Blessuð sólin

3. apríl 2006

Jæja, þá liggur það fyrir að ég fæ í sumar að kíkja á vegum vinnunnar á WWDC 2006 í bjútifúll San Francisco, Kalifornía.

Ég ætla þó að muna eftir sólarolíunni í þetta skipti.

Það brá nefnilega svo til (já, nú er saga) að síðast þegar ég fór á téða ráðstefnu tók ég mér einn aukafrídag til afslöppunarafnota. Það reyndist vera fallegur sumardagur, steikjandi hiti og glampandi sólskin, og ég vaknaði snemma til að fara í sund. Svo lagðist ég með bók í stól við sundlaugina. Það vildi ekki betur til en svo að bókin var leiðinleg og ég sofnaði, sem var ekki góð hugmynd þar sem viðkvæmt rauðbirkið litaraft mitt er ekki hannað til langtímavistunar undir erkióvini mínum, sólinni.

Ég vaknaði eftir nokkurn tíma við grilllykt. Hún reyndist vera af mér. Ég leit niður eftir líkamanum á mér og sá þá að hann geislaði frá sér skærrauðum bjarma sem sló ógnandi roða á allt nágrennið. Ég hökti á fætur og skreið stynjandi fram hjá starandi fólki upp á herbergi þar sem ég flysjaði af mér stuttbuxurnar, lagðist nakinn upp í rúm og bölvaði og bölvaði og bölvaði og ragnaði.

Eftir tæpar 10 mínútur var ég búinn að klára blótsorðaforðann minn þrisvar og ákvað að leggja land undir fót. Ég tiplaði hér um bil nakinn út í búð (það var sárt að bera klæði á brenndan líkamann) þar sem ég sópaði í innkaupakörfu öllum þeim deyfandi smyrslum sem ég fann og flösku af gini. Svo fór ég aftur upp á herbergi, smurði mig með smyrslunum þar til ég glansaði eins og rauðleitur grískur guð, þambaði megnið af ginflöskunni í þeim göfuga tilgangi að svæfa mig og lagðist svo skjálfandi upp í rúm og beið þess sem koma skyldi. Ég vonaði að það væri dauðinn.

Þegar ég vaknaði aftur 6 tímum síðar var sársaukinn ekki jafn slæmur. Hann var verri. Ég mjakaði mér þó á fætur, tíndi hægt saman farangurinn með fingurgómunum og hengdi á mig einhverja larfa, hringdi svo á leigubíl og fór út á flugvöll.

Í röðinni að flugvélinni sem átti að flytja mig til Minneapolis stóð lítil stúlka. hún horfði opinmynnt á mig og sagði svo á íslensku: "Mamma? Hvers vegna er kallinn svona rauður í framan?". Ég kreisti fram bros og svaraði að ég væri pínulítið sólbrunninn. Stúlkan fór að gráta. Ég hefði líka farið að gráta ef ég hefði séð mig, gerði það raunar á klósettinu í flugstöðinni.

Þegar við lentum á flugvellinum í Minneapolis eftir flug sem ég hefði getað svarið að tók a.m.k. hundrað klukkutíma, kom í ljós að loftræstingin þar var biluð og að það var rúmlega þúsund stiga hiti í flugstöðinni. Það var ekki að alveg að virka fyrir mig og meðan ég beið í fjóra tíma eftir tengifluginu kastaði ég nokkrum sinnum upp mér til dægrastyttingar og lét svo líða yfir mig á klósettinu. Þegar ég rankaði við mér á klósettgólfinu, og var búinn að liggja þar í dágóða stund til að íhuga hvað lífið er skemmtilegt, mundi ég að ég hafði í óráðinu skilið eftir uppáhalds jakkafötin mín og frakkann á hótelinu. Ég hringdi í hótelið og bað um að fötin yrðu send á eftir mér. Ekkert mál sagði hótelguttinn og ég andaði léttar.

Ég komst við illan leik til Íslands. En ekkert bólaði á jakkafötunum og frakkanum. Ég spáði ekki í það, þakkaði bara fyrir að sleppa lifandi frá þessari mannraun og eyddi svo næstu tveimur mánuðum í að fylgjast með sjálfum mér breytast í hreistrað skrímsli úr Stephen King-skáldsögu meðan húðin á mér kvaddi þennan heim í litlum skömmtum.

