Feminismi

1. apríl 2006

Umræður í tjáskiptunum um daginn urðu til þess að ég fór að rifja upp skoðanir mínar á feminisma, sem ég var annars búinn að bæla niður og setja í langtímageymslu einhversstaðar aftarlega í hnakkadeild heilabúsins.

Ég var nefnilega á akstri eftir Sæbrautinni fyrir skemmstu þegar ég varð fyrir því óhappi að kveikja á útvarpinu og lenda á Hrafnaþingi hjá Ingva Hrafni. Hann var að venju með feminista í viðtali. Þessi tiltekni feministi var að tala um hvað það væri dæmigert fyrir karllægni samfélagsins að tala um að sáðfruman frjóvgaði eggið við getnað, að það væru ótrúlegir fordómar að tala um framlag karlmannsins sem geranda á meðan konan sæti alltaf aðgerðalaus. Réttara væri að tala um samvinnu eggs og sáðfrumu fremur en frjóvgun.

Þegar feministinn var búin að ropa þessari speki upp úr sér slökkti ég á útvarpinu, keyrði út í kant, stöðvaði bílinn og barði hausnum í stýrið í nokkur skipti. Maður bara spyr sig, hvað er eiginlega að? Er feminisminn virkilega orðinn svo hörð speki að hann vegur þyngra en líffræðilegar staðreyndir? Eða missti ég af líffræðitímanum þar sem var sagt frá því hvernig eggið dansar eggjandi dans (no pun intended) til að lokka til sín réttu sáðfrumuna, eldar fyrir hana kvöldmat og hellir hana fulla, og þröngvar sér svo upp á hana með valdi?

Ég er ótvíræður jafnréttissinni og íhugaði að ganga í karlahóp feministafélagsins á tímabili, en ég held að feministahreyfingin sé aðeins að missa sig. Vegurinn til vítis er varðaður góðum fyrirætlunum.


Tjáskipti

Siggi Óla

Siggi Óla

Siggi Óla

Úbbs....smá "premature posting" í gangi. Þetta er yfileitt EKKI vandamál hjá mér sko..... Ég er sammála málshefjanda. Það er fulllangt seilst að endurtúlka getnaðinn út frá feminískum forsendum. Ég meina....sáðfrumurnar þurfa að synda einhverjar fáránlega vegalend til að þetta gangi upp- á meðan eggið þarf ekkert að gera nema punta sig og vera eggjandi. Mér finnst reyndar merkilegt hvað feministar eru illfáanlegir til að ræða það að einhver líffræðilegur munur geti haft áhrif á tilfinningalíf og atferli kynjanna. Feministar eru hins vegar flestir á því að við séum eina dýrategundin sem er þannig gerð (Ekki það að ég kaupi allt mars-venus/hellisbúa kjaftaæðið)

baun

hjartanlega sammála þér...

Kalli

Nú heyrði ég auðvitað ekki þetta viðtal en hljómar eins og það sé smá minnimáttarkennd í gangi. Auðvitað er lokaútkoman samvinna (að einhverju leyti) karls og konu og sáðfrumu og eggs. Þó ég sé nú ekki líffræðingur held ég sé óhætt að segja að sáðfruman frjóvgi eggið. Eggið hins vegar verður síðan að barni. Er ástæða til að vera með minnimáttarkennd útaf svona? Ættu karlar ekki að vera með blússandi minnimáttarkennd yfir því að eiga ekki meiri hlut í þessu?

Lindablinda

Hef ávallt pirrað mig á konum sem kalla sig feminista, en vaða í villu og svíma karlfyrirlitningar og haturs ásamt vænum slatta af minnimáttarkennt og hofróðugangi. Skildi heldur aldrei af hverju konur sem kölluðu sig feminista voru alltaf svo ókvenlegar og illa hirtar. Það hefur nú skánað í seinni tíð. Hvenær ætlar fólk að átta sig á að þetta snýst um gagnkvæma virðingu, samvinnu og jafnræði, en ekki einhverja andskotans yfirburði og hroka hvort sem það eru konur gagnvart mönnum eða öfugt? ( ég sem ætlaði ekki að segja neitt í nokkra daga, en ég gat ekki setið á mér, ég er viljalaus)

BLinda

minnimáttarkennd var það heillin .......

Hugi

Þetta vissi ég, þið eruð öll bráðgreint og skemmtilegt fólk með réttar skoðanir. "Réttar skoðanir" verandi þær skoðanir sem ég aðhyllist, að sjálfsögðu. Og Linda, endilega ekki draga þig í hlé, það væri tjáskiptunum mikil blóðtaka.

