Zappa

10. júní 2006

Ég fór á tónleikana "Zappa plays Zappa í gær". Seiðmagnaðir tónleikar svo ekki sé meira sagt. Tónlistin ótrúleg og spilararnir ískyggilegir. Maður bara veit að maður er á góðum tónleikum þegar karlkyns trompetleikari byrjar að flengja kvenkyns saxófónleikara í miðju gröðu fönklagi.

Tónleikagestir voru fyrst og fremst virðulegir miðaldra karlmenn sem höfðu greinilega margir farið upp á háaloft og dregið gömlu rokkgallana upp úr mölkúluhrúgum fyrir kvöldið. Á leiðinni að sætinu mínu taldi ég fjórar kvenkyns lífverur innan um karlamergðina - og þá er ég að telja stelpuna sem tók við miðanum mínum með.

Þegar ég kom að sætinu mínu reyndist vera fjall í næsta sæti. Ég settist við hliðina á því og þurfti að setja 90° skekkju á hrygginn til að komast fyrir. Mér brá svolítið þegar fjallið bauð mér gott kvöld. Ég beygði hálsinn til að líta upp og sá þá að efst á fjallinu var höfuð. Fjallið var klætt í leðurgalla sem hefur líklega kostað nokkur bjarndýr lífið og lyktaði kröftuglega af austrænum lækningajurtum.

Ég ræskti mig kurteislega og bryddaði upp á samræðum. "Það er ekki mikið af kvenfólki hérna í kvöld" sagði ég. Höfuðið á fjallstoppnum horfði rannsakandi á mig rauðsprengdum augum. Svo sagði það "Veistu hversvegna pussuhlutfallið hérna er svona lágt?". Ég starði upp á fjallstoppinn og hristi höfuðið þögull með munninn opinn. Mér leið eins og ég væri fimm ára og væri að hitta geimveru í fyrsta skipti. "Þær eru ekki nógu gáfaðar til að skilja þessa tónlist - hún er of flókin fyrir þær, skilurðu. Vitlausar þessar pussur. Heh.". Ég gleypti í mér barkakýlið. Þetta var hvorki staður né stund fyrir menntaðar umræður um Hjallastefnuna.

En já, Zappa er flottur. Þeir eru að spila aftur í kvöld, ég veit ekki hvort er uppselt - en ef ekki - skellið ykkur!


Tjáskipti

Lindablinda

Get það ekkert. Ég er pussa og skil ekki svona "gáfaða" tónlist.

baun

ég styð Hjallastefnuna heilshugar ef hún þýðir að ég losna við að sósíalisera við fjöll eins og sessunaut þinn þetta kvöld

Hugi

Ég held að ef þessi maður mundi mæta konu úti á götu þá mundi hann flýja. Er reyndar að fatta núna að ég gleymdi að spyrja hvort hann væri hamingjusamlega giftur.

Gestur

Já, og við erum líklega lesbíur líka. Just in case. Já, og ljótar.

Hugi

Ég sé eftirá að það voru náttúrulega mistök hjá mér að missa mig ekki og rannsaka á honum andlitið með hnefanum. Eða segja "Þér, herra minn, eruð ruddi". Eða... Mig grunar að ef ég hefði gert mig líklegan til að gera eitthvað þess háttar þá hefði ég líklega ekki átt færi á að blogga um þetta. Eða tala um þetta. Þessi lífvera hefði getað sent mig í gegnum vegginn með selbita.

Gestur

Nei, nei. Þarna hefur tilfinningagreindin borið þig ofurliði (yfirliði). Þess vegna ertu lifandi, Hugi, kæri smaladrengurinn. (Fékk þetta frá Hörpu) ;)

Hugskot

Ég dáist að skynsemi þinni Hugi að þegja og einbeita þér að tónlistinni (sem ég reyndar skil ekki baun af eðlilegum ástæðum) .. ég er viss um að ef þú hefðir ekki kyngt kýlinu værir þú ekki til frásagnar - fjallið hefði sest á þig. Sá vægir sem vitið hefur meira :)

Carlo

Hugi á rokktónleikum? Hvað gerist næst?

Hugi

Heh, já, Hugskot og Gestur, sama hvað þið segið, mér finnst minn innri herramaður hafa brugðist gjörsamlega. Ég verð að muna að taka hvíta einvígishanskann minn með á næstu tónleika til að tryggja að þetta gerist ekki aftur. Kalli, já, hvað gerist næst. Ég hef aldrei hlustað á Zappa og var dreginn á þessa tónleika af vinum. Nú er Zappa kominn í uppáhald, maðurinn kunni að semja tónlist. Það er eins og djass hafi dottið í það og lent í rúminu með rokki og eignast vanskapaðan en fallegan bastarð sem fór að sprauta sig með heróíni. Jæja jæja, hörmuleg líking, en tónlistin er góð :-).

Carlo

Ansans að það sé uppselt á Belle and Sebastian. Ég hefði sé sóknarfæri í þeim tónleikum annars :)

hafdisgitar

Hahhahhahha!!!! Skondið fjall með haus :D! Mér sýndist einmitt vera eitthvað um vægast sagt "spes" kalla þarna, sumir þeirra virtust hafa lifað doldið hraðar en aðrir. Taldirðu mig með kellunum sem þú sást? Ég held að ég hafi talið aðeins fleiri kellur en þú, sá a.m.k. tíu stykki :D! Taldirðu mig með (sjá bloggið mitt)? Hihihihihihi... Alla vega, massíft góðir tónleikar!!!!!!!!!!!!! Alveg passlega flókið, það er nú eitt af aðaltjúttinu við þessa tónlist ;)...

hafdisgitar

Híhíhíhí, nú sé ég hvað ég er heimsk kona, ég hef sett inn tómt aukakomment. Ég er greinilega bara vitlaus eftir allt saman :D...

Hugi

Neinei Hafdís, það er kerfið mitt sem er vitlaust. Ég eyði þessu út. Annars alveg sammála öllu sem þú skrifar á blogginu, þessir tónleikar voru þvælugóðir en húsið bar tónlistina engan veginn, þótt hljóðið hafi skánað eftir því sem leið á kvöldið. Það er náttúrulega bara RUGL að láta Steve Vai (sem ég vissi varla hver var fyrr en þetta kvöld) spila undir þjóðhátíðarvæli. Og já úff, það voru spes karkterar þarna. En þú varst reyndar ekki talin með þessum fjórum, sá þig ekki fyrr en undir lokin :-).

Tjáskiptaðu þínu eigin tjáskipti í tjáskiptin