Føroya raekja

4. júní 2006

Ég lá í makindum mínum áðan og var að gæða mér á sleikipinna og lesa Vikuna þegar dyrabjallan hringdi. Sem mér þótti undarlegt, því ég er ekki með dyrabjöllu. En það er önnur saga.

Ég fór til dyra og þar stóð maður, enda er það venjan þegar dyrabjallan hringir, jafnvel þótt maður sé ekki með dyrabjöllu. Tvennt vakti strax athygli mína. Í fyrsta lagi hvað maðurinn líktist Jude Law óhugnanlega mikið. Við erum að tala um að hann leit bara nákvæmlega eins út og Jude Law. Það var eins og Jude Law hefði verið ljósritaður, nema í ljósritunarvél sem skilar ekki pappír, heldur fólki sem er nákvæmlega eins og Jude Law.

Hitt sem vakti athygli mína var var að maðurinn var með fangið fullt af kössum með myndum af rækjum á og á þá stóð skrifað klunnalegum prentstöfum "Føroya raekja, ofboðslega gott raekja, namm namm, betri en venjulegt raekja". Lyktin sem barst frá kössunum var... Vafasöm.

Maðurinn brosti glaðlega til mín, ræskti sig og kynnti sig svo á skelfilegu hrognamáli sem rækjusölumann, kvaðst vera að selja bestu rækjur í heiminum og sagði að ég bara yrði að kaupa af honum rækjur. Svo tók hann rækju úr vasanum og bauð mér að smakka.

Ég horfði forviða á rækjumanninn í nokkrar mínútur (talandi um langar vandræðalegar þagnir) gagntekinn af því hvernig hann leit út eins og Jude Law hefði snýtt honum úr nösinni á sér, nema ekki snýtt tóbakslegi heldur Jude Law, afþakkaði svo pent og sagði honum að hypja sig í burtu. Svo skellti ég hurðinni á nefið á honum. Hann hrópaði í gegnum dyrnar (umritað á íslensku) "En þær eru rosalega góðar - ég get líka komið inn og búið til rækjukokteil ef þú vilt það frekar". Ég hunsaði hrópin, setti háværan djass á fóninn og horfði svo á manninn í gegnum gægjugatið.

Hann stóð með vonarsvip fyrir utan hurðina í dágóðan tíma, en svo kom skeifa á andlitið á honum, hann varð niðurlútur og ég heyrði hann tauta við sjálfan sig "Enginn kaupa rækjur á Íslandi, voða skrítnir íslendingar".

Hann leit vonleysislega í kringum sig og fór svo upp stigann á þriðju hæð þar sem hann bankaði á hurðir. Ég heyrði að ein hurðin var opnuð - og síðan hef ég ekki heyrt meira í honum.


Tjáskipti

Þór

Hmmmm... Ætli Lifur hafi farið í Judelitsaðgerð ? Og sé kominn aftur frá Föroyum? Mundu bara, ef nágranni (afhverju er þetta kallað NÁ-granni ? Ég þekki enga dauða granna..) fer upp í 10 í f(x) skalanum, þá er dyragættin öruggasti staðurinn :-)

Hugi

Maðurinn kynnti sig ekki með nafni. En þetta var ekki Lifur því þetta var útlendingur - hann talaði með vægast sagt þykkum hreim. Þetta er náttúrulega rugl, að draga mann frá Vikunni á sólskinsdegi til að selja manni rækjur. Sérstaklega þar sem ég á skelfilegar minningar úr æsku tengdar rækjum.

Lindablinda

Ég líka! Jarðaber og rækjur og ég fæ hroll.

Alda

Það var ekkert *hóst* - símanúmer á þessum rækjupakkningum sem þú vildir svo skemmtilega til að hafa lagt á minnið? Allir Jude Law klónar velkomnir til mín að búa til "rækjukokteil"... jafnvel talandi færeysku.

Þór

Linda: Tíndir þú jarðaber útí Svíþjóð ? :-P Hugi: hvað veit maður nema Lifur hafi gleymt íslenskunni og sé orðinn Føroyskur ? A guess as good as any I'd say considering his .net absence ;-)

Lindablinda

Já Þór, týndi og át jarðaber á búgarði í Svíþjóð. Týndi rækjur einhversstaðar annarsstaðar!! Hvernig vissirðu?

Hugi

Ég þekki hvernig það er að vinna á þessum rækjubúgörðum, alveg skelfilegt. Og ef ekki náðist að klára að taka alla uppskeruna í hús fyrir heitasta tíma sumarsins, úff, lyktin maður. Ég var samt heppinn, var yfirleitt settur í að grisja humartrén sem var róleg vinna. Alda ég sá því miður ekkert símanúmer. Spurning um að auglýsa eftir karlmanni með rækjukokteila í huga á einkamal.is?

Þór

Linda: það hljómaði bara þannig :) Hvaða íslendingur sem hefur átt heima útí Sverige hefur EKKI tínt jarðaber ? ;-) Ég tíndi ( í frístundum þegar berjabændur sáu ekki til ;-) ) sem polli í ræktinni við Hyllie Vattentorn ( Malmö )

Lindablinda

Rækjukokteill í Huga???? Framan eða aftan?

Hugi

Nei Linda, nú ertu alveg að missklija, haha, gaman að því. Honum tókst sko ekki að koma rækjukokteil í Huga.

Lindablinda

Hef aldrei búið í Svíþjóð Þór - tæknilega séð..... - foreldrar mínir sendu mig í jarðaberjabúgarðaþrælkun þegar ég var 10 ára því þau langaði í nýtt mottusett á gestaklósettið. Fjúkk Hugi, sem betur fer. En ég veit hvað þú ert að tala um með andskotans rækjubúgarðana. Það var þegar að foreldra mína vantaði nýjar grilltangir. Aaaaa good times.

DonPedro

Mmmmmh rækjushake. MMMMmmmh Rækju-frostpinni.

Hugi

Pedro, ekki gleyma súkkulaðihúðuðum rækjum. Ómissandi í konfektkassann og góðar með kaffinu.

Lindablinda

Það var enmitt djobbið mitt - að dýfa þeim í súkkulaðið, með flísatöng.

Tjáskiptaðu þínu eigin tjáskipti í tjáskiptin