Sven

18. desember 2006

Sat og las í rólegheitum í dag þegar ég heyrði þessi líka ógurlegu skelfingaröskur og brambolt frammi á gangi. Ég rauk á fætur og stökk fram til að rannsaka málið og það var eins og mig grunaði - þarna stóð Gunna af þriðju hæðinni, andsetin eins og venjulega, að hræða nýju nágrannana.

Ég andvarpaði þreytulega.

Gunna á þriðju hæðinni er smávaxin, vingjarnleg eldri kona sem lifir af því að baka og selja kleinur. En manneskjan hefur ekki nokkurn vott af mótstöðuafli gegn myrkraöflunum og verður því reglulega andsetin, af einhverri ástæðu alltaf af sænskum púka sem heitir "Sven". Þegar þetta gerist hleypur hún venjulega nakin fram á gang þar sem hún snýr hausnum í hringi, ropar og prumpar, ælir grænni drullu, sem er vonlaust að þrífa og blettar alveg skelfilega, og öskrar ósmekklega hluti á allt og alla á reiprennandi sænsku. Afar hvimleitt.

Ég veifaði glaðlega til skelfingu lostsins fólksins sem Sven var að rugla í og rölti inn í herbergi til að sækja særingabúnaðinn minn. "Kufl" (gamall borðdúkur), kross, flösku af appelsíni sem ég er búinn að skrifa "helig vatten" á og þykka bók með smákökuuppskriftum. Ég á ekki biblíu, en Sven talar ekki íslensku þannig að það skiptir engu máli hvað ég þyl yfir honum svo lengi sem ég geri það af sannfæringu.

Svo gekk ég aftur fram á gang og kallaði "SVEN! NU SKAL ANDEBESVÄRJAS!". Gunna/Sven sneri hausnum hægt við, leit á mig pírðum rauðum augum og sagði rámur "Du... Min ärkefiende". Ég sver það, stundum vildi ég óska þess að hann talaði Latínu eða Aramaísku eða afturábak - allt annað en þetta. Það er bara vandræðalegt að vera illur andi og tala sænsku. Púkó að vera sænskur púki.

Sven ældi á mig. Ótrúlega hittinn með þessa útfrymisleðju sína, hann stóð í a.m.k. þriggja metra fjarlægð en hitti samt beint á nýju skóna mína (óþolandi, því þeir eru úr rússkinni og ég veit að ég næ blettunum aldrei úr - húsfélagið fær sko að punga út fyrir nýjum skóm). Ég bölvaði í lágum hljóðum og stökk svo á hann, settist á bringuna á honum, þrýsti krossinum á ennið á honum svo rauk úr, hellti yfir hann vígðu appelsíni og þuldi uppskrift að "Valhnetudraumum" úr bókinni. Sven hvæsti og öskraði "bork bork bork" en eftir skamma stund yfirgaf hann líkama Gunnu og fór aftur til Vítis - eða Svíþjóðar, veit ekki hvort.

Gunna stóð upp, hóstaði vandræðalega og þurrkaði væna slummu af grænu útfrymi af hökunni á sér. Svo bölvaði hún svíanum glaðlega og bauð mér og nýju grönnunum (sem voru ennþá frosnir af skelfingu) í kaffi og kleinur. Við sátum hjá henni og kjöftuðum og hlógum í tæpa tvo tíma. Gunna er fín þegar hún er ekki andsetin.

En ég nenni þessu varla lengur - ég meina, þetta er í þriðja skiptið í þessum mánuði sem þetta gerist og það fylgir þessu vesen, óþrifnaður og hávaði. Svo ekki sé minnst á áhrifin sem þetta hefur á fasteignaverðið. Við tókum þetta fyrir á síðasta aðalfundi húsfélagsins, og þá var bætt inn í húsreglurnar klausunni "íbúar skulu vera andsetnir í eigin íbúðum, ekki í sameign" en sú regla er einfaldlega ekki virt. Ég ætla að hringja í sænska sendiráðið á morgun og athuga hvort þeir geta gert eitthvað í málinu, svona púkar hljóta að þurfa bæði atvinnu- og dvalarleyfi.


Tjáskipti

Daníel

Úff já það er óþolandi þegar þetta gerist. Heyrðu já svo ertu að verða of seinn í afganga. Og þá bæði í merkingunni "of seinn í dag" enda komið miðnætti, og í merkingunni "of seinn áður en þeir klárast" en það er reyndar lengra í það.

Stefán Arason

Þú ert brenglaður...yndislega brenglaður!

Barbie

Sænskir púkar eru svo púkalegir. Finnst þetta æði. Svona örgonomískir sennilega... Þú ert dásemd. Knús á Gunnu.

baun

prufaðu að vera góður við Sven, segðu að þú elskir hann, getir ekki án hans verið, kysstu hann og klíptu og úðaðu svo í þig græna útfryminu...

Hugi

Suss Baun, það er bara ekki hægt að vera góður við Sven. Ég held að hann hafi ekki notið mikilliar væntumþykju í æsku, virðist forðast snertingu. Takk sömuleiðis Stebbi minn :). Daníel, það er óvíst að ég nái í afgangana :-(. En ég bæti það upp með því að bjóða ykkur í mat við tækifæri.

baun

I rest my case. hann mun flýja eins og fætur toga ef þú sýnir honum ást og umhyggju. sé alveg í gegnum svona kóna.

Þór

Hugi: Trikkið er einfaldlega að bjóða honum í IKEA í sænskar kjötbollur. Hafðu með þér næga skiptimynt því þessir "svísku árar" éta alveg djöfullega mikið (literally speaking). Og hvað sem þú gerir, ekki hleypa honum nálægt speglum. Þá springur hann í þúsund slettur sem allar verða að Sven.

Mjása

Svefn. Ég mæli með að þú prófir.

Tjáskiptaðu þínu eigin tjáskipti í tjáskiptin