Með lögum skal lýðinn rugla

7. september 2007

Ég var að yfirfara skil á vefverkefni í vinnunni um daginn þegar ég rakst á eftirfarandi setningu:

"Í þeim tilvikum þegar hópbifreið, önnur bifreið sem er meiri en 3.500 kg að leyfðri heildarþyngd eða bifreið með með eftirvagn eða skráð tengitæki er ekið yfir lögleyfðum ökuhraða skal beita sektarfjárhæð að viðbættu 20% álagi."

Þegar ég var hættur að hlæja þýddi ég textann yfir á íslensku:

"Ef bifreiðin er hópbifreið, þyngri en 3.500kg eða með eftirvagn eða tengitæki hækkar sektin um 20%."

Eftir smá fyrirgrennslan kom í ljós að þarna hafði slysast inn óbreyttur texti úr reglugerð. Ég skil hvað liggur að baki, málfar í lögum og reglugerðum verður jú að vera ítarlegt og samræmt, en fyrr má nú rota en dauðarefsa. Flest orðin í fyrri setningunni hafa engan tilgang og þótt "þýðingin" mín sé líkast til ekki lagalega pottþétt má nú alveg skrifa gott mál sem kemur öllu nauðsynlegu á framfæri.

En þetta er náttúrulega snilld. Ég ætla að byrja að tala svona: "Í þeim tilvikum þegar pönnukökuuppskrift þessi er notuð fyrir fleiri en fimm, það er sex, skal beita skráðu hveitimagni að viðbættu 20% álagi."

Og hvað er málið með unga fólkið í dag? Óklippt og illa til haft, gangandi um lyktandi af kannabisefnum. Nöldur nöldur nöldur. I'M OLD! WHERE'S MY PRUUUUNE JUUUIIICE!


Tjáskipti

inga hanna

já það er algjör plága fyrir þig að vera svona aldraður!!

Hugi

Úff, segðu! Ég er farinn að finna grá hár á stöðum þar sem ég vissi ekki einu sinni að ég hefði hár...

hildigunnur

bifreið með með eftirvagn, jámm!

krissi

Ef fólk á við svefnvandamál að stríða þá mæli ég eindregið með reglugerðum um bílaskoðanir.

Kalli

And get off my lawn you damn kids! En í alvöru. Mér finnst það ætti að sekta fyrir svona málfar og ef það er skrifað af opinberum aðilum ætti sektin að vera 20% hærri.

Þór

Í þeim tilvikum þegar aðili ræðir um sekt til handa öðrum aðila sem telst sekur af téðum aðila um brot á reglum Menntamálaráðuneytis um íslenska málfræði og orðnotkun en hefur ekki sannast fyrir dómi að sekt hins síðarnefnda sé öll sem hinn fyrrnefndi segir hana vera skal hinn fyrrnefndi, teljast sekur um meiðingar æru hins síðarnefnda og skal hinn fyrrnefndi greiða hinum síðarnefnda bætur sem nema tíund launa þess síðarnefnda nema hinn fyrrnefndi sé ómagi hins opinbera þá skal hið opinbera greiða hinum síðarnefnda bætur fyrir hönd þess fyrrnefnda sem nema tíund launa þess síðarnefnda. Sé hinum síðarnefnda dæmdar bætur skal hann hafa talist fengið uppreisn æru og meiðingar hins fyrrnefnda að engu höfð og ómerk gerð og skal birt með sannanlegum hætti svo almenningi verði ljós. Jájá, alveg rólegur þarna... Það er vissulega torf í lagabókstafnum, en húmorinn er að lagabókstafurinn er skrifaður ein og hann er einmitt til að forðast tvíræðni. Og við að lesa íslensk lög kemst maður að því að það eru varla til tvíræðari bókmenntir. Mikil skemmtun að lesa lögin. Sérstaklega neytendalögin. Þau eru mjög kómísk :)

Hugi

Jújú, þetta er vissulega kómískt :-). En ég er sammála Kalla, það er alveg agalegt að skrifa svona texta. Og eiginlega glæpsamlegt þegar um er að ræða lög og reglugerðir því hvergi er skýrt og greinilegt málfar jafn mikilvægt!

Sveinbjörn

Eins og rómverski sagnaritarinn Tacitus orðaði þetta: "Því fleiri og flóknari lögin, því spilltari ríkið." En auðvitað eru lögin flókin og illskiljanleg til þess að halda samskiptum við kerfið ómögulegum almúganum -- lítil elíta (read: lögmenn) býr yfir þjálfuninni til þess að skilja kerfið, selja þjónustu sína dýrum dómum til skítugra próletaríanna og halda vandlega um valdbeislið í skjóli sérþekkingar. Ég vil meina að það sé eitthvað til í þessari marxísku greiningu minni.

Sandra Rós

Þetta er einmitt ástæðan fyrir því að fólk fellur í bóklegu prófi. Það er bara hreinlega afþví að fólk skilur ekki hvað er verið að spyrja um! Getur þú tekið að þér að þýða bóklegu prófin?

Tjáskiptaðu þínu eigin tjáskipti í tjáskiptin