Kibba

Látið ekki svona krakkar mínir. Það er alveg vitað að konur eru köllum æðri. Þær eru gáfaðari, fallegri, sniðugri og fullkomnari. Það á að setja okkur á stall, smyrja okkur með gullnu smjéri (svona eins og búddha) og tilbiðja okkur. Femínistar hafa að sjálfssögðu rétt fyrir sér enda sést það á líkamsháravexti þeirra. Því fleiri handakrikahár - því gáfaðri erum við (konur að sjálfssögðu.. þetta er akkúrat öfugt hjá körlunum). með femínistakveðju Kibba ... sem er í óðaönn að smyrja á sig gullnum smjörva en hann virðist ætla sitja illa í lappahárunum.

Hugi

Jújú, þetta vita allir - það er bara óþarfi að núa okkur karlmnönnum því um nasir. Og ég hef sko oft smurt kvenmann upp úr smjöri og tilbeðið svo í dágóðan tíma. Ég nota reyndar smjörlíki, smjörið þránar svo hratt.

Stefán

Nú verður vísindasagnfræðingurinn að koma feministanum í þætti Ingva Hrafns til varnar. Hér hefur viðmælandinn greinilega verið að vísa í greinina "The Egg and the Sperm" eftir Emily Martin, en hún er skyldulesning fyrir alla þá sem leggja stund á vísindaheimspeki, vísindasögu eða vísindafélagsfræði. Í greininni bendir Martin réttilega á hvernig orðræða raunvísindanna, einkum myndlíkingar af ýmsu tagi, er aldrei hlutlaus heldur tekur mið af ríkjandi viðhorfum í samfélaginu á hverjum tíma. Þannig skiptir máli hvort vísindaskrif séu sprottin úr samfélagi einveldis eða lýðræðis - kapítalisma eða kommúnisma. Hugmyndin um að abstrakt lýsing á raunvísindalegum staðreyndum sé möguleg óháð félagslegum og menningarlegum þáttum er sterk í huga almennings, en hefur verið hafnað af flestum vísindasagnfræðingum. Þróunarkenning Darwins hlýtur þannig að taka mið af því að hún er sett fram á tímum óhefts kapítalisma í Bretlandi iðnbyltingartímans. Grein Emily Martin um það hvernig líffræðin hefur gripið til gamaldags myndlíkinga á frjóvgun eggsins er ekki ofstækisfull á nokkurn hátt, heldur málefnaleg og sannfærandi. Hún notar líffræðileg rök máli sínu til stuðnings til að sýna fram á að annars konar lýsing fyrirbærinsins sé möguleg og í fullu samræmi við viðurkennda vitneskju. Hvers vegna við kjósum þá að velja þær myndlíkingar sem leggja áherslu á eggið sem passívt en sáðfrumurnar sem gerandann hlýtur því að kalla á félagslegar skýringar. Það er minnsta mál að koma á þig eintaki af greininni. Hún er stutt, fljótlesin og bráðskemmtileg. Kv, Stefán Pálsson e.s. Steinunn biður að heilsa

Elías

Þetta minnir mig á sögnina "serða" sem ætíð hefur verið mér hugleikin. Mér hefur sýnst hún vera germyndarhreyfisögn, þeas, eitthvað frumlag gerir eitthvað við eitthvað andlag. Þetta er ekki gagnkvæmur verknaður, heldur verknaður þar sem annar aðilinn serðir og hinn er sorðinn. Hvað ætli femínistar segi um þetta?

Hugi

Áhugavert innlegg, Stefán. Það væri gaman að glugga í þessa grein, smá gúgl birti heilmikla umræðu um hana en ég fann ekki greinina sjálfa. Ef þú átt hana á rafrænu væri það frábært, annars kippirðu henni kannski bara með þegar ég boða til matarsvalls á næstunni. Elías, sögnin "serða" er ruddaleg og notkun hennar er alltaf algjörlega óviðeigandi. Nútímaherramaðurinn talar um að "refsa", en það er aðgerð sem bæði kynin geta framkvæmt. Þá þarf aðeins að velja hvor aðilinn sér um að útdeila refsingu og hvor tekur við henni, allt eftir því hvort hefur verið óþekkara, stúlkan eða strákurinn.

Orri

Gaman að komast að því að maður sé hjartanlega ósammála flestum vísindasagnfræðingum. Þeir eru rugludallar. Eða ég.

Tjáskiptaðu þínu eigin tjáskipti í tjáskiptin