Hálfu ári síðar birtist á tröppunum hjá mér einhver lífsreyndasti böggull sem ég hef á ævinni séð. Hann var með yfirkrotuðum merkimiðum frá löndum sem ég vissi ekki einu sinni að væru til. Ef þessi pakki hefði getað talað, þá hefði enginn nennt að hlusta á hann, hann hefði kunnað langdregnar sögur af færiböndum úr öllum helstu póstflokkunarmiðstöðvum heimsins. Þetta var Grampa Simpson pakkanna.

Pakkinn var ca. 20 sentimetrar á hvern kant og þegar ég opnaði hann gaus upp svo megn stybba að það var næstum því trúarleg upplifun. Það var eins og öll þorrablót íslandssögunnar væru saman komin á einum stað. Upp úr þessum agnarsmáa pakka komu: Ein samanvöðluð Armani jakkaföt, kæst. Einn Boss frakki, súrsaður og kæstur. Og skítugt, blautt, kasúldið baðhandklæði sem ég hafði líka gleymt á hótelinu og starfsfólkinu hafði fundist svona líka frábær hugmynd að setja með í pakkann, rétt til að viðhalda góðri kæsingu út ferðatímann. Innihaldið fór í ruslið.

Og þannig lýkur lengstu sögu sem ég hef nennt að skrifa. Illa.

Neinei, lifi fjörið. Og munið eftir sólarolíunni.


Tjáskipti

Kalli

Má ég vera laumufarþegi? Ég er grannur og auðvelt að koma mér fyrir í ekki svo stórum töskum. Ég er líka innan við 70 kíló. I'm gay for Steve Jobs.

Hugi

Jú, mig vantar raunar einhvern til að sjá um að bera sólarolíu á mig. Spurning hvort við hittumst í Hagkaup á morgun og mátum töskur?

Kalli

Gay for Steve Jobs. Sorry, Hugi, en það gayness nær ekki lengra...

Hugi

En þetta tiltekna gayness mundi einmitt þjóna þeim tilgangi að koma þér til Steve, kemur það ekki þannig út á eitt? Og það er svo sem ekki eins og það sé eitthvað athugavert við það að tveir karlmenn í blóma lífsins hittist og beri olíu á hvorn annan.

Kalli

Ekki ef þeir stunda vaxtarrækt en það er náttúrulega hel-ghey sport!

Hugi

Mér finnst reyndar Mjög. Margt. Að. Því. Grábölvað, ég var að vonast eftir góðum draumum í nótt en nú er hausinn ég mér pakkfullur af olíubornum vaxtarræktarmönnum. Hvar setti ég nú viskíflöskuna...

Kalli

Ég er nokkuð glaður meðan þig dreymir ekki mig að rjóða þig olíu í San Fransisco.

Hugi

Á þessu stigi málsins lofa ég engu. Og trúðu mér, það hryggir mig meira en þig.

Lindablinda

Þið félagarnir auðvitað bara sætastir :D Þetta fannst mér skemmtileg saga Hugi. Ég hló. Það þýðir oftast að mér finnst eitthvað skemmtilegt, nema þegar ég er hrædd. Þá hlæ ég líka. Var ég kannski hrædd? Annars á maður einungis að taka með sér reynda Sanfranciscinga til San Francisco og kemur þá enginn annar til greina en konan sem bjó þar í fimm ár. MOI. Ég veit líka hvar er hægt að kaupa bestu varnirar og víla ekkert fyrir mér að smyrja þeim á þig Hugi minn, þó þú sért rauðhærður. Ég veit líka hvar er best að borða, versla, hanga og djamma, þannig að ég er sjálfkjörin í töskuna. Ég er líka undir 60 kílóum þannig að ég kemst í handfarangur.

