Kringlan, 1. kafli: Fordyri Vítis

5. janúar 2006

Líkt og allir hlýðnir Íslendingar brá ég mér í Kringluna fyrir jólin. Ég hafði raunar lofað sjálfum mér hátíðlega að ég skyldi ekki svo mikið sem horfa í áttina þangað yfir hátíðarnar enda álíka gáfulegt fyrir kaupglaðan Íslending (mig) að fara í Kringluna 22. desember eins og fyrir lítið sætt fjallalamb að kíkja í sláturhús um sláturtíð. En um jólin breytist Reykjavík í svona Símaauglýsingu þar sem allir ganga hugsunarlaust í átt að sama stað og það er ekki séns að reyna að synda á móti straumnum, nema kannski að maður reyni að fleygja sér áfram á móti fólksmergðinni eins og lax, en það er líklega heldur meira vesen en svo að það sé þess virði. Ég hef nú smá sjálfsvirðingu.

Það gekk óvenju vel að finna bílastæði, eftir aðeins þrjú kortér sá ég stæði sem var litlu smærra en bíllinn minn. Ég gaf allt í botn og keyrði yfir gamlan mann, en það var í góðu lagi, því hann var mjög gamall og fremur veikindalegur - og ég náði stæðinu. Smurði bara smá vaselíni á hliðar bílsins til að geta rennt honum alveg inn og fór svo út um skottið. Það er alltaf krukka af vaselíni í hanskahólfinu hjá mér, merkt "Kringlan".
Þegar ég var kominn út úr bílnum hristi gömul kona hnefann að mér fyrir að stela stæðinu sem hún hafði sjálf haft augastað á, en ég hló að henni og rispaði bílinn hennar með húslyklinum. Þannig að allt reddaðist þetta nú. Óvenju róleg og góð byrjun á kringluferð.

Ferðin um innviði Kringlunnar hófst með hefðbundnum hætti, stiginu sem ég kalla "Flóttinn frá Hjálpræðishernum". Ég fæ alltaf ótrúlegan áhuga á gólfinu þegar ég kem inn um dyrnar á Kringlunni og storma framhjá gömlum, augljóslega hjálpræðisþurfandi hershöfðingja eða korporáli eða hvað þetta ágæta krists fólks kallast. Ég hef samt lítið samviskubit yfir að gefa ekkert, er ekki hrifinn af herjum og við Guð erum með þegjandi samkomulag - ég læt hann í friði og hann lætur mig í friði.

Auk þess sem enginn veit hvað átt hefur fyrr en misst hefur - sem þýðir að ef ég gef hjálpræðishernum 500 kall, þá er ég búinn að missa 500 kall sem ég vissi að ég átti, það þýðir ákveðna sálarþjáningu fyrir mig. En litla barnið í Afríku þarf sem betur fer aldrei að upplifa þann sársakuka að láta 500 kallinn af hendi fyrir appelsínusteina eða eitraða möl, eða hvað það er sem lítil afrísk börn borða, vegna þess að ég gef ekki 500 kallinn. Þannig er ég í raun að framkvæma góðverk með því að gefa ekkert. Kem snarlega í veg fyrir sára þjáningu tveggja persóna.

Mikið er ég góður.

En já þetta átti að vera stutt saga um ferð í Hagkaup, hún verður að koma síðar. Er ekki pennaleti frábær...


Tjáskipti

Tjáskiptaðu þínu eigin tjáskipti í tjáskiptin