Ég sat í eldhúsinu hjá bauninni í fyrrakvöld og horfði á hana hnoða deig í piparkökur. Við kjaftagang okkar kviknaði hugmynd - mögnuð hugmynd, snargalin hugmynd, algjörlega fortakslaus firra og jafnvel guðleysi. Við fórum að ræða bakstur á óhefðbundnum piparkökum með hinum skringilegustu innihaldsefnum.
Ég hrinti þessu í framkvæmd í gær og hér fyrir neðan má sjá fyrstu tilraunakökuna. Þetta gæti við fyrstu sýn virst vera hefðbundin piparkaka með skelfilegan smitsjúkdóm - en hún inniheldur stóra bita af ferskum engifer, ferskan kóríander, kúmín, fersk chili-aldin, cayenne-pipar og ýmislegt fleira. Kýlið í deiginu er perubiti sem var pakkað inn í kökuna fyrir baksturinn.
Það er kraftur í þessum kökum og þær bragðast bara hreint ekki jafn hræðilega og ég átti von á. Ég ætla að baka úr restinni af deginu á morgun - og hugmyndir óskast að fleiri viðbótum við uppskriftina.
beikon og marsipan?
Lifrarpylsa og rófubiti fyrir íslenskar lýðveldispiparkökur.
er ykkur viðbjargandi??
Hmmm, jájá, þetta er allt að fæðast. <b>Lýðveldispiparkökur:</b> - 500g Hveiti - 2 kíló Síróp - 300g Ferskur Engifer - Marsipan á hnífsoddi - Beikon - Súr lifrarpylsa - Rófur - Þorskalýsi (til steikingar) Blandið saman hveiti, sírópi, marsipani og engifer og mótið kökur úr blöndunni. Maukið beikonið, rófurnar og lifrarpylsuna í matvinnsluvél og skreytið kökurnar með blöndunni. Steikið kökurnar uppúr lýsinu þar til þær eru fallega gráar og sæt mysulyktin fyllir íbúðina. Gott er að njóta Lýðveldispiparkaka með glasi af hálfsætu hreinsuðu bensíni eða góðri díselolíu. Inga Hanna: Nei :-).
Æjá, ég gleymdi að nefna að það má nota negulnagla í staðinn fyrir engiferinn, ef þú sért með góðar tennur.
Mmmmmm Ég varð öll einhvern veginn þjóðlegri við lesturinn. Svo er það bara kjammi, kokkteilsósa og kók í forrétt.
Namm! Ég þarf að leggja það í nefnd að breyta jólamatarsiðunum heima í ár. Þetta er svo miiiiklu meira spennandi en aligæs. Væntanleg á hillurnar í Eymundsson: "Fusion cooking meets the Þorrablót".
Já, aligæs er so last meal. Fusion Meets Thorri Feast er nýi stíllinn. Jamie Oliver má fara að vara sig. Þetta gæti verið frábært sjónvarpsefni. Og þú refsandi flyglinum á milli rétta. Augnaráðið sem þú notar fyrir myndavélina sést í annarri færslu hér á undan. It´s a wrap.
úff, ekki hljómar þetta nú vel. Ferskur engifer OG kóríander... En hafið þið fengið franskar og kokkteilsósu á hlaðborði?
Ha, Hildigunnur - notarðu ekki kóríander og engifer saman? Ég hef auðvitað stórgallaðan smekk en mér finnst þetta tvennt eiga svo vel saman (ef maður fer varlega með kóríanderinn). En franskar og kokkteil á hlaðborði... Hmmm, nei það held ég ekki. Hljómr ljúffengt - er hlaðborð á búllunni í ár? :) Miss G. ekki spurning - við ráðumst í þetta project :).
sko, ég get hvorugt borðað, hvorki sundur né saman. Engiferinn er reyndar að laumast aftur inn, eftir ofát á honum á minni fyrstu meðgöngu, þoli hann í takmörkuðu magni og ef hann er ekki ráðandi bragð. Kóríander hins vegar, er skylt lífrænu arseniki (minnir mig, frekar en einhverju öðru Agöthu Christie eitri), án þess þó að vera eitrað sjálft; sumir finna málmbragð að því, þ.á.m. ég og þykir viðbjóður. Genetískt. Hvað er annars með að kommentakerfið geymi ekki fyrir mann upplýsingar? Leiðinlegt að þurfa alltaf að slá allt draslið inn...
Samhryggist með kryddin, engifer, kúmín og kóríander skipa þrjú toppsætin yfir uppáhalds krydd hjá mér þessa dagana. Heyrði annars einmitt af þessu með kóríanderinn og arsenikkið um daginn. Skilst að sumt fólk sem er með genin þín þoli jafnvel ekki kóríander í míkróskópósku magni, frekar en við hin getum drukkið terpentínu. Já, heyrðu - ég þarf að laga þetta með kerfið, var að frétta af þessu annarsstaðar frá. Biðst hérmeð yderste forláts.
Kúmin er æði og líka þurrkaður kóríander (enda af allt öðrum hluta plöntunnar). Þetta gildir bara um blöðin, sem betur fer. Eeeeendilega laga...
Tjáskiptaðu þínu eigin tjáskipti í tjáskiptin