Allt best fyrir austan

8. ágúst 2007

Meira að segja húsflugurnar á Norðfirði eru fallegri og skapbetri en aðrar húsflugur.

Þetta eintak tyllti sér með okkur við matarborðið í fyrrakvöld og var hin rólegasta. Ég gaf henni dropa af hlynsírópi sem hún át upp til agna, en svo ropaði hún og rölti í rólegheitum upp á handarbakið á Hildi systur (sem tók samstundis ástfóstri við hana). Við reyndum að kenna henni að tala, en það gekk illa, hún bara náði ekki sterkum sögnum og tíðbeygingu.

Svo við slepptum henni. En ég bíð spenntur eftir að frétta hvort hún nær aftur að aðlagast samfélagi húsflugna eða hvort hún á eftir að veslast upp og finnast dauð í einhverjum norskum firði.


Tjáskipti

inga hanna

er hún með fjólublá augu??

Hugi

Búinn að rannsaka og litgreina myndaseríuna sem ég tók - og já, augun virðast vera fjólublá. Fallegt!

hildigunnur

bzzzZZZZZZ...

inga hanna

er ekki lágmark að nefna svona góðvin? mér finnst svoldið ópersónulegt (eða óflugulegt) að vera kölluð "eintak"...

Einar

Áhugavert... ég held að það sé að koma upp einhver nýr stofn af húsflugum. Það er ein búin að vera inni hjá okkur sem kemur alltaf til okkar strax á morgnanna. Suðar svo í kringum okkur allan daginn. Hún elti okkur inn í eldhús, á klósettið og reyndar bara út um allt (nema út). Sævar Snær var farinn að kalla hana litla bróðir... Síðan allt í einu hætti hún að gleðja okkur með nærveru sinni. Kennir manni að það er ekki gott að bindast dýrum of miklum tilfinningaböndum ef meðallífaldur þeirra er ekki nema 7 dagar :(

Sigurður Ármannsson

Hér er ágætis innlegg í húsfluguþáttinn: http://www.entomon.net/dangerous-housefly-mosquito-insects.htm Kveðja,

lindablinda

Talandi um íslenskukennslu.............. "tók ástfóstri við......henni...." ????

DonPedro

erm...hvaða linsa?

Hugi

Inga, hmm, ertu með hugmyndir að nöfnum? Þar sem þetta er fluga og ég heiti Hugi, þá er "Flugi" alveg augljós kostur. Nema flugan er líklega kvenkyns og kvenkyns útgáfan af því nafni er "Fluga". Og það er bara ekkert voðalega frumlegt. Aðrar tillögur? Einar, hjartfólgnar samúðarkveðjur vegna litla bróður! Það er alltaf sárt að missa ástvin. Siggi, ég held að Malaría sé ekki landlæg fyrir austan. Held ég örugglega, samt ekki viss. Hvað veit maður með alla þessa útlendinga uppi á Kárahnjúkum... Uss Linda, hvaða hvaða, þágufallssýki er gullfalleg ;-). Pedro, þú rétt ræður hvort þú trúir mér en þessa mynd tók ég á pínulitlu Ixus-vélina mína. Hún nær alveg furðanlega góðum nærmyndum.

Tjáskiptaðu þínu eigin tjáskipti í tjáskiptin