk, en hef enn ekki fengið viðbrögð frá ráðuneytum landsins.

Tjáskiptaðu þínu eigin tjáskipti í tjáskiptin