Siggi Óla

Snilldarsaga! Hef raunar heyrt hana áður í smærri skömmtum, en takk fyrir upprifjunina. Kalli: Vaxtarrækt! Gay sport! Þvílíkt rugl! Ætlar þú næst að halda því fram að Spartagus hafi verið gay kvikmynd? Ha?!

baun

þó að ég hafi fengið heilmikið út úr því að sjá ykkur félaga fyrir mér rjóðandi olíu hvor á annan (á bera vöðvastælta glansandi kroppana)....þá langar mig að benda Huga á að kaupa sér frekar áburð en olíu, nema hann vilji endurtaka sólbrunann í xta veldi... takk fyrir söguna, alltaf skemmtilegt að lesa um ófarir annarra;-)

Kalli

Vöðvastælta, já... Siggi: ekki frekar en ég færi að draga gagnkynhneigð George Michael í efa!

baun

æ Kalli, leyfðu mér að halda í myndina í hausnum á mér... þekki ykkur ekki baun náttla;-)

Kalli

Ég get ekki talað fyrir hönd Huga en veit hvað ég sé í speglinum þegar ég fer í sturtu :p

Hugi

Æjá, sólaráburður var það heillin. Eins gott að þú nefndir það :-). Linda, þessi saga var ætluð til að hræða menn til að nota sólaráburð. Við hjá Umferðarstofu kunnum þessa taktík, sjáðu til. Og öll góðráð innherjans varðandi SF eru stórvel þegin. Annars gæti ég lent í að eyða öllum tímanum úti í að reyna að pikka upp stelpur á gay-bar. Eða í vaxtarræktarstöð. Nú, vantar aðstoð við mental image já. Á ég að birta á mér málin á vefnum, eða?

baun

mynd væri betri ef þú ert 1.50, með herðakistil, kiðfættur, þrjú ljót höfuð og grænleita anga út úr bringunni þá vil ég.... endilega sjá mynd

Hugi

LOL, góð ágiskun. En ég er reyndar 1,40 á hæð með tvo tréfætur, hálfvaxinn síamstvíbura hangandi úr mjöðminni og páfagauk bráðnaðan fastan við öxlina eftir að ég varð fyrir eldingu í Surtseyjargosinu. En ég er nokkuð stæltur og held mér í góðu formi.

baun

ég er hrædd við páfagauka

Lindablinda

Ekki vandamálið. Get ausið úr viskubrunninum yfir þig, sem er skárra en að ég skvetti úr skjóðunni. Það væri samt mun auðveldara að líma mig fasta við hnéð á þér og halda því fram að ég sé hluti af óskapnaðinum og drösla mér með ókeypis. Heimta jafnvel Saga Class vegna þess hversu einstakur þú sért. Vittu bara að ef þú ert staddur í hverfi sem kennt er við Castro er ekki gott að standa í kvennafari en sömuleiðis er ekki gott að senda út ég er á lausu víbra á þeim börum. frh. síðar, nema ég fái crazy glue og leiðbeiningar í pósti á næstu dögum

Hugi

Baun, það er ekkert mál að venja sig af ótta við páfagauka. Þú þarft aðeins að verða þér úti um eina þrjá, sjóða þér seyði úr hjörtunum úr þeim og drekka svo á fullu tungli. Virkaði vel fyrir mig. Linda, ég held mig þá frá skiltum með Castro-merkingum. Ef þú vilt láta á reyna með límið verð ég að vara þig við, Gylfi tvíburi er frekar afbrýðisamur og á það til að bíta kvenfólk sem kemur of nærri mér. Mamma prjónaði reyndar hettu sem ég get sett yfir hann til að róa hann þegar ég þarf virkilega að koma nálægt kvenmanni, en ég hef aldrei prófað að nota hana lengur en klukkutíma í senn.

Gestur

Nú hló ég svo mikið að það hrökk ofan í mig lítið svindlpáskaegg sem ég maula þegar barnið er sofandi. Þessi var góður. Varðandi bruna mæli ég með aloe vera geli frá Banana Boat, fæst í Flugstöðinni. Það bjargar manni. Í alvöru. Líka þegar maður brennur svo illa að maður fær kölduhroll og hita í einu. Lenti í því fyrir alls ekki svo löngu.

Hugi

Góða kvöldið Gestur :-). Gaman að gleðja, og ég mun hafa þetta sterklega í huga með Aloe Vera-gelið. Þrátt fyrir að vera orðinn gjafvaxta karlmaður er ég með viðkvæmari húð en fóstur á fyrsta mánuði þannig að það á eftir að koma í góðar þarfir. Ég brenn við það eitt að hugsa um sól.

Gestur

Já, góða kvöldið ;-)

Stefán Arason

Nú er ég búinn að hlæja 4 sinnum...einn heima...niðurstaða: þið eruð fyndin.

Tjáskiptaðu þínu eigin tjáskipti í tjáskiptin