Strætó í Mðvoþðsfþðsellvbæ

15. mars 2011

Ég vaknaði í morgun með stokkbólgna tungu, líklega einhver bráðsmitandi sjúkdómur á ferðinni eins og málæði eða sveitunga. Lét það ekki á mig fá og dreif mig í vinnuna.

Þegar ég kom út í strætóskýli stóð þar maður sem ég hafði ekki séð í strætó áður; "sætukoppur" eins og við köllum hann í bransanum. (Eða var það grænjaxl…)

Sætukoppurinn bauð góðan daginn og spurði "fyrirgefðu, gengur þessi vagn upp í Mosfellsbæ?". Ég svaraði honum á tungubólgnu þvoglumæli "Já, hann gengur Vesturlandsveginn og svo upp að Reykjalundi". Maðurinn kinkaði hægt kolli og muldraði "uuu, takk".

Þegar vagninn nálgaðist sagði maðurinn "jæja, þarna kemur hann". Ég svaraði "já, ánægjulegt þegar þeir ganga tímanlega á svona köldum morgnum". Maðurinn horfði á mig stórum augum og svaraði óstyrkur "haha, já rétt hjá þér, strætisvagnar ganga oft á réttum tíma".

Þegar við stigum inn í vagninn spurði maðurinn bílstjórann "fyrirgefðu, gengur þessi vagn upp í Mosfellsbæ?".

Ég fór og faldi mig aftast í vagninum. Því það er einhvernveginn aldrei réttur tími til að útskýra fyrir ókunnugu fólki "fyrirgefðu, ég kann alveg að tala, ég er bara með alveg rosalegt kýli á tungunni - hérna - sjáðu!".


Tjáskipti

hildigunnur

tíhí... og gaman að sjá líf!

Hugi

Sömuleiðis, gaman að sjá að enn flækist einhver hingað inn :).

inga hanna

hahaha - góður!

Frú Sigurbjörg

Þú ert fyndinn og ættir að blogga miklu oftar! (við leiðum bara hjá okkur þvoglumæltið)

baun

Líf! Frábært. Rétt að ota sínum tota hér, ég er farin á gamla staðinn aftur. Það er afturför, en samt frelsandi framför. Fordómar gagnvart fólki blæstu á máli eru alþekktir í mínum bransa og kann ég nokkur kung fu brögð til að mæta slíku, í strætó sem annars staðar.

Tjáskiptaðu þínu eigin tjáskipti í tjáskiptin