Ummæli ársins

22. febrúar 2007

Ég var á leiðinni heim úr skólanum áðan þegar ég heyrði í útvarpinu einhver þau torkennilegustu ummæli sem ég hef á ævinni heyrt. Þau komu af vörum Jóns Gerald Sullenberger (af öllum mönnum) og það sem hann sagði var:

"Ef Jón Ásgeir væri Gosi, þá væri nefið á honum orðið svo langt að það mundi leysa samgönguvanda Vestmannaeyja".

Og svo kom bara... Ekkert meira. Búið. Næsta frétt.

Ég varð afar hugsi. Heilinn í mér hnýtti sjálfan sig í rembihnút. Ég vissi varla hver ég var eða hvert ég var að fara og leið eins og zen-búddamunk, nýbúnum að fá sína fyrstu þraut - langaði helst að setjast að í helli og íhuga þessa djúpu pælingu í nokkra áratugi. Jón Ásgeir. Gosi. Samgöngur. Vestmannaeyjar. Ég var nokkuð viss um að mér hafði ekki misheyrst.

Gefum okkur eitt andartak að Jón Ásgeir sé raunverulega leikfang úr tré, gætt galdrakröftum sem lengir á því nefið við lygar. Persónulega finnst mér hugmyndin fremur fjarstæðukennd en þetta er bara "for the sake of argument". Ég trúi þessu ekki í alvörunni.

Einmitt. Ef Jón Ásgeir væri úr tré, sem hann er að líkindum ekki, nákvæmlega hvernig mundi nefið á honum leysa samgönguvanda Vestmanneyinga? Ætti maðurinn bara að gleypa fólk og farartæki og snýta svo öllu yfir flóann?

Eða breikkaði nefið á Gosa líka þegar hann laug? Ef svo var mætti kannski (með smá malbiki og nokkrum ljósastaurum) nota nefið á tré-Jóni undir almennar samgöngur? (það væri að vísu hentugt þar sem nefið mundi uppfylla öryggiskröfur Evrópusambandsins um tvöföld göng. Þótt það yrði kannski hált og hvasst yfir flensutímabilið - og hugsanlega einhver snjóslydda þegar hann fer í partý).

Ég veit í alvörunni ekki hvert Jón Gerald var að fara með þessu en þetta er tvímælalaust setning ársins í kvöldfréttunum. Það ættu að vera verðlaun fyrir svona snilld. Ég ætla að segja einhverja svona tóma þvælu næst þegar ég lendi í fréttaviðtali. Bara eitthvað. "Ef Guðni Ágústsson væri Mjallhvít, þá þyrftu bændur nú ekki að hafa áhyggjur af vörugjöldunum" eða "Ef Gunnar I. Birgisson væri rauð Honda Civic þyrfti Skógræktarfélag Reykjavíkur ekki að vera með þetta vesen útaf Heiðmörk". Svo ætla ég að sitja á kvöldin og hlæja yfir þeim sem sitja og brjóta heilann um hvað í fjandanum ég var að meina.


Tjáskipti

inga hanna

góður! það yrði allavega ódýrt farið milli lands og eyja :)

Daníel

Ef Davíð Oddsson væri hagamús væri búið að leysa öll vandamál út af offramleiðslu í landbúnaði.

baun

merkilegt. ef ég væri ígulker væri minna pláss í sjónum.

Barbie

Og ef ég væri maður þá væri ég lítill, snaggaralegur besservisser. Það er ósmart.

Elín

já þetta er gaman.. Ef ég væri svampur þá væri ég hlutdræg.

Kalli

Ætlar Hugi að verða næsti Chance Gardener? Nema bara meðvitaður :)

baun

á vorin..koma laukarnir upp.

Sveinbjörn

Ef Hugi væri moldvarpa, þá þyrfti ekki að eyða milljörðum í að gera jarðgöng úti á landi.

Kalli

Hugi yrði mjög háfleyg moldvarpa.

Mjása

Ef Golíat hefði ekki verið til væri Davíð bara vitleysingur sem kastar steinvölum.

Þór

Umm... en Davíð ER viteysingur sem bara kastar steinvölum. Og það innan úr glerhúsi. Hefurðu ekkert verið að fylgjast með fréttum undanfarið ? :-)

Mjása

So true :)

Ástaraldin

Ef Geir H. Haarde væri Ron Jeremy þá væri viðskiptahallinn allur að rétta úr sér

Þór

ROTFL :-D

Hugi

Þið eruð alveg ágæt :-).

Tjáskiptaðu þínu eigin tjáskipti í tjáskiptin