Mannlífsmissir

7. júní 2006

Þegar ég renndi í hlað heima eftir erfiðan vinnudag í dag var ég fullkomlega tilbúinn í að slappa algjörlega af yfir nýjasta tölublaðinu af Mannlífi. Það var með viðtali við Bubba og allt, svo ég var mjög spenntur.

Mér tókst að leggja bílnum án þess að valda teljandi skaða, en þegar ég var kominn út úr honum og á leiðinni að útidyrunum rann ég í ælu á bílastæðinu, flaug á hausinn og missti Mannlífið mitt. Svo kom hundur á harðahlaupum og át það.

Mér sárnaði þetta umtalsvert, svo ég gekk rólega að gráum Passat í næsta stæði og lamdi enninu ellefu sinnum í húddið á honum svo að það beyglaðist í gegnum vélina og niður í götu (ég er með mjög hart enni). Ég man hversu oft ég notaði ennið því ég lamdi nákvæmlega einu sinni fyrir hvert orð sem ég hrópaði í setningunni "Það-Var-Viðtal-Við-Bubba-Í-Þessu-Blaði-Hund-Heitasta-Helvíti".

Af einhverri ástæðu var Frú Vigdís ekki við njósnastöðina sína í þetta skipti - og ég var ennþá með "Fyrirgefðu" miðann frá í gær í vasanum, svo ég festi hann undir rúðuþurrkuna á bílnum. Eftir svolitla umhugsun bætti ég símanúmeri hjá góðu réttingaverkstæði á miðann. Ef allir væru nú jafn góðir borgarar og ég, maður minn, þetta væri betri heimur.

En jæja, ég rölti upp og inn í íbúð til mín, fremur dapur yfir Mannlífsmissinum, og ætlaði að laga mér te til að hressa mig við. En strax og ég kom inn úr dyrunum var bankað á svaladyrnar hjá mér. Þar sem ég bý á annarri hæð - og hef séð hversu stórar býflugurnar eru í ár - taldi ég mig ekki eiga von á góðu og sótti flugnaspaða og líkpoka inn í skáp.

En þegar ég rykkti upp hurðinni með flugnaspaðann á lofti reyndist þar ekki vera óvenju kurteis býfluga, heldur Larry King með axlaböndum og öllu. Það kom óneitanlega örlítið á mig, þar sem ég vissi ekki að Larry King væri á Íslandi - hvað þá að hann gæti flogið. En eins og gestrisnum Íslendingi sæmir opnaði ég dyrnar upp á gátt og sagði "Hello Mr. King. How do you like Iceland?". Stutt þögn fylgdi. En svo stamaði Larry "Uuh, it's... excellent. Thank you. Yeah, it's fine. But tell me sir, what do you think of the body?".

Ég varð fremur hissa á þessari beinskeyttu spurningu, en líka svolítið upp með mér, og svaraði "Well thank, you, I'm very happy with it" og til að sanna mál mitt fór ég úr að ofan, tyllti mér á annað hnéð og hnyklaði upphandleggsvöðvana.

Ég leit á Larry, kinkaði kolli og sagði "How do you like those puppies?". Larry var mjög fölur og muldraði í sífellu "Good God" sem ég tók auðvitað sem hrósi. Eftir nokkur hnykl lokaði hann augunum, studdi við gagnaugun á sér með fingrunum og sagði "Sir, please, oh please, put your clothes back on. Oh God, Jesus, I feel sick.". Ég fór aftur í skyrtuna mína, sármóðgaður. Ég meina, það var hann sem spurði.

Þegar Larry var búin að anda í poka í smá tíma sagði hann "Sir, I'm talking about the body they found in your back yard. Surely you must know - the remains of Jimmy Hoffa".

Og það var þá sem ég tók eftir því að garðurinn fyrir utan blokkina var alveg morandi af fólki og fjölmiðlum - sumir fjölmiðlanna hangandi í sigbeltum úr risastórum krönum - einn kraninn hékk meira að segja á svölunum hjá Önnu beint fyrir ofan mig. Þetta var sem sagt ekki bara Innlit-Útlit sem var hérna í gær eins og ég hélt. Flestir á staðnum voru í svörtum stökkum merktum FBI og CIA, aðrir í einkennisbúningum íslensku lögreglunnar - og einn var nakinn. Það reyndist vera Frú Vigdís sem hljóp flissandi í hringi með tvo lafmóða lögregluþjóna á eftir sér.

Jimmy Hoffa er semsagt grafinn hérna í garðinum. Þetta eru svo stórar fréttir að ég bara verð að gera eitthvað í málinu. Grípa til aðgerða. Framkvæma hluti. Ég ætla að leggja mig aðeins.


Tjáskipti

Carlo

Spring into action, Hugi! Annars misstirðu illa niður kúlið þegar þú talaðir um bæsepana sem puppies. Menn eins og við eiga að vita að maður kallar þá hólka. „How do you like those guns?“

Hugi

Heyrðu, ættir þú ekki að vera farin að sofa? :) En litlu sætu þykkildin mín eru sannarlega hvolpar en ekki hólkar. Þeir eru mjúkir og loðnir blessaðir - ef þú ert góður við þá og klappar þeim. En ef þú kemur illa fram við þá er voðinn vís, því þeir geta líka bitið. Grrr. Hvað missti ég mörg kúlstig í þessari síðustu málsgrein, svona gróft áætlað?

Carlo

Ætti að vera löngu farinn að sofa og bæti úr því hér með. Held að þú ættir að gera það sama áður en þú ferð fram úr Framsóknarflokknum á kúlstigakvarðanum ;)

Stefán Arason

þetta er orðið æsispennandi. Verður maður svona ruglaður þegar með sefur ekki á nóttunni?

Snorri Halldórsson

Djöfulsins rugl er þetta.. en þetta er engu að síður snylld! ég veit eiginlega ekki hvort ég ætti að lesa lengra... kv snorri

Tjáskiptaðu þínu eigin tjáskipti í tjáskiptin