Týndi hlekkurinn

21. október 2007

Nýverið heiðraði forstjóri Hinna Íslenzku Vambarhljóðvera mig með því að gera mig að hlekk, nánar tiltekið hlekk í Vínbloggkeðju Víns og matar. Fljótlega í kjölfarið kom sjálfur Herra Vín og Matur í heimsókn, sæmdi mig flösku af ástralska rauðvíninu The Footbolt Shiraz með viðhöfn og skipaði mér að njóta hennar og blogga svo (ég verð að segja að heimsóknir af þessu tagi eru alltof, alltof sjaldgæfar í mínu lífi).

Góð ráð voru dýr því svona vín þarf að smakka með góðum vinum. Það eykur ánægjuna af víninu - og ekki má gleyma því að í hvert skipti sem einhver drekkur einn deyr Þórarinn Tyrfingsson pínulítið. Og ekki vill maður hafa það á samviskunni, maðurinn á fjölskyldu.

Svo ég hringdi í vinkonu mína og bauð í vínsmökkun. Hún þáði.

Góð vínsmökkun krefst góðs matar og af þessu tilefni eldaði ég lamb, nánar tiltekið brúnaða lambaskanka hægeldaða í blöndu af rósmaríni, hvítlauk, skalottulauk og hvítvíni. Líklega hefði naut hentað betur með svo öflugu víni en af trúarlegum ástæðum get ég því miður ekki borðað nautakjöt. Ég trúi ekki á naut.

Eftirfarandi eru punktar frá smökkuninni. y-ásinn á þessari færslu sýnir tímann sem líður, í formi glasa.

Glas 1
Hugi: Vá. Margslungið og bragðmikið vín. Svolítið lúmskt. Finn sterkan ilm af kirsuberjum.
Vinkona: Bragðsterkt. Kraftmikið. Hentar mjög vel með lambinu og mundi líklega líka passa vel með góðri nautasteik eða sterkum ostum.

Glas 2
Hugi: Magnað. Bragðið verður margslungnara þegar maður er aðeins farinn að venjast víninu. Finnurðu þennan þunga ávaxtailm?
Vinkona: Já, algjörlega. Sætur ilmur. Virkar líka léttara. Gæti verið að fyrra glasið hafi skotið bragðlaukana í kaf en mér finnst það ekki jafn þurrt núna og fyrst.

Glas 3
Hugi: Dásamlegt vín. *sötr*. Meira lamb?
Vinkona: Aha. *sötr*. Já takk, endilega meira lamb, þetta er ljúffengt. Taktu höndina af lærinu á mér.

Glas 4
Hugi: Flaskan er að tæmast. Hvað gerum við.
Vinkona: Við verðum að bjarga þessu. Er ekki vínbúð hérna rétt hjá?

Glas 5
Hugi: Ég er farinn í vínbúðina. Viltu meira Footbolt eða eigum við að fara að slamma tekíla?
Vinkona: Hvorttveggja. Tvímælalaust.

(Afsakið hlé)

Flaska 2 - mun síðar
Hugi: ...svo ég sagði við forsetann, á frönsku að sjálfsögðu: "Herra forseti. Þér eruð með ljótt nef. En mér líkar vel við yður og skal taka að mér að stjórna skæruliðaherdeildum yðar, að þeim skilyrðum uppfylltum að ég fái að launum allar gullnámurnar í suðurhéruðum landsins og dúsín föngulegra meyja til að stytta mér stundir. Ennfremur...".
Vinkona: (hrjótandi í sófanum)

Kannski var kvöldið ekki alveg nákvæmlega svona - en þetta er afskaplega gott vín. Féll a.m.k. vel að mínum bragðlaukum, því það er bragð- og kraftmikið en samt flauelsmjúkt - einmitt eins og ég vil hafa rauðvín. Ég er búinn að kaupa það aftur frá því ég smakkaði það (og já, flaskan kostaði held ég kr. 1.790.-).

Og - ég skora á fontagúrúið, sælkerann og badmintontröllið Sigurð Ármannsson að vera næsti Footbolt-smakkari í vínbloggkeðjunni. Megi Bakkus vera með honum.


Tjáskipti

Sigurður Ármannsson

Hljómar vel og bragðast væntanlega jafnvel. Ég er langt kominn með vínið sem ég keypti á útsölunni hjá þeim í Víni og mat svo ég bíð spenntur eftir að smakka meira úr þeim ranni.

Bullu-Kolla

Hugi minn, drekkurðu allar konur undir borðið, eða eru það hetjusögurnar af sjálfum þér þegar þú varst uppi á tímum Napóleons sem gerir það að verkum að þær deyja úr leiðindum? Ég þarf að kíkja á þetta rauðvín við tækifæri, hljómar spennandi ;o)

Hugi

Hlakka til að lesa umfjöllunina þína, Siggi :-). Kolla, þetta eru allt samverkandi þættir, þú trúir því ekki hvað það er góð blanda að vera bæði drykkfelldur OG leiðinlegur. Stráfellir stúlkurnar. :-) En ég var að vísu ekki uppi í tímum Napóleons - var þarna að sjálfsögðu að tala um ár mín sem málaliði á Fílabeinsströndinni á sjöunda áratugnum.

Arnar

Glæsilegt. Ég verð í bandi Sigurður.

Mjása

Kemurðu aftur með þessa skanka! Fussumsvei.

Hugi

Ha Mjása - aftur? Hefur þú verið skönkuð á þessu heimili? Eða hvað hafa mínir skankar gert þér? Ég bara móðgast fyrir hönd skankanna minna.

Kalli

Ég mæli með því að þú spyrjir konu aldrei aftur hvort hún hafi verið "skönkuð", Hugi. Minnir óþægilega á orð í ensku...

Hugi

Kalli þó! Allt sem sagt er á þessum vef er vel og fallega meint. Sérstaklega ef orðunum er beint til einstaklings af fallegra kyninu.

Barbie

Get svo svarið það að mig langar að detta í það eftir að lesa þetta. Hressandi.

Kyngimögnuð

Mér finnst að ég eigi að fá að vera næst í vínsmökkunarferlinu!

Sigurður Ármannsson

Ertu sem sé að skora á mig að skora á þig?

Kyngimögnuð

Öhm ... jááá ... svona undir niðri er ég að skora á þig að að snapa score hjá mér með því að skora á mig. Finnst samt ég ætti að svara þessu skorskoti í öðru ummælakerfi en hans Huga!?!?

Mjása

3. des. 2006. Svakalegt skammtímaminni hefurðu, drengur! ;)

Hugi

Takk Barbie, ég reyni alltaf að hvetja aðra til drykkju þegar ég get. Mjása, bravó! :-) Get ég fengið þig lánaða öðru hvoru til að "muna" hluti fyrir mig. Eins og sést á ég stundum í vandræðum með það.

Tjáskiptaðu þínu eigin tjáskipti í tjáskiptin