Vitar feðranna

2. janúar 2007

Eins og lög gera ráð fyrir þá datt ég í lestur yfir jólin. Ekki illa þó, skrámaðist aðeins á andliti og hruflaði annað hnéð en slapp annars vel.

En já, skemmtilegast fannst mér að detta í bók með þjóðsögum úr Mjóafirði, enda móðurættin mjófirsk - vitaverðir að Dalatanga í einhverjar kynslóðir. Ég fann nokkrar góðar sögur af fjölskyldunni og sannfærðist eftir eina þeirra um að þær væru allar heilagur sannleikur. Tilvitnun:

"Sveinn sagði að það væri segin saga að ef eitthvað þarfnaðist aðgæslu í vitanum meðan þeir svæfu, að Helgi afi, þá löngu látinn, ýtti við niðjum sínum með afgerandi hætti".

Téður Helgi er langalangafi minn. Og hvernig veit ég að þetta er satt? Jú, ég bara get ekki ímyndað mér neitt meira í stíl við mína góðu móðurætt en að teygja sig út fyrir gröf og dauða til að úthluta afkomendunum verkefni.

Mér líkaði strax vel við þennan forföður minn þegar ég las þetta og ætla að fylgja hans fordæmi þegar ég dey. Vekja barnabörnin um miðjar nætur með athugasemdum eins og "Búúúú, ertu búinn að borga rafmagnsreikninginn?" (hristir keðjurnar) "...og settirðu þvottinn í þurrkarann?" (ælir útfrymi yfir rúmið)

Ég verð semsagt svona óþolandi leiðinlegur illa lyktandi dauður afi. Það verður örugglega vinsælt.


Tjáskipti

Miss G

Líklega er þetta frumlegasta áramótaheit sem ég hef lesið. Og keðjur og útfrymi? Það verður þá ekkert "drag" á næsta balli, er það?

hildigunnur

Styð þetta heilshugar. Ungdómurinn verður náttúrlega vonlaus eftir öll þessi ár, ekki satt?

Þór

Ég efast ekki um að þú eigir eftir að skapa þér vinsældir. Dauðir en spriklandi forfeður eru alltaf vinsæl gjafavara. Í minni ætt passa dauðir áar upp á afkomendur sína. Forða þeim frá því að bætast í hópinn of snemma og svoleiðis stöff. Mjög spennandi. Sérstaklega þegar við systkynin eigum í hlut :-p Því efa ég ekki að það verði haldin um það keppni - nay, happdrætti, um það hvaða stöðu þú færð eftir andlátið. Hvaða niðja þú færð að hafa ánægju af að kvelja með frumlegum aðferðum eftirlífsins. Spurning um hvort þér takist ekki að kenna gamlingjunum eitt og annað, verandi væntanlega með fyrstu nördadraugunum í ættinni ? Ég sé fyrir mér alveg nýja kynslóð af alveg hroðalega nördalegum ofsóknum að handan... Hmm... atli það verði þá hægt að særa Huga niður með LyklaPétri ?

Barbie

Góð hugmynd. Allavega betri en að birtast á miðilsfundi og tala um týnda lykla... En gleðilegt ár minn kæri.

Stefán Arason

Hmmm...bíddu, þarftu þá ekki að fara að drulla þér að ná þér í kjéllingartuðru ef þú ætlar að verða illa lyktandi lifandi afi einhvern tímann?

DonPedro

Útfrymi er besta orð sem ég hef rekist á á þessu ári.

Jón Knútur

Drengur, þetta var viðurstyggilega fyndið.

Hugi

Afsakið gott fólk, var offline í smá tíma. Miss G., hversvegna ætti ég að hætta að fara í drag? Hef heyrt að keðjur séu mjög "in" á sumum stöðum í Reykjavík núna, og útfrymi er rosalega gott fyrir húðina. Gefur raka og hreinsar burt dauða húð. Hildigunnur, jújú, miðað við þróun ungdómsins, þá verður ástandið á barnabörnunum okkar skelfilegt. Hvernig ætli börnin verði ef maður bara geymir þau inni í skáp til að verja þau fyrir umheiminum? Þór, hvað segirðu, er eitthvað draugapakk að passa uppá ykkur systkinin? Gleðilegt ár ungfrú Barbie! Úff, ég ætla sko ekki að tala um lykla. Ég ætla að birtast á miðilsfundum og koma með krassandi sögur úr kynlífi viðstaddra, segja frá útlitinu á gyllinæðinni á þeim og þess háttar. Þessir miðilsfundur verða haldnir fyrir MIG, ekki fyrir þetta afkomendapakk.

Hugi

Ha, Stebbi, að ég þurfi að ná í konu til að eignast börn? Nei, nú ertu eitthvað að misskilja, þú hefur greinilega ekki fylgst með samfélagsþróun á Íslandi. Í dag virkar þetta svona. 1) Karldýrið dettur alveg rosalega í það, fer í bæinn og man ekkert þegar það vaknar daginn eftir. 2) Nokkrum vikum síðar kemur símtal frá kvendýri sem karldýrið hefur aldrei heyrt um. En þau eru að fara að verða foreldrar saman. 3) Nokkrum mánuðum síðar fer karldýrið á spítalann með blóm og er opinberlega orðið "pabbi". Eftir þetta þarf karldýrið aðeins að greiða nokkra þúsundkalla til Tryggingastofnunar reglulega og hugsanlega fara í Húsdýragarðinn aðra hverja helgi í nokkur ár ef það er "góður pabbi". Svona er Ísland í dag.

Miss G

Ég sé að polyurethan og útfrymi eru fylgihlutir ársins 2007.

Hugi

Rétt, rétt. Pólýúretanútfrymi - fyrir nútímadrauginn.

Miss G

;;) PS. Þetta er draugur, sem er fínn um augun.

Tjáskiptaðu þínu eigin tjáskipti í tjáskiptin